Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

894. fundur 18. desember 2019 kl. 11:30 - 13:20 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Stefán Vagn Stefánsson formaður
  • Regína Valdimarsdóttir varam.
  • Bjarni Jónsson aðalm.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Laufey Kristín Skúladóttir
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Jóhanna Ey Harðardóttir varamaður Ólafs Bjarna Haraldssonar sat fundinn undir fyrsta dagskrárlið fundarins. Vék hún síðan af fundi.

1.Stuðningur við björgunarsveitir í Skagafirði

Málsnúmer 1912109Vakta málsnúmer

Jóhanna Ey Harðardóttir sat fundinn undir þessum dagskrárlið sem varamaður Ólafs Bjarna Haraldssonar sem tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar vill koma á framfæri miklum þökkum til þeirra fjölmörgu viðbragðsaðila og annarra sem stóðu vaktina er gjörningaveður gekk yfir Skagafjörð og víðar í liðinni viku.
Það er ómetanlegt fyrir sveitarfélag að eiga að sjálfboðaliðasveitir eins og björgunarsveitirnar sem á hvaða tímum og aðstæðum sem er, eru tilbúnar að fara til aðstoðar og leggja jafnvel líf og heilsu að veði.
Byggðarráð vill einnig þakka íbúum sveitarfélagsins fyrir að virða viðvaranir sem gefnar voru út og gera viðeigandi ráðstafanir sem gerðu alla vinnu viðbragðsaðila einfaldari í þessum erfiðu aðstæðum.
Í ljósi þessa samþykkir byggðarráð að styrkja björgunarsveitirnar þrjár í Skagafirði um samtals 3.500.000 kr. sem skiptist þannig að hver sveit fær 1.000.000 kr. í sinn hlut og að auki fær Skagfirðingasveit 500.000 kr. vegna umfangs stjórnstöðvar.
Jóhanna Ey Harðardóttir vék af fundi kl. 12:43 og Ólafur Bjarni Haraldsson kom inn á fundinn í hennar stað.

2.Starfsemi Rarik í Skagafirði

Málsnúmer 1912125Vakta málsnúmer

Byggðarráð vill koma á framfæri þökkum til starfsmanna RARIK í Skagafirði fyrir ósérhlífni í þeirra störfum undanfarna daga þar sem þeir unnu fáliðaðir í mjög erfiðum aðstæðum. Það er ljóst að fjölga þarf í starfsliði RARIK á Sauðárkróki, en Skagafjörður er stærsta viðskiptasvæði fyrirtækisins á landinu.
Í samningi um sölu Rafveitu Sauðárkróks til RARIK voru gefin fyrirheit um fjölgun starfa og frekari innviðabyggingu sem ekki hefur gengið eftir hingað til. Þvert á móti hefur starfsfólki fækkað.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að óska eftir fundi með stjórn RARIK sem allra fyrst.

3.Uppsögn á samningi um rekstur skíðasvæðisns í Tindastóli

Málsnúmer 1912014Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá Skíðadeild UMF Tindastóls, dagsett 3. desember 2019. Sigurður Bjarni Rafnsson, formaður deildarinnar óskar eftir því að deildin losni undan gildandi samningi við sveitarfélagið frá 20. desember 2017. Skíðadeild Tindastóls treystir sér ekki lengur til að reka skíðasvæðið áfram á þeim forsendum sem kveður á í samningnum.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að eiga viðræður við forsvarsmenn skíðadeildarinnar um erindið.

4.Beiðni um endurskoðun samninga

Málsnúmer 1912063Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 9. desember 2019 frá Kristjáni Bjarna Halldórssyni formanni Golfklúbbs Skagafjarðar, þar sem hann óskar eftir að koma á fund byggðarráðs til að ræða samninga milli klúbbsins og Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að bjóða formanni Golfklúbbs Sauðárkróks á fund byggðarráðsins.

5.Umsagnarbeiðni; þingsályktunartillögur um samgönguáætlanir 2020-2024 og 2020-2034

Málsnúmer 1912080Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 9. desember 2019 frá nefndasviði Alþingis. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020-2024, 434. mál og tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034, 435. mál.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að undirbúa umsögn sveitarfélagsins.

6.Umsagnarbeiðni; frumvarp til laga umbreytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir

Málsnúmer 1912081Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 9. desember 2019 frá nefndasviði Alþingis. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum (viðaukar). 436. mál.
Byggðarráð samþykkir að ítreka fyrri umsögn.

7.Samráð; Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 482011 um verndar og orkunýtingaráætlun.

Málsnúmer 1912076Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 9. desember 2019 þar sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 303/2019, "Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 48/2011 um verndar og orkunýtingaráætlun.". Umsagnarfrestur er til og með 02.01.2020.

8.Samráð; Drög að frumvarpi til nýrra laga um fjarskipti

Málsnúmer 1912088Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 9. desember 2019 þar sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 304/2019, "Drög að frumvarpi til nýrra laga um fjarskipti". Umsagnarfrestur er til og með 06.01.2020.

9.Samráð; Ný þýðing á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Málsnúmer 1912094Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 12. desember 2019 þar sem dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 306/2019, "Ný þýðing á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks". Umsagnarfrestur er til og með 13.01.2020.

Fundi slitið - kl. 13:20.