Fara í efni

Fræðslunefnd

7. fundur 01. nóvember 2022 kl. 16:15 - 17:15 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Regína Valdimarsdóttir formaður
  • Hrund Pétursdóttir varaform.
  • Steinunn Rósa Guðmundsdóttir aðalm.
  • Agnar Halldór Gunnarsson áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Selma Barðdal Reynisdóttir fræðslustjóri
  • Erla Hrund Þórarinsdóttir sérfræðingur á fjölskyldusviði
  • Sólveig Arna Ingólfsdóttir skólastjóri leikskóla
  • Ásrún Leósdóttir áheyrnarftr. leiksk.kennara
  • Vildís Björk Bjarkadóttir áheyrnarftr. foreldra grunnsk.barna
Fundargerð ritaði: Erla Hrund Þórarinsdóttir Sérfræðingur á fjölskyldusviði
Dagskrá

1.Reglur um Tónlistarskóla Skagafjarðar

Málsnúmer 2208294Vakta málsnúmer

Reglur um Tónlistarskóla Skagafjarðar. Reglurnar eru annars vegar uppfærðar með tilliti til sameiningar sveitarfélaganna í Skagafirði og hins vegar eru gerðar nokkrar efnislegar breytinga m.a. er heiti breytt úr reglugerð í reglur um Tónlistarskóla Skagafjarðar. Þá eru sett inn ákvæði sem auðvelda nemendum að stunda nám á miðstigi í öðrum sveitarfélögum. Jafnframt að skóladagatal verði samræmt öðrum skóladagatölum, lagt fyrir og samþykkt í fræðslunefnd.
Fræðslunefnd samþykkir reglurnar fyrir sitt leyti og vísar þeim til sveitarstjórnar.

2.Aðgerðir til að bæta starfsumhverfi leikskóla

Málsnúmer 2210285Vakta málsnúmer

Á síðustu mánuðum og misserum hefur verið unnið ötullega að því að bæta starfsumhverfi leikskóla í Skagafirði. Sérstaklega hefur sjónum verið beint að leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki en þar hefur starfsemin verið nokkuð óörugg vegna m.a. manneklu í daglegri starfsemi og einnig vegna opnunar tveggja nýrra deilda við skólann. Gripið hefur verið til ýmissa ráða til að bæta þar úr, sbr. fundargerð fræðslunefndar frá því 30. júní s.l.
Ein af aðgerðum fólst í því að veita þeim starfsmönnum sem börn eiga í leikskólanum 50% afslátt á dvalargjaldi barna þeirra. Samhliða þessu var rætt um að leitast við að koma til móts við aðra starfsmenn sem ekki njóta slíks afsláttar. Bókun þess efnis var eftirfarandi: ,,Samhliða þessu verður unnið að frekari útfærslum annarra aðgerða sem til skoðunar hafa verið til að bæta starfsumhverfi leikskólanna og styðja við starfsfólk þeirra.“
Fræðslunefnd leggur til eftirfarandi: þeir starfsmenn leikskólanna í Skagafirði, sem ekki njóta afsláttar af dvalargjaldi barna sinna, verði veittir tveir frídagar á þessu skólaári. Leitast verður við að þeir frídagar verði teknir í kringum jól og áramót eða í kringum páska 2023. Óskað verði eftir skráningu barna þessa daga og foreldrar, sem geta haft börn sín heima, fái dvalargjöld niðurfelld. Tekjuskerðing sveitarfélagsins m.v. 60% nýtingu dvalar þessa daga er áætluð tæpar tvær milljónir króna.
Sem hluta að næstu aðgerðum leggur fræðslunefndin einnig til að veita leikskólum Skagafjarðar styrk að fjárhæð 30.000 kr. fyrir hvern starfsmann sem fer í námsferð vegna fyrirhugaðrar námsferðar leikskólans Ársala annars vegar, og þegar kemur að námsferð Tröllaborgar og Birkilundar hins vegar.
Aðgerðirnar eru ætlaðar að koma til móts við starfsmenn leikskólanna sem hafa verið undir auknu álagi síðustu mánuði vegna undirmönnunar og breytinga á starfsumhverfi. Þar má helst nefna leikskólann Ársali sem farið hefur í gegnum miklar breytingar í starfsmannahaldi, ný deild tekin í notkun auk annarra áskorana sem fylgja. Þá var leikskólanum einnig gert að skipuleggja fyrirhugaða námsferð starfsmanna í febrúar fremur en maí til samræmis við vetrarfrí Árskóla, bæði til hagræðis fyrir fjölskyldufólk og atvinnulíf. Fylgdi þeirri breytingu ákveðið óhagræði við skipulagningu ferðarinnar og aukinn kostnaður sem mætt er hér með. Um er að ræða sértæka aðgerð sem afmörkuð er við starfsmenn leikskóla Skagafjarðar vegna þeirra erfiðleika er leikskólarnir hafa staðið frammi fyrir vegna undirmönnunar og áhrif þess á starfsfólk sem hefur staðið vaktina síðustu mánuði svo unnt sé að tryggja viðeigandi þjónustustig í sveitarfélaginu gagnvart fjölskyldufólki og atvinnulífi.
Fræðslunefnd samþykkir aðgerðirnar og vísar þeim til byggðarráðs vegna fjárhagsáætlunargerðar ársins 2023.

3.Samráð; Áform um frumvörp til nýrra heildarlaga um skólaþjónustu og nýja þjónustustofnun

Málsnúmer 2210214Vakta málsnúmer

Áform um frumvörp til nýrra heildarlaga um skólaþjónustu og nýja þjónustustofnun lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 17:15.