Fara í efni

Samráð; Valkostir og greining á vindorku - skýrsla starfshóps

Málsnúmer 2304134

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 46. fundur - 03.05.2023

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 24. apríl 2023 þar sem umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 84/2023, "Valkostir og greining á vindorku. Skýrsla starfshóps".
Umsagnarfrestur er til og með 18.05.2023.

Byggðarráð Skagafjarðar - 48. fundur - 17.05.2023

Málið áður á dagskrá 46. fundar byggðarráðs þann 3. maí 2023. Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 24. apríl 2023 þar sem umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 84/2023, "Valkostir og greining á vindorku. Skýrsla starfshóps". Umsagnarfrestur er til og með 18.05.2023.
Meirihluti byggðarráðs Skagafjarðar fagnar því að unnið sé að heildar stefnumörkun stjórnvalda um fyrirkomulag og nýtingu á vindorku á Íslandi. Jafnframt telur byggðarráð að vindorkugarðar yfir ákveðnu umfangi eigi að falla undir rammaáætlun þannig að tryggt sé að fram fari vandaður undirbúningur og rannsóknir á áhrifum slíkra garða áður en ráðist er í framkvæmdir. Viðkomandi sveitarfélög verða að vera með í ráðum og eiga aðkomu að umfjöllun um slíka garða á sínu svæði. Staðsetning vindorkugarða verður einnig að vera sem næst því flutningskerfi sem byggt hefur verið upp og áformað er að byggja á næstu áratugum. Þegar öllu er á botninn hvolft er það fyrst og fremst aðgengi íbúa og fyrirtækja í okkar sveitarfélagi að raforkunni sem skiptir máli. Það er skýlaus krafa af hálfu meirihluta byggðarráðs Skagafjarðar að kerfið í heild, þ.e.a.s framleiðsla og flutningur, verði þannig uppbyggt á landinu að aðgengi allra landshluta og svæða sé sambærilegt og að skortur á rafmagni hefti ekki raunhæfa og nauðsynlega uppbyggingu heimila og atvinnulífs eða hamli því að markmiðum um orkuskipti verði náð.
Álfhildur Leifsdóttir, VG og óháðum og Jóhanna Ey Harðardóttir, Byggðalista óska bókað:
Mikilvægt er að rannsaka nýtingu vindorku nánar á Íslandi og kynna fyrir almenningi áður en teknar eru óafturkræfar ákvarðanir. Gera skal ríka kröfu til þess að sýna fram á hvort þessi gerð virkjana samræmist og falli að íslenskum aðstæðum, náttúru, víðernum, samfélagi og efnahag. Setja þarf skýrar reglur um vindorkuvirkjanir t.d. um stærð þeirra, efni, lit, hver fjarlægir þær að notkun lokinni og annað sem er ráðandi um hvaða afleiðingum þær valda. Ef ráðist er í byggingu vindorkuvera þarf að meta þau innan rammaáætlunar og eins verða framkvæmdir þessar að lúta lögum og reglum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um auðlindagjald. Aðlaga skal reglur um mat á umhverfisáhrifum að byggingu vindvirkjana. Einungis skal leyfa byggingu vindorkuvera sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar að undangengnu umhverfismati og í sátt við náttúru og samfélög. Setja þarf skýrar reglur um innheimtu auðlindagjalds af vindorkuverum og marka þarf stefnu hið fyrsta um nýtingu vindorku jafnt á landi og í hafi í íslenskri lögsögu. Vindorkuver eiga aðeins heima á þegar röskuðum svæðum á landi með tengingu við vatnsaflsvirkjanir og fyrirtæki í almannaeigu hafi forgang í þessum málum. Ríkja þarf sátt um nýtingu vindorku. Kalla þarf eftir afstöðu almennings og félagasamtaka m.t.t. náttúru- og umhverfisverndarsjónarmiða og eignarhalds vindorkuvera hérlendis.