Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

49. fundur 24. maí 2023 kl. 14:00 - 14:42 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Álfhildur Leifsdóttir tók þátt í fundinum með fjarfundabúnaði.

1.Stuðningur við körfuknattleiksdeild Tindastóls

Málsnúmer 2305153Vakta málsnúmer

Byggðarráð samþykkir að styrkja körfuknattleiksdeild Ungmennafélagsins Tindastóls um 2.000.000 kr. vegna framúrskarandi árangurs meistaraflokks karla þar sem liðið varð Íslandsmeistari í efstu deild, Subwaydeildinni, auk þess sem árangur annarra liða stúlkna og pilta var með ágætum. Ungmennaflokkur drengja hampaði Íslandsmeistartitli 2. deildar í sínum flokki.
Byggðarráð óskar meistaraflokki karla og körfuknattleiksdeildinni til hamingju með frábæran árangur sem og þeim fjölmörgu sem hafa komið að starfinu á undanförnum árum.

2.Lóð 25 á Nöfum

Málsnúmer 2304033Vakta málsnúmer

Lóð 25 á Nöfum var auglýst til leigu og bárust tvær umsóknir. Annars vegar frá Jóni Geirmundssyni og hinsvegar frá Sigurði Steingrímssyni. Umsagnar var leitað til Fjáreigendafélags Sauðárkróks samkvæmt reglum um úthlutun lóða á Nöfum og mælir félagið með að Sigurði verði úthlutuð lóðin.
Byggðarráð samþykkir að úthluta Sigurði Steingrímssyni lóðinni til loka árs 2024. Jafnframt felur byggðarráð sveitarstjóra að afla gagna um stöðu leigusamninga á öllum lóðum innan þéttbýlismarka Sauðárkróks þar sem búfjárhald er leyft.

3.Litla-Gröf - Umsagnarbeiðni vegna breytingar á rekstrarleyfi

Málsnúmer 2305128Vakta málsnúmer

Lögð fram umsagnarbeiðni úr máli 2023-030335 hjá sýslumannsembættinu á Norðurlandi vestra, dagsett 12. maí 2023. Karuna ehf., kt. 680809-1000, Litlu-Gröf, 551 Sauðárkróki, sækir um breytingu á núverandi leyfi. Fyrir er rekstrarleyfi flokkur III, stærra gistiheimili án áfengisveitinga en sækir nú um leyfi til reksturs, Gististaðir í flokki IV-B, stærra gistiheimili með áfengisveitingum.
Byggðarráð gerir ekki athugasemdir við umsóknina.

4.Umsagnarbeiðni; frumvarp til laga um breytingu á kosningalögum

Málsnúmer 2305142Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 17. maí 2023 frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á kosningalögum, nr. 112/2021 (lækkun kosningaaldurs), 497. mál. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 26. maí nk.
Álfhildur Leifsdóttir leggur fram svohljóðandi bókun:
Að lækka kosningaaldur eins og víða hefur þegar verið gert í nágrannalöndum okkar skiptir miklu máli fyrir samfélagið. Lækkun kosningaaldurs kemur til með að styðja við lýðræðisþátttöku ungs fólks og auka tækifæri þess til að hafa áhrif á nærsamfélagið sem virkir og ábyrgir þátttakendur, en þátttaka ungs fólks í kosningum til löggjafarþings og sveitarstjórna hefur verið dræm. Ungt fólk hefur sýnt með mjög afgerandi hætti að það getur verið drifkraftur breytinga, t.d. með #meetoo og #freethenipple byltingum sem knúðu fram samfélagsbreytingar með öflugri og hraðari hætti en þeir sem eldri eru hafa náð fram. Fólk á aldrinum 16 - 17 ára á að fá tækifæri til að bæta samfélagið sem þau munu erfa með því öfluga verkfæri sem kosningarétturinn er.

5.Samráð; Grænbók um sjálfbært Ísland

Málsnúmer 2304088Vakta málsnúmer

Málið áður á 45. fundi byggðarráðs þann 26. apríl 2023. Lagður fram tölvupóstur dagsettur 17. apríl 2023 þar sem forsætisráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 82/2023, "Grænbók um sjálfbært Ísland". Umsagnarfrestur er til og með 29.05.2023.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar framkomnum drögum að Grænbók um sjálfbært Ísland, stöðumati og valkostum. Um mikilvægt málefni er að ræða sem varðar framtíð allra.
Grunnstoðir sjálfbærrar þróunar eru náttúra, samfélag og hagkerfi. Eins og segir í kafla 1.3 þá lýtur megin kjarni hugtaksins að því jafnvægi sem þarf að ríkja á milli ólíkra og jafnvel andstæðra krafta sem varða nýtingu og ráðstöfun á takmörkuðum náttúruauðlindum og gæðum samfélagsins, í umhverfislegu, félagslegu og efnahagslegu tilliti.
Í kafla 3.4. er bent á að sveitarfélögin gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að sjálfbærri þróun. Sveitarfélögum hafa enda verið falin mikilvæg hlutverk í þessari vegferð og má þar nefna mikilvægi skipulagsmála, skyldu þeirra til að setja sér loftslagsstefnu, og innleiðingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem um 65% af 169 undirmarkmiðum þeirra verður ekki náð án aðkomu sveitarfélaga. Fram kemur í kaflanum að samstarfshópur ríkis og sveitarfélaga hafi lagt fram tillögur að mælikvarðasettum fyrir sveitarfélögin varðandi heimsmarkmiðin en fjármögnun sé ekki í höfn.
Sé litið til samspils kaflans um sveitarfélögin við kafla 3.3.7 þar sem fjallað er um verkefni innviðaráðuneytis, fagráðuneytis sveitarstjórnarmála, sem eru hluti af verkefnum Stjórnarráðsins í heild sinni, þá kemur þar fram að meðal meginmarkmiða sé að sjálfbærar byggðir og sveitarfélög séu um allt land. Jafnframt að leiðarljós í málefnum sveitarstjórnarstigsins sé að sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær.
Byggðarráð Skagafjarðar styður framangreind markmið og verkefni en bendir á að þeim verður ekki náð nema sveitarfélögum landsins séu tryggðir tekjustofnar eða fjármögnun til að fylgja eftir stefnumörkun og verkefnum sem ríkisvaldið leggur á herðar sveitarfélögunum. Svo sem sjá má af erfiðum rekstri flestra sveitarfélaga landsins og vanfjármögnun verkefna sem ríkið hefur þegar flutt til sveitarfélaganna er ljóst að tryggja þarf fjárhagslega sjálfbærni þeirra betur. Jafnframt þarf að tryggja betur faglegan stuðning við sveitarfélögin þegar kemur að einstökum en mikilvægum verkefnum, s.s. innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og gerð loftslagsstefnu.

6.76. íþróttaþing ÍSÍ

Málsnúmer 2305109Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf dagsett 9. maí 2023 til sveitarfélaga á Íslandi varðandi 76. Íþróttaþing ÍSÍ sem fór fram dagana 5. og 6. maí sl. Fram kemur í bréfinu m.a.: "Sveitarfélögin í landinu eru mikilvægustu bakhjarlar íþróttahreyfingarinnar í landinu og spila stórt hlutverk í rekstri íþróttafélaga. Velvilji sveitarfélaga og gott samstarf íþróttahreyfingarinnar og sveitarfélaga er mikilvægt fyrir allt íþróttastarfið í landinu.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands tekur gjarnan á móti fulltrúum sveitarstjórna, sem áhuga hafa á því að kynna sér starfsemi sambandsins í höfuðstöðvunum, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal."

Fundi slitið - kl. 14:42.