Fara í efni

Tillaga um að tryggja hitaveituréttindi Skagafjarðarveitna.

Málsnúmer 1402122

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 311. fundur - 12.02.2014

Sigurjón Þórðarson sveitarstjórnarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra leggur fram eftirfarandi tillögu: Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkir að láta gera lögfræðilega úttekt á hitaveituréttindum á þeim lindum sem Skagafjarðarveitur nýta.

Greinargerð
Skagafjarðarveitur hafa haft að leiðarljósi að tryggja íbúum og fyrirtækjum heitt vatn á hagstæðu verði og stækka þjónustusvæði hitaveitunnar. Til að svo megi verða til framtíðar er nauðsynlegt að það fari fram lagaleg úttekt á heitavatnsréttindum á þeim lindum sem
Sveitarfélagið Skagafjörður nýtir.
Í samfélaginu er uppi ákveðin sókn stórfyrirtækja í að ná til sín orkuauðlindum landsins og má sjá skýr merki þess í Skagafirði. Það er mikilvægt að kjörnir fulltrúar almennings séu á varðbergi gagnvart ásælninni og tryggi að Skagafjarðarveitur geti um ókomna framtíð þjónað markmiðum sínum.

Stefán Vagn Stefánsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi breytingartillögu.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að fela veitunefnd að láta framkvæma lögfræðilega úttekt á stöðu sveitarfélagsins er kemur að jarðhita- og kaldavatnsréttindum sveitarfélagsins, bæði á þeim vatnslindum sem nú eru í notkun sem og þeim vatnslindum sem mögulegt er að farið verði í á næstu árum í samræmi við þá vinnu sem nú er í gangi hjá veitunefnd sveitarfélagsins.
Gert er ráð fyrir því að sá kostnaður sem af verkinu hlýst verði greiddur af eigin fé sveitarfélagsins og að um það verði gerður sérstakur viðauki við fjárhagsáætlun ársins 2014.

Greinargerð
Mikilvægt er fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð að lögformleg staða sveitarfélagsins sé skýr er varðar jarðhita- og kaldavatnsréttindi sveitarfélagsins. Eðlilegt verður að teljast að slík vinna fari fram hjá veitunefnd og veitu- og framkvæmdarsviði sveitarfélagsins. Veitunefnd sveitarfélagsins er að vinna í því að teikna upp framtíðarmöguleika veitanna með það að markmiði að stækka þjónustusvæðið og fjölga notendum sem aðgang hafa að heitu vatni í Skagafirði. Því er eðlilegt að litið sé til þess jafnframt því að skoða þau vatnasvæði sem nú þegar eru í notkun í því lögfræðiáliti sem lagt er til að farið verði í. Ekki er síður mikilvægt að skoða stöðu á þeim svæðum er sjá íbúum og fyrirtækjum fyrir köldu vatni.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir kvaddi sér hljóðs, þá Stefán Vagn Stefánsson, Sigurjón Þórðarson, Jón Magnússon, Bjarni Jónsson með leyfi varaforseta, Sigurjón Þórðarson, Stefán Vagn Stefánsson, Bjarni Jónsson með leyfi forseta, Sigurjón Þórðarson, Bjarni Jónsson með leyfi varaforseta, Stefán Vagn Stefánsson, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Jón Magnússon og Bjarni Jónsson með leyfi varaforseta.

Breytingartillaga Stefáns Vagns borin undir atkvæði og samþykkt með níu atkvæðum.