Fara í efni

Fræðslunefnd Svf. Skagafjarðar

159. fundur 16. september 2020 kl. 16:15 - 18:20 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Axel Kárason aðalm.
  • Elín Árdís Björnsdóttir varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir ritari
  • Ragnhildur Jónsdóttir fulltrúi Akrahrepps
  • Steinunn Rósa Guðmundsdóttir varam. áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Herdís Á. Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
  • Selma Barðdal Reynisdóttir fræðslustjóri
  • Erla Hrund Þórarinsdóttir verkefnastjóri
  • Sveinn Sigurbjörnsson skólastjóri tónlistarskóla
  • Steinunn Ragnheiður Arnljótsdóttir skólastjóri leikskóla
  • Dagný Huld Gunnarsdóttir áheyrnarftr. leiksk.kennara
  • Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir áheyrnarftr. foreldra grunnsk.barna
Fundargerð ritaði: Herdís Á Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
Dagskrá

1.Fundartími í Ársölum

Málsnúmer 2006083Vakta málsnúmer

Í leikskólanum Ársölum eru haldnir átta starfsmannafundir yfir árið. Á fundum þessum er starfið með börnunum skipulagt og unnið að faglegum málefnum leikskólans. Fundir þessir hafa verið haldnir á mismunandi tímum í gegnum tíðina, ýmist utan daglegs vinnutíma eða á vinnutíma. Eðli málsins samkvæmt hentar það starfsfólki misvel að mæta á starfsmannafundi að hefðbundnum vinnutíma loknum og því hefur mæting á þá verið dræm. Í ljósi þessa er lagt til að skólaárið 2020-2021 verði fjórir fundir haldnir á dagvinnutíma og fjórir fundir haldnir utan dagvinnutíma. Ákvörðun þessi verður endurmetin við gerð skóladagatals skólaárið 2021-2022.

2.Skólaakstur leikskólabörn í Fljótum

Málsnúmer 2008256Vakta málsnúmer

Borist hefur erindi foreldra þriggja ára barns um að barnið fái að fara með skólabílnum í leikskóla. Reglur sveitarfélagsins um skólaakstur í dreifbýli heimila ekki að aðrir en grunnskólanemendur ferðist með skólabílunum. Fræðslunefnd sér ekki fært að verða við þessu erindi.

3.Nemendafjöldi 2020 - 2021

Málsnúmer 2008213Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir nemendafjölda í leik- grunn- og tónlistarskóla í Skagafirði. Ljóst er að nemendum fjölgar nokkuð á milli ára á öllum skólastigum. Fræðslunefnd fagnar því að nemendum fjölgar í héraðinu.
Fulltrúar leikskóla véku af fundi eftir þennan lið.

4.Skólaasktur á Sauðárkróki

Málsnúmer 2009119Vakta málsnúmer

Skólaakstur á Sauðárkróki var boðinn út í maímánuði s.l. Tvö tilboð bárust í verkið og var ákveðið að ganga til samninga við lægstbjóðanda. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar útboðsmála. Kærunefnd útboðsmála stöðvaði samningsferlið á grundvelli kærunnar og jafnframt með vísan til þess að ekki var ljóst hvort rétt hefði verið staðið að útboðinu með tilliti til þeirrar lagaskyldu að bjóða verkið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Í ákvörðun kærunefndar kemur eftirfarandi fram: ,,Með vísan til þess að útboðið hafi ekki verið auglýst svo sem lög bjóða telur nefndin í ákvörðun sinni dags. 31.08.2020, verulegar líkur á að hið kærða útboð hafi brotið í bága við lög eða reglur um opinbert útboð sem leitt getur til ógildingar útboðsins og þar með ákvörðunar um val á tilboði, sbr. 1. mgr. 110.gr. laga um opinber útboð." Með vísan til ofangreinds telur fræðslunefnd rétt að fella útboðið niður og felur sviðsstjóra að undirbúa nýtt útboð á skólaakstri á Sauðárkróki til eins árs.
Steinunn Rósa Guðmundsdóttir, fulltrúi VG og óháðra, leggur fram eftirfarndi bókun: ,, VG og óháðir standa ekki að afgreiðslu nefndarinnar vegna skólaaksturs á Sauðárkróki og telja að ekki hafi verið staðið vel að þessu útboði og afgreiðslu þessa máls. Þá bárust fundargögn málsins ekki á tilskildum tíma á því formi sem auðvelt var að nálgast. Óskað er eftir því að leiðbeiningar um mismunandi leiðir við að opna fundarskjöl verði gefnar út."
Axel Kárason og Elín Árdís Björnsdóttir, fulltrúar meirihluta í sveitarstjórn, leggja fram eftirfarandi bókun: ,,Harma ber hve útboðsferlið tók langan tíma, en ítrekað að útboðsferlið tafðist þrátt fyrir að hafa verið undirbúið strax í janúar á þessu ári. Röð atvika orsakaði tafir en útboðið var jafnframt það fyrsta sem starfsmenn sveitarfélagsins undirbjuggu samkvæmt stöðlum Evrópska efnahagssvæðisins. Það var vel að því staðið og þökkum við vel unnin störf."
Jóhanna Ey Harðardóttir, fulltrúi Byggðalista, óskar eftirfarandi bókað: ,,fræðslunefnd ákvað 30. janúar að bjóða út skólaakstur á Sauðárkróki, fræðslunefndin hefur ekki fjallað um málið þar til í dag 16. september og þá er málið komið á þá leið að samþykkt hefur verið tilboð í verkið og sú samþykkt komin í kæruferli. Ljóst er að fræðslunefnd stóð ekki að umræddri ákvörðun, en samkvæmt samþykktum Sveitarfélgasins Skagafjarðar þá er það fræðslunefnd sem skal fara með og taka ákvörðun um skólaakstur í grunnskóla.

5.Skólanámskrá Tónlistarskóla Skagafjarðar

Málsnúmer 1912162Vakta málsnúmer

Drög að skólanámskrá Tónlistarskóla Skagafjarðar lögð fram til kynningar. Fræðslunefnd fagnar vinnu við gerð skólanámskrárinnar og hvetur starfsfólk skólans til áframhaldandi faglegs starfs.
Fulltrúi tónlistarskóla og fulltrúi foreldra grunnskólabarna sátu fundinn undir liðum 3-5

Fundi slitið - kl. 18:20.