Fara í efni

Félagsmálanefnd

37. fundur 08. febrúar 2000 kl. 13:15 Stjórnsýsluhús

Árið 2000, þriðjudaginn 8.febrúar kom Félagsmálanefnd Skagafjarðar saman til fundar í Stjórnsýsluhúsinu kl. 13.15.

Mættir: Elinborg Hilmarsdóttir, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Trausti Kristjánsson og Ásdís Guðmundsdóttir.

Auk þeirra starfsmenn nefndarinnar Árdís Antonsdóttir og Guðbjörg Ingimundardóttir.

 

DAGSKRÁ:

  1. Húsaleigubætur.
  2. Trúnaðarmál.
  3. Jafnréttismál.
  4. Önnur mál.

 

AFGREIÐSLUR:

1. Húsaleigubætur.

Umburðarbréf frá Félagsmálaráðuneyti lagt fram til kynningar. Með reglugerð kemur til hækkunar húsaleigubóta að grunnstofni um kr. 1000.- og viðbót vegna barna kr. 500.-.Þá hefur endurgreiðsluhlutfall til sveitarfélaganna úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga hækkað um 5 % frá 1. Janúar 2000 eða úr 50 % í 55 %.

2. Trúaðarmál. – sjá Trúnaðarbók.

 3. Jafnréttismál.

Farið yfir jafnréttisáætlun og hún samþykkt. Lögð fram sem fylgiskjal 1.

4. Önnur mál.

a) Samþykkt að endurskoða reglur um niðurfellingu á gjaldi vegna dagvistunar á einkaheimilum.

b) Borist hafa fjögur tilboð í akstur við Dagvist aldraðra.

Tilboð:

  1. Hjörtur Hjartarson kr. 15.400 – á viku án vsk.
  2. Hjörtur Vilhjálmsson kr. 12.600.- á viku án vsk.
  3. Júlíus Rúnar Þórðarson kr. 8.100.- á viku m./vsk.
  4. Ragnar Guðmundsson kr. 9.000.- á viku m./vsk.

Ákveðið að taka tilboði Júlíusar Rúnars Þórðarsonar.

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið.

Elinborg Hilmarsdóttir                                 

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir

Trausti Kristjánsson                                      

Ásdís Guðmundsdóttir

 

Fylgiskjal 1.

Jafnréttisáætlun sveitarfélagsins Skagafjarðar

2000 - 2004

Markmið jafnréttisáætlunarinnar er að stuðla að þátttöku kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins.

1. Jöfn laun karla og kvenna.

Sbr. 6. gr. laga nr. 28 / 1991. 

Á tímabilinu geristarfsmenn félagsmálanefndar úttekt á launakjörum karla og kvenna sem starfa hjá sveitarfélaginu. Ráðstafanir verði gerðar, ef með þarf, til að jafna hlut karla og kvenna sem vinna sambærileg störf.  Litið verði á heildargreiðslur til einstaklinga, þ.m.t. laun fyrir nefndarstörf, sérverkefni ofl. í samhengi við vinnuframlag.

2. Ráðningar í störf ogstarfsaðstæður.

Í auglýsingum skal þess gætt að hafa bæði kynin í huga.  Jafnréttissjónarmið verði metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar. Hvatning til þess kyns sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein skal koma fram í auglýsingu. Sbr. 7. gr. laga nr. 28. / 1991.

Leitast skal við að auka hlut kvenna í hefðbundnum karlagreinum og hlut karla í hefðbundnum kvennagreinum.  Sérstaklega skulu konur hvattar til að sækja um stjórnunarstörf ( sbr. 7. og 13. gr. laga nr. 28 / 1991) og jafnréttissjónarmið metin til jafns á við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar.

Sveitarstjórn lítur svo á að  stjórnunarhæfileikinn sé ekki kynbundinn og verði ekki metinn út frá kynferði.

Við ákvörðun launa og fríðinda skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað sbr. 4. gr laga nr. 28 / 1991.

Starfsfólk sveitarfélagsins skal eiga kost á sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri hagræðingu vinnutíma þar sem því verður við komið.  Þannig skal starfsfólki auðveldað að samræma fjölskylduábyrgð og ábyrgð í starfi.  Konum og körlum skal einnig gert kleift að minnka við sig vinnu tímabundið til að sinna fjölskylduábyrgð, svo sem umönnun barna og sjúkra fjölskyldumeðlima. 

3. Íþrótta- og æskulýðsmál.

Menningar- íþrótta-og æskulýðsnefnd skal veita stúlkum og drengjum sömu tækifæri til íþróttaiðkana og íþróttafélögin hvött til hins sama.  Kynin sitji jöfn að fjárveitingum á vegum sveitarfélagsins til íþróttaiðkunar.  Kanna þarf brottfall unglingsstúlkna úr hefðbundnum íþróttagreinum og leita leiða til að mæta þörfum þeirra fyrir útrás og hreyfingu á annan hátt ef sýnt þykir að áhugasvið breytist eftir ákveðinn aldur.

Þess skal gætt að stúlkur og drengir hafi sömu möguleika til sumarstarfa á vegum sveitarfélagsins.

4. Fræðsla og fyrirbyggjandi starf.

Markviss fræðsla verði fyrir stráka og stelpur í efri bekkjum grunnskóla um kynlíf, barneignir og fjölskylduábyrgð.  Starfsmenn félagsþjónustu leiti  eftir samvinnu við skólastjórnendur og kennara,  Skólaskrifstofu Skagafjarðar auk Heilsugæslu.

Félagsmálanefnd skal standa að almennu námskeið 10 – 12 mánuðum fyrir sveitarstjórnarkosningar um sveitarstjórnarmál, nefndarstörf og jafnréttismál með það markmiði að hvetja konur til að bjóða sig fram í sveitarstjórnarkosningum.

Á tímabilinu verði haldið námskeið í jafnréttismálum fyrir  ráðamenn og starfsmenn sveitarfélagsins.

Unnið verði að því að samþætta jafnréttismálin við aðra málaflokka og almenna stefnumörkun sveitarfélagsins.

5. Nefndir og ráð.

Félagsmálanefnd beini því til stjórnmálaflokkanna að þeir hafi að leiðarljósi að jafna hlut kynja í nefndum og ráðum á vegum sveitarfélagsins.  Sérstaklega skal auka hlut karla í nefndum sem fjalla um svokölluð mjúk mál sbr. félagsmálanefnd og skólanefnd og konum í hefðbundnum karlanefndum sbr. hafnarstjórn.  Hafa skal að leiðarljósi að jafnræðis sé gætt við tilnefningar sveitarstjórnar í nefndir og stjórnir sem sveitarfélagið á aðild að.

6. Endurskoðun og kynning.

Eftir samþykkt skal jafnréttisáætlunin kynnt öllum stjórnendum sveitarfélagsins, kjörnum fulltrúum og embættismönnum, kynna skal íbúum sveitarfélagsins hana í fjölmiðlum og minnt á hana ár hvert.  

Félagsmálanefnd hvetur íbúa Skagafjarðar til að nýta sér áætlunina til að vinna að þróun heilbrigðs samfélags þar sem jafnrétti og sjálfsvirðing eru höfð til grundvallar.

Áætlun þessa skal félagsmálanefnd yfirfara annað hvert ár en heildarendurskoðun skal fara fram á 4 ára fresti er framkvæmdaráætlun lýkur sbr. 7. gr.

Framkvæmdaráætlun skal gerð til 4 ára.

 

Framkvæmdaáætlun 2000 – 2004

2000 Áætlun samþykkt og kynnt, úttekt á launum starfsmanna sveitarfélagsins, námskeið um jafnréttismál fyrir ráðamenn og starfsmenn sveitarfélagsins.

2001 Haldið verði námskeið um sveitarstjórnarmál fyrir konur.   Jafnréttisviðurkenning veitt, síðan árlega upp frá því.

2002 Jafnréttisáætlun yfirfarin

2003 Úttekt verði gerð á þátttöku stúlkna og drengja í íþróttum.

2004 Heildarendurskoðun á jafnréttisáætluninni.