Fara í efni

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar

981. fundur 15. september 2021 kl. 11:30 - 12:38 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Gísli Sigurðsson formaður
  • Ingibjörg Huld Þórðardóttir varam.
  • Ólafur Bjarni Haraldsson aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir varam. áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Friðrik Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Margeir Friðriksson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá
Í upphafi fundar var samþykkt samhljóða að taka tvö mál á dagskrá með afbrigðum, 2108141-Aurflóð á skíðasvæðinu á Tindastóli og 2109108-Viðauki 5 við fjárhagsáætlun 2021.

1.Viðauki 5 við fjárhagsáætlun 2021

Málsnúmer 2109108Vakta málsnúmer

Lagður fram viðauki númer 5 við fjárhagsáætlun ársins 2021. Lagt er til að rekstrarfé eignasjóðs verði hækkað um 6,5 mkr. og handbært fé lækkað um samsvarandi fjárhæð.
Byggðarráð samþykkir framlagðan viðauka og vísar honum til afgreiðslu sveitarstjórnar.

2.Aurflóð á skíðasvæðinu í Tindastóli

Málsnúmer 2108141Vakta málsnúmer

Undir þessum dagskrárlið sat fundinn Steinn Leó Sveinsson, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs.
Byggðarráð samþykkir að verja 6,5 mkr. til hreinsunar á skíðasvæðinu í Tindastóli eftir jarðvegsskriðu sem féll þar í sumar. Sveitarstjóra og sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs er falið að koma verkinu í framkvæmd og hafa eftirlit með því. Sveitarstjóra einnig falið að gera viðauka við rekstrarsamning um skíðasvæðið við skíðadeild Tindastóls, vegna þessa verks.

3.Samningar við bændur vegna riðuniðurskurðar

Málsnúmer 2103230Vakta málsnúmer

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að tryggja að endurskoðun á reglum og stjórnsýslu hvað varðar málefni riðu, varnarlínu búfjár, bótafyrirkomulag vegna búfjársjúkdóma og niðurskurðar og regluverk dýraheilbrigðis, verði lokið hið allra fyrsta. Tilkynnt var að þessi vinna væri hafin 11. nóvember á síðasta ári og var henni ætlað að vera lokið um mitt ár 2021. Byggðarráð kallar eftir því að í nýjum reglum verði haft til hliðsjónar að tryggja þurfi bætur fyrir alla þætti sem leiða af niðurskurði vegna riðuveiki og hreinsun, m.a. efniskostnað, vinnuliði og raunverulegan kostnað við kaup á nýjum bústofni, auk tekjuskerðingar sem fylgir í kjölfar niðurskurðar.
Byggðarráð leggur enn fremur áherslu á að verkferlar við samningagerð þurfi að vera skýrir og eðlilegast að samningar liggi fyrir áður en niðurskurður fer fram.
Þá kallar byggðarráð eftir því að aukinn kraftur verði settur í rannsóknir og leit að verndandi arfgerð gegn riðu í íslenska sauðfjárstofninum og stuðningur við DNA-greiningar efldur með það að markmiði að auka tíðni lítið næmrar arfgerðar.

4.Varmahlíð Laugavegur 17 - 19, Norðurbrún - jarðsig

Málsnúmer 2105085Vakta málsnúmer

Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum dagskrárlið. Málið áður á dagskrá byggðarráðs þann 1. september 2021.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar undrast svar sem barst frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, dags. 13. september 2021, við erindi sveitarfélagsins dags. 3. ágúst 2021, þar sem óskað var eftir gerð hættumats fyrir Varmahlíð í Skagafirði og fyrir svæði innan þéttbýlisins á Sauðárkróki. Í svari ráðuneytisins lítur það svo á að leggja verði til grundvallar að með hugtakinu ofanflóð í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum sé átt við hvers konar fall eða flóð efnis úr fjöllum, aurskriður, grjóthrun, snjó- og krapaflóð af náttúrulegum ástæðum. Þannig verði að vera um að ræða snjóflóð eða skriðufall sem fyrst og fremst verði rakið til náttúruafla. Síðar í svari ráðuneytisins segir samt sem áður að þörf sé á "að kanna betur uppruna grunnvatnsins [í Varmahlíð] og leitast við að beina því frá jarðefnafyllingum og öðrum mannvirkjum". Í minnisblaði Veðurstofu Íslands, sem fylgir svarbréfi ráðuneytisins, er jafnframt staðfest að vatn spretti víða fram í hlíðum Reykjarhóls og að mikið vatn hafi seitlað inn í skurð sem grafinn var í efri vegkanti Norðurbrúnar, ofan skriðunnar sem féll í júní sl., um malarlag sem liggur undir um 1 m þykkum jökulruðningi. Uppruni þessa vatns hefur enn ekki verið að fullu skýrður að sögn Veðurstofunnar en eftir sem áður er það talið hafa mikil áhrif á frekari skriðuhættu í Varmahlíð sem og stæðni mannvirkja.
Byggðarráð telur röksemdafærslu ráðuneytisins fyrir höfnun ekki standast. Undrast ráðið að ráðuneytið hafi tekið að sér hlutverk hættumatsnefndar og framkvæmt sitt eigin hættumat. Telur ráðið fullt tilefni til þess að athugaður verði undirbúningur ráðuneytisins á þeirri ákvörðun og lögmæti hennar. Er sveitarstjóra falið að leita liðsinnis lögmanns sveitarfélagsins í þeim efnum og að fá ráðuneytið til þess að endurupptaka málið og afgreiða að nýju.
Byggðarráð þakkar sveitarstjóra upplýsingar um aðgerðir til þess að treysta þau svæði sem næst eru því svæði þar sem aurskriða féll í Varmahlíð í sumar og leggur áherslu á áframhaldandi rannsóknir á svæðinu m.t.t. skriðuhættu og aðgerðir til þess að treysta byggðina.

5.Málefni bensínstöðvar N1 á Hofsósi

Málsnúmer 2002003Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla sem unnin var fyrir N1 hf. af verkfræðistofunni Verkís, um niðurstöður jarðvegsrannsókna og tillögur að úrbótaáætlun vegna mengunaróhappsins á Hofsósi.

Fundi slitið - kl. 12:38.