Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

80. fundur 17. janúar 2024 kl. 15:00 - 16:15 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.Skipan starfshóps um skjalavörslu og rafræn skil sveitarfélagsins

Málsnúmer 2302218Vakta málsnúmer

Undir þessum dagskrárlið mættu Sólborg Una Pálsdóttir héraðsskjalavörður, Kristín Jónsdóttir skjalastjóri og Sigfús Ólafur Guðmundsson verkefnastjóri.
Á fundi framkvæmdaráðs sveitarfélagsins Skagafjarðar 21.02.2023 var samþykkt að stofna til starfshóps til að kanna núverandi stöðu mála varðandi varðveislu og umsýslu stafrænna gagna sem og leggja fram sviðsmyndir um framtíðarsýn í þessum málaflokki. Í starfshópinn voru skipuð gestir fundarins. Hópurinn hefur nú skilað af sér niðurstöðum í formi skýrslu um skjalavörslu og rafræn skil Skagafjarðar.
Byggðarráð samþykkir að fela héraðsskjalaverði, skjalastjóra og verkefnastjóra að vinna drög að skjalastefnu sem verður lögð fyrir byggðarráð og sveitarstjórn í febrúar 2024.

2.Kjördeildir í Skagafirði

Málsnúmer 2302160Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar leggur til við sveitarstjórn að kjördeildir í Skagafirði verði skipuð eftirtöldum einstaklingum:
Kjördeild I á Sauðárkróki:
Atli Víðir Hjartarson, formaður
Ásta Ólöf Jónsdóttir, aðalmaður
Kristjana E. Jónsdóttir, aðalmaður
Brynja Ólafsdóttir, varamaður
Steinn Leó Rögnvaldsson, varamaður
Guðný Guðmundsdóttir, varamaður
Kjördeild II í Varmahlíð:
Valgerður Inga Kjartansdóttir, formaður
Vagn Þormar Stefánsson, aðalmaður
Þorbergur Gíslason, aðalmaður
Bjarni Bragason, varamaður
Sigríður Sigurðardóttir, varamaður
Valdimar Óskar Sigmarsson, varamaður
Kjördeild III á Hofsósi:
Ingibjörg Klara Helgadóttir, formaður
Sigmundur Jóhannesson, aðalmaður
Alda Laufey Haraldsdóttir, aðalmaður
Vala Kristín Ófeigsdóttir, varamaður
Eiríkur Arnarsson, varamaður
Sjöfn Guðmundsdóttir, varamaður

3.Sala á Lækjarbakka 5

Málsnúmer 2401056Vakta málsnúmer

Málið áður tekið fyrir á 79. fundi byggðarráðs Skagafjarðar.
Alls bárust 4 tilboð í fasteignina Lækjarbakka 5 áður en tilboðsfrestur rann út 8. janúar sl. Tilboð bárust frá Agnari H. Gunnarssyni; Friðriki Smára Stefánssyni og Rikke Busk; Sigurði Bjarna Sigurðssyni og Sif Kerger og að lokum Valdimar Bjarnasyni og Ragnhildi Halldórsdóttur.
Byggðarráð samþykkti á 79. fundi að fela fasteignasala að gera gagntilboð til hæstbjóðanda enda innihélt tilboð hæstbjóðanda lakari greiðslutilhögun en önnur tilboð; teldist það því óbreytt lakara en tilboð næstbjóðanda. Því gagntilboði var hafnað og samþykkti byggðarráð því að ganga að tilboði næstbjóðanda, Friðriki Smára Stefánssyni og Rikke Busk að upphæð 39 milljónir króna, í samræmi við umboð sem byggðarráðsfulltrúar veittu sveitarstjóra.

4.Samráð; Frumvarp til laga um vindorku

Málsnúmer 2401067Vakta málsnúmer

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 1/2024, "Frumvarp til laga um vindorku". Framlengdur umsagnarfrestur er til og með 23.01. 2024.
Meirihluti byggðarráðs samþykkir eftirfarandi umsögn:
Markmið íslenskra stjórnvalda um orkuskipti, er að Ísland skuli ná kolefnishlutleysi og að fullum orkuskiptum skuli náð eigi síðar en árið 2040. Jafnframt er markmið stjórnvalda að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja heims. Ef þessi markmið eru skoðuð í ljósi upplýsinga um innflutta olíu er ljóst að hægt gengur að draga úr olíuinnflutningi ásamt því verulega aukin eftirspurn er eftir raforku til bæði minni notenda eins og heimila og meðalstórra fyrirtækja ásamt því að stórnotendur hafa einnig aukið eftirspurnina. Framboð raforku í dag nær því engan veginn að fullnægja eftirspurninni. Einnig er mikill munur á milli landshluta hvað varðar aðgengi að orku en þar ræður fjarlægð frá virkjunum og flutningskerfið mestu.
Í Skagafirði er hvoru tveggja andsnúið íbúum og atvinnulífi héraðsins, þ.e.a.s raforkuframleiðsla á svæðinu er vart mælanleg og flutningskerfið í gegnum fjörðinn er bæði gamalt og fulllestað. Framboð af raforku umfram það magn sem notað er í dag er því mjög takmarkað. Ástæða þess að raforkuframleiðsla á svæðinu er lítil er að fáir álitlegir vatnsaflsvirkjunarkosti sem framleiða meira en 1 MW er hér að finna. Stærri virkjunarkostir eins og Skatastaðavirkjun eða Villinganesvirkjun hafa verið í afar löngu matsferli í rammaáætlun sem ekki sér fyrir endann á.
Meirihluti byggðarráðs Skagafjarðar fagnar því framkomnu frumvarpi til laga um nýtingu vindorku en með því opnast möguleikar á að nýta vindorku til raforkuframleiðslu og staðsetja vindmyllur samkvæmt gildandi skipulagslögum, samþykki ráðherra að vísa umræddum orkunýtingarkostum til meðhöndlunar hjá viðkomandi sveitarstjórn. Þó eru þau skilyrði sem þarf að uppfylla, og t.d. aðkoma verkefnisstjórnar rammaáætlunar að þeim áður en ráðherra fær málið til umsagnar, ekki nægjanlega skýr að mati ráðsins. Það er mikilvægt að skýra betur allan ferilinn og þær kröfur sem þar eru gerðar, því þessi mál verða í mörgum tilfellum umdeild á meðan þau eru í vinnslu hjá sveitarstjórnum landsins. Með því að opna á þann möguleika að stytta og einfalda ferlið fyrir byggingu vindmylla upp að ákveðinni stærð gæti ferlið styst og möguleikar sveitarfélaga til að efla orkuframleiðslu á eigin svæði aukist. Það er jákvætt, ekki síst fyrir sveitarfélög eins og Skagafjörð, þar sem aðgengi að aukinni raforku er mjög takmarkað.
Álfhildur Leifsdóttir, VG og óháðum óskar bókað:
Mikilvægt er að rannsaka nýtingu vindorku nánar á Íslandi og kynna fyrir almenningi áður en teknar eru óafturkræfar ákvarðanir. Gera skal ríka kröfu til þess að sýna fram á hvort þessi gerð virkjana samræmist og falli að íslenskum aðstæðum, náttúru, víðernum, samfélagi og efnahag. Setja þarf skýrar reglur um vindorkuvirkjanir t.d. um stærð þeirra, efni, lit, hver fjarlægir þær að notkun lokinni og annað sem er ráðandi um hvaða afleiðingum þær valda. Ef ráðist er í byggingu vindorkuvera þarf að meta þau innan rammaáætlunar og eins verða framkvæmdir þessar að lúta lögum og reglum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um auðlindagjald. Aðlaga skal reglur um mat á umhverfisáhrifum að byggingu vindvirkjana. Einungis skal leyfa byggingu vindorkuvera sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar að undangengnu umhverfismati og í sátt við náttúru og samfélög. Setja þarf skýrar reglur um innheimtu auðlindagjalds af vindorkuverum og marka þarf stefnu hið fyrsta um nýtingu vindorku jafnt á landi og í hafi í íslenskri lögsögu. Vindorkuver eiga aðeins heima á þegar röskuðum svæðum á landi með tengingu við vatnsaflsvirkjanir og fyrirtæki í almannaeigu hafi forgang í þessum málum. Ríkja þarf sátt um nýtingu vindorku og kalla þarf eftir afstöðu almennings og félagasamtaka m.t.t. náttúru- og umhverfisverndarsjónarmiða og eignarhalds vindorkuvera hérlendis.

5.Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

Málsnúmer 2401114Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf, dags. 9. janúar 2024, frá innviðaráðherra. Í bréfinu er fjallað um niðurstöðu dómsmáls Reykjavíkurborgar á hendur Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna úthlutunar úr sjóðnum þar sem héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi borginni í vil. Með dómnum var ríkinu gert að greiða Reykjavíkurborg tæpa 3,4 milljarða króna, auk vaxta og dráttarvaxta en með þeim gæti fjárhæðin numið um 5,5 milljörðum króna. Dómnum hefur þegar verið áfrýjað. Á meðan málið er í ferli verður beðið með framlagningu frumvarps um heildarendurskoðun laga um Jöfnunarsjóð.
Byggðarráð Skagafjarðar telur eðlilegt og rétt skref að dómnum hafi verið áfrýjað enda leiðir óbreytt niðurstaða til mögulegrar skerðingar framlaga til allra sveitarfélaga í landinu af hálfu Jöfnunarsjóðs, komi ekki til aukinna framlaga ríkisins. Við slíka skerðingu verður ekki unað.

6.Landsþing Sambands ísl. sveitarfélaga 2024

Málsnúmer 2401124Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 10. janúar 2024, þar sem boðað er til XXXIX. landsþings sambandsins fimmtudaginn 14. mars nk. Landsþingsfulltrúar verða boðaðir til þingsins með sérstöku bréfi með dagskrá landsþingsins og gögnum.

Fundi slitið - kl. 16:15.