Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

74. fundur 06. desember 2023 kl. 14:00 - 17:15 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.Framkvæmdir og viðhald 2024

Málsnúmer 2311167Vakta málsnúmer

Ingvar Páll Ingvarsson og Jón Örn Berndsen frá veitu- og framkvæmdasviði komu til fundarins undir þessum dagskrárlið þar sem fjallað var um mögulegar nýframkvæmdir og stærri viðhaldsverkefni á árinu 2024.

2.Fjárhagsáætlun 2024-2027

Málsnúmer 2308163Vakta málsnúmer

Farið yfir fjárhagsáætlun Skagafjarðar 2024-2027 eftir yfirferð fagnefnda yfir fjárhagsáætlun frá því að fyrri umræða hennar var samþykkt í sveitarstjórn. Ásta Ólöf Jónsdóttir, aðalbókari sveitarfélagsins, og Anna Karítas Ingvarsdóttir, bókari, komu til fundarins undir þessum dagskrárlið.

3.Þjónustustefna í byggðum og byggðarlögum sveitarfélaga

Málsnúmer 2310005Vakta málsnúmer

Með lögum nr. 96/2021 sem tóku gildi í júní 2021 samþykkti Alþingi nýtt ákvæði við sveitarstjórnarlög sem fjallar um þjónustustefnu í byggðum og byggðarlögum sveitarfélags. Samkvæmt 130. gr. a sveitarstjórnarlaga, skal sveitarstjórn móta stefnu fyrir komandi ár og næstu þrjú árin eftir það, um það þjónustustig sem sveitarfélagið hyggst halda uppi í byggðum og byggðarlögum fjarri stærstu byggðakjörnum viðkomandi sveitarfélags. Mótun stefnunnar skal unnin samhliða fjárhagsáætlun og skal málsmeðferðin vera sú sama, þ.e. byggðarráð eða framkvæmdastjóri, eftir því sem kveðið er á um í samþykkt um stjórn sveitarfélags, leggur tillögu um þjónustustefnu í byggðum eða byggðarlögum sveitarfélags fyrir sveitarstjórn eigi síðar en 1. nóvember ár hvert.
Þjónustustefna Skagafjarðar fyrir árin 2024-2027 var samþykkt í fyrri umræðu í sveitarstjórn Skagafjarðar 25. október sl. og í kjölfarið auglýst eftir athugasemdum frá íbúum. Þrjár ábendingar bárust.
Byggðarráð samþykkir stefnuna með áorðnum breytingum í kjölfar ábendinga sem bárust inn frá íbúum. Stefnan verður endurskoðuð árlega lögum samkvæmt í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar.

4.Þjóðlendumál, kynning á kröfum við málsmeðferð skv. 1. málsl. 7. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga

Málsnúmer 2311278Vakta málsnúmer

Snemma árs 2007 tók óbyggðanefnd til meðferðar svæði 7A, vestanvert Norðurland, syðri hluti. Með úrskurði nefndarinnar í máli 5/2008, dags. 19. júní 2009, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ákveðið land innan þess svæðis væri þjóðlenda. Með bréfi óbyggðanefndar, dags. 1. júlí 2020, var íslenska ríkinu tilkynnt að nefndin hefði ákveðið að nýta heimild sína skv. 7. mgr. 10. gr. þjóðlendulaga, nr. 58/1009, sbr. 4. gr. laga nr. 34/2020, og taka til meðferðar tiltekin svæði í landshlutum þar sem málsmeðferð nefndarinnar er annars lokið, þar sem óbyggðanefnd hafi gert athugasemd við kröfugerð ráðherra í tilteknum málum. Í kjölfarið skilaði íslenska ríkið kröfulýsingu, dags. 18. janúar 2021, þar sem þess er m.a. krafist að landsvæði sem nefnt er norðurmörk þjóðlendunnar Hraunanna sé þjóðlenda.
Byggðaráð mótmælir framkomnum kröfum íslenska ríkisins og bendir á að málsmeðferð á þessu svæði hafi verið lokið með úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 5/2008, sem kveðinn var upp þann 19. júní 2009. Hið umþrætta landsvæði „Norðurmörk Hraunanna“ féll utan kröfugerðar ríkisins í því máli og hefur ríkið því viðurkennt beinan eignarrétt sveitarfélagsins að því. Hefur Lögmannstofu Ólafs Björnssonar verið falið að annast vörn f.h. sveitarfélagsins fyrir óbyggðanefnd, og halda eignaréttindum sveitarfélagsins að hinu umþrætta svæði „Norðurmörk Hraunanna“ til haga.“

5.Skólahald á Hólum

Málsnúmer 2304013Vakta málsnúmer

Á 21. fundi fræðslunefndar Skagafjarðar 29. nóvember 2023 var eftirfarandi bókað:
"Fræðslunefnd hefur undanfarin misseri haft til skoðunar fyrirkomulag skólahalds starfsstöðvar Grunnskólans austan Vatna á Hólum í Hjaltadal og framhaldið því sl. vikur í samræmi við bókun nefndarinnar frá 17. apríl sl. þar sem nefndin samþykkti að skoða hvernig skólastarfi verði best fyrir komið á Hólum. Samkvæmt lögum nr. 91/2008 um grunnskóla er hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Aðalnámskrá grunnskóla er rammi um skólastarfið og veitir sveitarfélögum og skólum leiðsögn um framkvæmd skólastarfsins. Fyrir utan ákvæði um almenna menntun sem og greinabundna menntun veitir aðalnámskrá leiðsögn um hvernig skólum ber að tryggja heilbrigði og velferð nemenda sem byggir á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Nám og námsaðferðir nemenda eru einstaklingsbundnar og geta verið mismunandi. Allir þurfa tækifæri til að njóta styrkleika sinna sem er lykilþáttur í að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Í ljósi fárra nemenda við yngsta stig starfsstöðvar Grunnskólans austan Vatna á Hólum þykir ljóst að erfitt er að veita nemendum þar viðeigandi tækifæri til að þroska framangreinda þætti sem og tryggja þeim þá greinabundnu menntun sem þeir eiga rétt á. Þá þarf jafnframt að líta til rekstrarlegra og kennslufræðilegra sjónarmiða, skólaþróunar og þróunar á stoðþjónustu. Framtíðarsýn sveitarfélagsins er að byggja upp og reka þrjá öfluga grunnskóla og er sameining Grunnskólans austan Vatna undir eina starfsstöð liður í því. Með hliðsjón af þessu leggur fræðslunefnd til að starfsemi Grunnskólans austan Vatna á Hólum verði sameinuð starfsemi Grunnskólans austan Vatna á Hofsósi og að frá og með skólaárinu 2024-2025 muni kennsla grunnskólabarna eingöngu fara fram á Hofsósi. Fræðslunefnd mun á næstu mánuðum leggja fram tillögur um hvernig hægt verði að tryggja gott samstarf á milli leik - og grunnskóla og aukið aðgengi að frístundaiðkun fyrir alla nemendur. Nefndin vísar málinu til byggðaráðs og leggur jafnframt til við ráðið að í fjárhagsáætlun 2024 verði gert ráð fyrir framkvæmdum við lagfæringu aðgengismála við Grunnskólann austan Vatna á Hofsósi sem lokið verði við sumarlok 2024. Samhliða verði lokið við hönnun á nýju íþróttahúsi og gagngerum endurbótum á húsnæði grunnskólans á Hofsósi. Þá verði svo fljótt sem hægt er hafnar framkvæmdir við byggingu íþróttahúss í samræmi við sjónarmið sem komu fram á fundi með starfsfólki Grunnskólans austan Vatna og foreldrum fyrir skemmstu."
Byggðarráð samþykkir tillögu fræðslunefndar um að frá og með skólaárinu 2024-2025 verði starfsemi Grunnskólans austan Vatna á Hólum sameinuð starfsemi Grunnskólans austan Vatna á Hofsósi og vísar afgreiðslunni til sveitarstjórnar. Byggðarráð samþykkir jafnframt að ráðast í ákveðnar lagfæringar á aðgengismálum við Grunnskólann austan Vatna á Hofsósi á árinu 2024 og gerir ráð fyrir þeim í fjárhagsáætlun þess árs sem og fjármögnun á lokahönnun aðaluppdrátta endurgerðar skólahúss, íþróttahúss og lóðar.

6.Gjaldskrá Skagafjarðarhafna 2024

Málsnúmer 2310013Vakta málsnúmer

Vísað frá 20. fundi umhverfis- og samgöngunefndar Skagafjarðar 20. nóvember 2023 með eftirfarandi bókun:
"Vegna verðlagsþróunar er lagt til að gjaldskrá Skagafjarðarhafna hækki um 4,9% frá og með 1. janúar 2024.
Hildur Magnúsdóttir fulltrúi Vinstri grænna og óháðra leggur fram svohljóðandi breytingatillögu: Gjaldskrá Skagafjarðarhafna fyrir árið 2024 hækki um 5,9% í stað 4,9%.
Umhverfis- og samgöngunefnd hafnar breytingartillögu fulltrúa Vinstri grænna og óháðra og samþykkir upphaflega tillögu um 4,9% hækkun og vísar henni til Byggðarráðs.
Dagur Þór Baldvinsson hafnarstjóri sat þennan lið."
Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi VG og óháðra leggur til að gjaldskrá Skagafjarðarhafna fyrir árið 2024 hækki um 5,9% í stað 4,9%.
Tillagan felld með 2 atkvæðum meirihluta B- og D-lista sem leggja fram eftirfarandi bókun:
"Við gerð rekstaráætlunar vegna ársins 2024 hjá Skagafirði hefur verið lagður metnaður í að halda hækkunum á gjaldskrám í lágmarki. Í flest öllum gjaldskrám hefur verið stuðst við áætlaða hækkun vísitölu á árinu 2024, útgefna af Hagstofu Íslands í júní 2024, en þar var gert ráð fyrir 4,9% verðbólgu á árinu 2024. Ljóst er að þessi hækkun á gjaldskrám er almennt lægri en hjá mörgum öðrum sveitarfélögum landsins, en mörg þeirra eru að hækka gjaldskrár almennt um 6-10%. Við teljum hinsvegar rétt að halda þessum hækkunum í lágmarki með það að markmiði að draga úr þensluáhrifum þeirra í þjóðfélaginu. Til að það gangi eftir þurfa hækkanir að ganga jafnt yfir bæði tekjur og gjöld. Vonum við því að breið sátt náist um lágmarkshækkanir á þeim kjarasamningum sem framundan eru en með því móti verður stuðlað að meiri stöðugleika í verðlagi og launum."
Gjaldskráin er samþykkt með 2 atkvæðum og vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar.

7.Gjaldskrá skipulagsfulltrúa framkvæmda- og þjónustugjöld 2024

Málsnúmer 2310019Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að gjaldskrá vegna kostnaðar við skipulagsvinnu, stofnun lóða, byggingarreita og útgáfu framkvæmdaleyfa í Skagafirði.
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána með áorðnum breytingum og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

8.Gjaldskrá leikskóla 2024

Málsnúmer 2310029Vakta málsnúmer

Á 21. fundi fræðslunefndar Skagafjarðar 29. nóvember 2023 var eftirfarandi bókað:
"Lögð fram tillaga að 4,9% hækkun dvalargjalda leikskóla og 4,9% hækkun fæðisgjalda sem er í samræmi við verðlagsbreytingar út frá þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Átta tíma almennt gjald hækkar úr 43.760 krónum í 45.903 krónur eða um 2.143 krónur á mánuði. Systkinaafsláttur af dvalargjaldi verður óbreyttur, 50% fyrir annað barn og 100% fyrir þriðja barn.
Steinunn Rósa Guðmundsdóttir fulltrúi VG og óháðra óskar bókað: VG og óháð hafa ávallt lagt á það áherslu að Skagafjörður bjóði uppá góða og ódýra þjónustu fyrir börn og barnafólk. VG og óháð styðja því ekki fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir meirihlutans, hvort sem er í leikskólum eða fæðisgjöld grunn- og leikskóla fyrir árið 2024. Því óska ég bókað að ég sit hjá við afgreiðslu þessa máls.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Byggðalistans óska bókað: Það hefur ekki farið fram hjá neinum að kostnaðarverðshækkanir og aukin verðbólga hafa haft mikil áhrif á samfélagið og þá er rekstur sveitarfélagsins engin undantekning. Tekin var meðvituð ákvörðun í vinnu við fjárhagsáætlun um að vera með hóflegar gjaldskrárhækkanir, sem er liður í þeirri vegferð að stemma stigum við verðbólgu. Skagafjörður er meðal þeirra sveitarfélaga sem er að leggja hve minnstar hækkanir á gjaldskrár.
Það er þó ljóst að leikskólagjöld geta ekki staðið í stað á milli ára og því nauðsynlegt að mæta hluta kostnaðarhækkana með gjaldskrárhækkun. Með þessu veljum við að hækka gjöld lítillega og fremur halda uppi því þjónustustigi sem er í leikskólum fjarðarins enda er starfsemi leikskóla einn af hornsteinum samfélagsins.
Tillaga um gjaldskrárhækkanir samþykkt af meirihluta og vísað til byggðarráðs."
Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi VG og óháðra ítrekar bókun fulltrúa VG og óháðra frá fundi fræðslunefndar.
Fulltrúar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Byggðalista ítreka bókun fulltrúa flokkanna frá fundi fræðslunefndar.
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána með tveimur atkvæðum og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

9.Gjaldskrá grunnskóla 2024

Málsnúmer 2310030Vakta málsnúmer

Á 21. fundi fræðslunefndar Skagafjarðar 29. nóvember 2023 var eftirfarandi bókað:
"Lögð fram tillaga að 4,9% hækkun gjaldskrár í grunnskóla sem er í samræmi við verðlagsbreytingar út frá þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Morgunverður og síðdegishressing hækka úr 249 krónum í 268 krónur eða um 19 krónur. Hádegisverður í áskrift hækkar úr 516 krónum í 556 krónur eða um 40 krónur. Stök máltíð í hádeginu hækkar úr 671 krónu í 723 krónur eða um 52 krónur. Dvalargjald í heilsdagsskóla (frístund) hækkar úr 293 krónum í 311 krónur eða um 20 krónur. Systkinaafsláttur af dvalargjaldi er óbreyttur, 50% hjá öðru barni og 100% hjá þriðja barni. Börn í dreifbýli hafa áfram forgang að heilsdagsvistun.
Steinunn Rósa Guðmundsdóttir fulltrúi VG og óháðra óskar bókað: VG og óháð hafa ávallt lagt á það áherslu að Skagafjörður bjóði uppá góða og ódýra þjónustu fyrir börn og barnafólk. VG og óháð styðja því ekki fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir meirihlutans, hvort sem er í leikskólum eða fæðisgjöld grunn- og leikskóla fyrir árið 2024. Því óska ég bókað að ég sit hjá við afgreiðslu þessa máls.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Byggðalistans óska bókað: Það hefur ekki farið fram hjá neinum að kostnaðarverðshækkanir og aukin verðbólga hefur haft mikil áhrif á samfélagið og þá er rekstur sveitarfélagsins engin undantekning. Tekin var meðvituð ákvörðun í vinnu við fjárhagsáætlun um að vera með hóflegar gjaldskrárhækkanir, sem er liður í þeirri vegferð að stemma stigum við verðbólgu. Skagafjörður er meðal þeirra sveitarfélaga sem er að leggja hve minnstar hækkanir á gjaldskrár. Það er þó ljóst að fæðisgjöld geta ekki staðið í stað á milli ára og því nauðsynlegt að mæta hluta kostnaðarhækkana með gjaldskrárhækkun.
Tillagan samþykkt af meirihluta og vísað til byggðarráðs."
Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi VG og óháðra ítrekar bókun fulltrúa VG og óháðra frá fundi fræðslunefndar.
Fulltrúar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Byggðalista ítreka bókun fulltrúa flokkanna frá fundi fræðslunefndar.
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána með tveimur atkvæðum og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

10.Gjaldskrá Tónlistarskóla 2024

Málsnúmer 2310028Vakta málsnúmer

Á 21. fundi fræðslunefndar Skagafjarðar 29. nóvember 2023 var eftirfarandi bókað:
"Lögð fram tillaga að 4,9% hækkun gjaldskrá tónlistarskóla sem er í samræmi við verðlagsbreytingar út frá þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Hálft nám hækkar úr 6.845 krónum í 7.181 krónur á mánuði eða um 336 krónur. Fullt nám hækkar úr 10.267 krónum í 10.770 krónur eða um 503 krónur á mánuði. Gjaldskrá Hringekju hækkar einnig um 4,9% og fer úr 20.536 kr. í 21.542 kr. og sömuleiðs er um að ræða 4.9% hækkun á leigu á hljóðfræum sem fer úr 14.225 kr. í 14.923 kr. Veittur er 25% afsláttur ef fleiri en einn nemandi eru saman í hljóðfæranámi. Veittur er systkinaafsláttur, 25% fyrir annað barn, 50% fyrir þriðja barn og 100% fyrir fjórða barn.
Tillagan samþykkt og vísað til byggðarráðs."
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

11.Gjaldskrá Héraðsbókasafn Skagfirðinga 2024

Málsnúmer 2310024Vakta málsnúmer

Á 17. fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar Skagafjarðar 28. nóvember 2023 var eftirfarandi bókað:
"Vísað til nefndarinnar af 69. fundi byggðaráðs. Gjaldskrá Héraðsbókasafns Skagfirðinga fyrir 2024 uppfærð í samræmi við athugasemdir. Atvinnu- menningar- og kynningarnefnd samþykkir fyrirliggjandi gjaldskrá sem hljóðar almennt upp á 4,9% hækkun frá fyrra ári og vísar nefndin henni til byggðaráðs."
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

12.Grunnupphæð fjárhagsaðstoðar 2024

Málsnúmer 2310032Vakta málsnúmer

Á 19. fundi félagsmála- og tómstundanefndar Skagafjarðar 30. nóvember 2023 var eftirfarandi bókað:
"Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar frá 1. janúar 2024 verði reiknuð með sama hætti og verið hefur samkvæmt 9.gr. reglna þ.e. 80,4 % af atvinnuleysisbótum eins og þær voru í nóvember árið á undan. Vísað til byggðarráðs."
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

13.Gjaldskrá Iðju hæfingar 2024

Málsnúmer 2310033Vakta málsnúmer

Á 19. fundi félagsmála- og tómstundanefndar Skagafjarðar 30. nóvember 2023 var eftirfarandi bókað:
"Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir að hlutur notenda Iðju í fæðiskostnaði hækki um 4,9 % úr 669 kr. í 702 kr. fyrir hádegisverð, sem er um helmings kostnaður við máltíðina. Notendur greiða ekki fyrir morgun- og síðdegishressingu. Vísað til byggðarráðs."
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

14.Greiðslur vegna þjónustu stuðningsfjölskyldna 2024

Málsnúmer 2310035Vakta málsnúmer

Á 19. fundi félagsmála- og tómstundanefndar Skagafjarðar 30. nóvember 2023 var eftirfarandi bókað:
"Félagsmála-og tómstundanefnd samþykkir að fjárhæðir greiðslna vegna þjónustu stuðningsfjölskyldna árið 2024 taki mið af meðlagsgreiðslum eins og þær eru í júní 2023 kr. 43.700.
Umönnunarflokkur 1 greitt 85% af meðlagi samtals kr. 37.145 pr. sólarhring.
Umönnunarflokkur 2 greitt 75% af meðlagi samtals kr. 32.775 pr. sólarhring.
Umönnunarflokkur 3 greitt 50% af meðlagi samtals kr. 21.850 pr. sólarhring.
Greitt er fyrir þjónustu stuðningsfjölskyldu sem veittar eru á grundvelli barnaverndarlaga skv. 2.fl. umönnunarmats frá Tryggingarstofnun ríkisins. Greitt er fyrir þjónustu stuðningsfjölskyldu sem veittar eru á grundvelli félagsþjónustulaga skv. 3.fl. umönnunarmats frá Tryggingarstofnun ríkisins. Vísað til byggðarráðs."
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

15.Gjaldskrá heimaþjónustu 2024

Málsnúmer 2310036Vakta málsnúmer

Á 19. fundi félagsmála- og tómstundanefndar Skagafjarðar 30. nóvember 2023 var eftirfarandi bókað:
"Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir að gjaldskrá verði miðað við launaflokk 128 skv. samningum Öldunnar/Kjalar frá 1. janúar 2023 með 8% persónuálagi með tengdum gjöldum. Tekjuviðmið til lækkunar gjalda miðast við greiðslur Tryggingastofnunar. Vísað til byggðaráðs."
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

16.Niðurgreiðsla til dagforeldra og foreldragreiðslur 2024

Málsnúmer 2310037Vakta málsnúmer

Á 19. fundi félagsmála- og tómstundanefndar Skagafjarðar 30. nóvember 2023 var eftirfarandi bókað:
"Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir að upphæð niðurgreiðslna skv. 6. gr. reglna um niðurgreiðslu á daggæslu í heimahúsum og um foreldragreiðslur hækki um 4,9 %. Niðurgreiðsla verður þó aldrei hærri en sem nemur mismun á heildargjaldi vistunar hjá dagforeldri og í leikskóla (gæsla, kostnaður og fæði). Vísað til byggðarráðs."
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

17.Greiðsluviðmið jafnaðarstunda NPA samninga 2024

Málsnúmer 2310040Vakta málsnúmer

Á 19. fundi félagsmála- og tómstundanefndar Skagafjarðar 30. nóvember 2023 var eftirfarandi bókað:
"Félagsmála- og tómstundanefnd samþykkir að taka mið af útreikningum NPA miðstöðvarinnar við útreikning jafnaðarstunda árið 2024. Miðað er við þrjá mismunandi taxta sem endurspegla þarfir notenda þjónustunnar. Jafnaðarstund felur í sér framlag til launakostnaðar (85%), framlag til umsýslukostnaðar (10%) og framlag til starfsmannakostnaðar (5%). Greiðsluviðmið verða samkvæmt uppreiknuðum jafnaðartaxta NPA miðstöðvarinnar 1. janúar 2024. Vísað til byggðaráðs."
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

18.Gjaldskrá Dagdvalar aldraðra 2024

Málsnúmer 2310041Vakta málsnúmer

Á 19. fundi félagsmála- og tómstundanefndar Skagafjarðar 30. nóvember 2023 var eftirfarandi bókað:
"Daggjald er ákvarðað í reglugerð um dagdvöl aldraðra nr. 1245/2016 með árlegum breytingum. Nefndin samþykkir að fæðiskostnaður á dag árið 2024 verði 631 kr. Vísað til byggðarráðs."
Byggðarráð samþykkir gjaldskrána og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.

19.Umsagnarbeiðni; Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum nr. 80 2002 og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40 1991

Málsnúmer 2311280Vakta málsnúmer

Lagt fram til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum nr. 80/2002, og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, frá velferðarnefnd Alþingis. Umsagnarfrestur er til 8. desember 2023.

20.Umsagnarbeiðni; Þingsályktunartillaga um húsnæðisstefnu 2024-2038 ásamt 5 ára aðgerðaráætlun 2024-2028

Málsnúmer 2311281Vakta málsnúmer

Lagt fram til umsagnar 509. mál á Alþingi, húsnæðisstefna fyrir árin 2024-2038 ásamt 5 ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028, frá velferðarnefnd Alþingis. Umsagnarfrestur er til 11. desember 2023.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar drögum að húsnæðisstefnu, framtíðarsýn og markmiðum. Áherslur á aukið framboð á hagkvæmum íbúðum með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði fyrir fólk undir tilteknum tekju- og eignamörkum á sama tíma og horft er til áherslna sem geta aukið flækjustig og haft hærri kostnað í för með sér, samanber strangar kröfur til byggingarefna og lífsferilsgreininga fyrir byggingar, ríma þó líklega ekki saman. Byggðarráð lýsir sig aftur á móti sérstaklega sammála aðgerðum sem ætlað er að ýta undir að íbúðum í þéttbýli sem ekki eru nýttar til fastrar búsetu verði frekar nýttar sem slíkar í framtíðinni, meiri skilvirkni hlutdeildarlána, endurskoðun og einföldun ferla í skipulags- og byggingarmálum þegar kemur að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, aukinni réttindavernd neytenda vegna byggingargalla og auknum áherslum á aðgengi fyrir alla, svo nokkur atriði séu nefnd. Byggðarráð vekur jafnframt athygli á því að víðast hvar á landsbyggðinni eru íbúðarhús byggð af einstaklingum eða íbúðafélögum, þar sem ekki er verktökum til að dreifa sem eru í þeirri starfsemi að byggja íbúðir til sölu. Horfa þarf sérstaklega til aukinna hvata til að stuðla að fjölgun íbúða sem verktakar byggja á eigin ábyrgð til endursölu og/eða að hafa það einfalt fyrir einstaklinga að semja um hlutdeildarlán á þeim svæðum þar sem verktakar eru ekki leiðandi afl í byggingu slíkra húsa. Jafnframt er full ástæða til að endurskoða fyrirkomulag stofnframlaga þannig að kostnaðarþök endurspegli raunbyggingarkostnað á hverju svæði fyrir sig.

21.Umsagnarbeiðni; Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn)

Málsnúmer 2311282Vakta málsnúmer

Lagt fram til umsagnar frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, 73. mál, sveitarstjórnarlög (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn). Umsagnarfrestur er til 11. desember 2023.

22.Samráð; Drög að reglugerð um áætlun eignarmarka

Málsnúmer 2311203Vakta málsnúmer

Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 242/2023, "Drög að reglugerð um áætlun eignarmarka". Umsagnarfrestur er til og með 07.12.2023.

Fundi slitið - kl. 17:15.