Fara í efni

Fræðslunefnd

22. fundur 18. janúar 2024 kl. 16:15 - 17:50 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Kristófer Már Maronsson formaður
  • Hrund Pétursdóttir varaform.
  • Steinunn Rósa Guðmundsdóttir aðalm.
  • Dagmar Ólína Gunnlaugsdóttir varam. áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Bryndís Lilja Hallsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
  • Ragnar Helgason sérfræðingur á fjölskyldusviði
  • Steinunn Ragnheiður Arnljótsdóttir skólastjóri leikskóla
  • Dagný Huld Gunnarsdóttir áheyrnarftr. leiksk.kennara
  • Helga Þórey Ingadóttir áheyrnarftr. foreldra leiksk.barna
  • Sólborg Una Pálsdóttir áheyrnarftr. foreldra grunnsk.barna
  • Jóhann Bjarnason skólastjóri grunnskóla
Fundargerð ritaði: Bryndís Lilja Hallsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
Dagskrá

1.Kjör formanns fræðslunefndar

Málsnúmer 2401199Vakta málsnúmer

Sveitarstjóri bar upp tillögu þess efnis að Kristófer Már Maronsson, fulltrúi D-lista verði formaður fræðslunefndar. Nefndin samþykkir tillöguna.

2.Framkvæmdir við skólamannvirki í Skagafirði

Málsnúmer 2304014Vakta málsnúmer

Jón Örn Berndsen og Ingvar Páll Ingvarsson, starfsmenn framkvæmdasviðs kynntu framkvæmdir við skólamannvirki í Skagafirði.

Á Hofsósi er áhersla lögð á aðgengismál við grunnskólann og Höfðaborg, innan- og utandyra. Búið er að panta lyftu fyrir Grunnskólann austan Vatna á Hofsósi sem verður sett upp fyrir haustið. Þá er einnig unnið að hönnun á húsnæði skólans til framtíðar með tengingu við íþróttasal. Vinna hefur verið í gangi við klæðningu og mun henni ljúka fyrir haustið samhliða vinnu við lyftu.

Til stendur að bjóða út framkvæmdir í febrúar við nýjan leikskóla Í Varmahlíð. Ef allt gengur vel er stefnt að því að í sumar verði húsið steypt upp og klárað að utan og á árinu 2025 verði húsnæðið klárað að innan.

Í Árskóla þarf að skipta um glugga í A-álmu og hafa þeir verið keyptir en ekki hefur verið samið um verkið við verktaka en tímalínan liggur ekki ljós fyrir á þessum tímapunkti.

3.Fundir fræðslunefndar á vorönn 2024

Málsnúmer 2401029Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að fundartímum nefndarinnar fyrir vorönn 2024, sem eru eftirfarandi: 14. febrúar, 13. mars, 17. apríl, 8. maí og 12. júní. Fundir hefjast kl. 16:15. Nefndin samþykkir tillöguna með fyrirvara um breytingar.

4.Fundargerðir skólaráðs Árskóla 2023-24

Málsnúmer 2310247Vakta málsnúmer

Fundargerð skólaráðs Árskóla frá 10. janúar 2024 lögð fram til kynningar.

5.Viðbótarniðurgreiðslur 2024

Málsnúmer 2401030Vakta málsnúmer

Lögð fram uppfærð tekjuviðmið Skagafjarðar vegna viðbótarniðurgreiðslna á leikskólagjöldum, dagvistunargjöldum og frístundagjöldum. Fræðslunefnd samþykkir viðmiðin fyrir sitt leyti og vísar þeim til byggðarráðs.

6.Skráningar í hádegisverð í grunnskólum

Málsnúmer 2312145Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað frá sviðsstjóra fjölskyldusviðs varðandi fyrirkomulag skráninga í hádegisverð í grunnskólum. Nefndin telur ekki tímabært að breyta fyrirkomulagi stakra máltíða að svo stöddu en samþykkir að skoða skuli breytt fyrirkomulag fyrir næsta skólaár að undangengnu samráði við foreldra og starfsmenn skólans. Nefndin samþykkir að áskrift í hádegismat færist sjálfkrafa milli anna en beinir því til starfsmanna í samráði við skólastjórnendur að tryggja að foreldrar verði látnir vita í upphafi hverrar annar að þeir geti skráð börn sín úr mat.

7.Orð eru ævintýri - námsefni fyrir leikskóla

Málsnúmer 2311327Vakta málsnúmer

Menntamálastofnun hefur gefið út bókina Orð eru ævintýri í samvinnu við Miðju máls og læsis hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, leikskólana Laugasól og Blásali, Austurbæjarskóla og námsbraut í talmeinafræði við Háskóla Íslands. Markar þessi útgáfa þáttaskil í útgáfu Menntamálastofnunar þar sem þetta er fyrsta námsefnið sem stofnunin gefur út fyrir leikskólastigið. Bókin verður einnig á rafrænu formi á vef og það á 11 tungumálum.

Menntamálastofnun færir bókina að gjöf til allra barna á Íslandi fædd árin 2018, 2019 og 2020, auk þess sem allir leikskólar fá afhend eintök af bókinni. Leikskólar sjá um að koma bókunum til barnanna. Á árinu 2024 fá öll börn fædd 2021 bókina og svo nýr árgangur barna á þriðja aldursári ár hvert á komandi árum.

8.Opnunartími leikskólans Ársala

Málsnúmer 2401014Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað frá leikskólastjóra Ársala þar sem farið er yfir vistunartíma barna í leikskólanum. Yngra stig leikskólans er opið frá kl. 7:45-16:15 og eldra stig er opið frá kl. 7:45-16:30.

Nefndin samþykkir að stytta opnunartíma á eldra stigi Ársala frá og með 1. júní 2024 og felur starfsmönnum nefndarinnar í samstarfi við leikskólastjórnendur að láta foreldra vita við fyrsta tækifæri.

9.Staða í leikskólamálum

Málsnúmer 2401049Vakta málsnúmer

Lagðar fram upplýsingar frá leikskólastjórum um stöðuna á biðlistum, mönnun og aðlögun nýrra barna.

Hjá leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki eru 12 börn á biðlista sem hafa náð eins árs aldri eða verða eins árs í febrúar. Þau börn hefja aðlögun í fyrri hluta febrúar. Þá verða tvö börn tekin inn í mars og apríl og eru þar með öll pláss í Ársölum nýtt, þ.e. þá verða 190 börn skráð í leikskólann.

Í Tröllaborg er búið að aðlaga öll börn sem sóttu um leikskólapláss fyrir áramótin. Á Hofsósi verður eitt barn tekið inn í mars og þá verða engin börn eftir á biðlista. Á Hólum hafa tvö börn nýlokið aðlögun. Eitt barn er á biðlista sem vonir standa til að hægt verði að bjóða leikskólapláss í vor.

Leikskólinn Birkilundur í Varmahlíð er fullsetinn og ekki hægt að taka inn fleiri börn í vetur. Í haust verður hægt að taka inn 10 börn í stað þeirra sem hefja grunnskólagöngu en þá er útlit fyrir að fimm börn verði eftir á biðlista sem öll hafa náð eins árs aldri í haust. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í vor við byggingu nýs leikskóla í Varmahlíð en þangað til hann verður tekinn í notkun er fyrirséð að börnum bjóðist ekki leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi foreldra. Nefndin felur starfsfólki að auglýsa eftir dagforeldrum í Varmahlíð og kanna kosti og galla þess að skólahópur verði staðsettur í húsnæði Varmahlíðarskóla sem tilraunaverkefni þar til nýr leikskóli hefur starfsemi.

10.Niðurfelling gjalda í leikskólum sumarið 2024

Málsnúmer 2401191Vakta málsnúmer

Foreldrar leikskólabarna gátu óskað eftir niðurfellingu gjalda sumarið 2023 ef börn þeirra tóku sumarfrí umfram lágmarksfrí. Tímabilið sem hægt var að fá niðurfellingu var frá 5. júní til 25. ágúst. Nefndin samþykkir að tímabilið sem niðurfelling gjalda á við um árið 2024 verði frá 3. júní til 15. ágúst og felur starfsfólki að auglýsa skráningu í fyrra eða seinna frí í Ársölum við fyrsta tækifæri í samráði við skólastjórnendur.

Fundi slitið - kl. 17:50.