Fara í efni

Áætlun um tekjutap vegna áforma um frystingu framlags ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Málsnúmer 1903169

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 861. fundur - 20.03.2019

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsettur 18. mars 2019 varðandi áætlun um tekjutap sveitarfélaga vegna áforma um frystingu framlags ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga árin 2020 og 2021.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 862. fundur - 03.04.2019

Lagt fram minnisblað dagsett 18. mars 2019 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi áætlun um tekjutap vegna áforma um frystingu framlags ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga árin 2020 og 2021.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar átelur þau áform sem birtast í fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2020-2024 um frystingu framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árunum 2020 og 2021. Vinnubrögð stjórnvalda í málinu eru þeim til mikils vansa en fulltrúum sveitarfélaga var tilkynnt einhliða um þessa ákvörðun fyrir skemmstu og var þar með farið á svig við lög um opinber fjármál sem kveða á um að við mótun fjármálaáætlunar skuli ráðherra leita samkomulags við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Áhrif frystingar framlaga Jöfnunarsjóðs hefur mest áhrif á fámennari og dreifbýlli sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins og gerir þeim mun erfiðara um vik að veita íbúum sínum sem besta þjónustu. Sem dæmi um þetta má nefna að ef tillagan nær fram að ganga mun áætluð tekjuskerðing Sveitarfélagsins Skagafjarðar nema um 117,9 mkr. á þessu 2ja ára tímabili auk 8,6 mkr. vegna málefna fatlaðs fólks.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar krefst þess að framangreind tillaga um frystingu framlaga til Jöfnunarsjóðs verði dregin til baka.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 872. fundur - 26.06.2019

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 20. júní 2019 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þau ánægjulegu tíðindi hafa komið fram á formlegan hátt í breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar við tillögu að fjármálaáætlun að horfið er frá frystingu framlaga til jöfnunarsjóðs.
Byggðarráð fagnar framkominni breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar Alþingis enda mikilvægt hagsmunamál fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð.