Fara í efni

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar

200. fundur 22. febrúar 2007
Sveitarstjórn Skagafjarðar
Fundur  200 - 22. febrúar 2007
 
Ár 2007, fimmtudaginn 22. febrúar kl. 16:00, kom Sveitarstjórn Skagafjarðar saman til fundar í Safnahúsi við Faxatorg á Sauðárkróki.
           
Mætt voru:      
Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Árnason, Íris Baldvinsdóttir, Einar Gíslason, Bjarni Egilsson, Páll Dagbjartsson, Sigríður Björnsdóttir, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Bjarni Jónsson.
 
Auk þess sat fundinn Guðmundur Guðlaugsson, sveitarstjóri.
Fundarritari var Engilráð Margrét Sigurðardóttir.
 
Forseti setti fund, bauð fundarmenn velkomna og lýsti dagskrá:
 
Erindi til afgreiðslu
 
1.
379. fundur byggðaráðs, 13. febrúar 2007.
 
 
Mál nr. SV070115
 
Fundargerðin er í 9 liðum.  Gunnar Bragi Sveinsson kynnti fundargerð.
Enginn kvaddi sér hljóðs.
Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
2.
380. fundur byggðaráðs, 20. febrúar 2007.
 
 
Mál nr. SV070116
 
Fundargerðin er í 10 liðum.  Gunnar Bragi Sveinsson kynnti fundargerð.
Enginn kvaddi sér hljóðs.
Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
3.
070220 Atvinnu- og ferðamálanefnd
 
 
Mál nr. SV070117
 
Fundargerðin er í 3 liðum.  Gunnar Bragi Sveinsson kynnti fundargerð.
Til máls tók Páll Dagbjartsson, fleiri ekki.
Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
4.
070215 Fræðslunefnd 15.
 
 
Mál nr. SV070118
 
Fundargerðin er í 7 liðum. Sigurður Árnason kynnti fundargerð. Hann lagði til að 2. lið yrði vísað aftur til nefndarinnar.
 
Til máls tók Bjarni Egilsson og lagði fram breytingartillögu við 1. lið fundargerðarinnar:
 
“Sveitarstjórn samþykkir að ráðning Jóns Hilmarssonar í stöðu skólastjóra yfir sameinaðan grunnskóla út að austan, án auglýsingar, verði látin ganga til baka og felur sveitarstjóra að auglýsa stöðuna opinberlega lausa til umsóknar.
 
Greinargerð.
Meirihluti Framsóknarflokks og Samfylkingar hefur ákveðið að leggja niður stöður skólastjóra við grunnskólana á Hofsósi og Hólum og stofna í staðinn nýja stöðu skólastjóra og  stöðu aðstoðarskólastjóra við sameinaðan grunnskóla út að austan. Hingað til hefur verið krafa hjá sveitarfélaginu að allar lausar stöður skulu auglýstar opinberlega.
Við breytingar sem þessar er eðlilegt að þeir sem störfuðu fyrir hjá skólunum fái jöfn tækifæri til að sækja um hina nýju stöðu, svo og aðrir sem áhuga kunna að hafa, og valið verði úr hópi umsækjenda á faglegum forsendum.”
Sveitarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.
 
Sigríður Björnsdóttir kvaddi sér hljóðs, þá Bjarni Jónsson.
 
Sigurður Árnason tók til máls og lagði fram bókun:
“Samkvæmt samþykkt sveitarstjórnar frá 8. febrúar sl. verða skólarnir út að austan að einni stofnun undir einni stjórn. Fyrir hinni nýju skólastofnun verður því einn skólastjóri. Í svari lögmanns hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga við fyrirspurn segir: “Við sameiningu stofnana hjá sveitarfélögum þykir almennt rétt að beita ákvæðum um tilflutning í starfi ef þess er kostur frekar en að ákvarða öllum starfslok og benda mönnum á að sækja um störf hjá nýrri stofnun. Tilflutningsaðferðin hefur minna rask í för með sér en hin síðari og því æskilegri og í anda meðalhófs stjórnsýslulaga.” Tilflutningsákvæði er að finna í lögum um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnendur grunnskóla þ.e. lög nr. 72/1996. Þar er í e - lið 1. mgr. 4. gr. komið inn á þau tilvik þegar starfsmaður flyst í aðra stöðu sem veitir hliðstæð réttindi hjá sveitarfélagi. Að auki má nefna að ef stjórnendum er sagt upp eiga þeir rétt á sambærilegum störfum hjá sveitarfélaginu sbr. lagaákvæði þar um. Í svari lögmanns er einnig bent á að: “í þeim tilvikum þegar opinberir vinnuveitendur ákveða að beita stjórnunarheimildum sínum og bjóða mönnum tilflutning milli starfa eða breyta störfum þeirra og verksviði þá er ljóst samkvæmt álitum Umboðsmanns Alþingis að þau störf sem um ræðir teljast ekki laus og því ekki rétt að auglýsa þau laus til umsóknar.” Í þessu tilfelli er um það að ræða að tveir skólastjórnendur eru fyrir í sameinuðum stofnunum. Að teknu tilliti til menntunar og starfsreynslu er það rökrétt niðurstaða að ráða Jón Hilmarsson í stöðu skólastjóra í hinum sameinaða grunnskóla.”
 
Síðan töluðu Gunnar Bragi Sveinsson, Bjarni Jónsson, Páll Dagbjartsson, Bjarni Egilsson, Sigurður Árnason, Guðmundur Guðlaugsson, Sigríður Björnsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Páll Dagbjartsson, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, með leyfi varaforseta, fleiri ekki.
 
Breytingartillaga sveitarstjórnarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna borin undir atkvæði og felld með 5 atkv. gegn 4 atkv.
 
Bjarni Jónsson lagði fram bókun:
“Undirritaður ítrekar mótmæli VG við því að lögð sé niður skólastjórastaða Út að austan, í þessu tilviki við Grunnskólann á Hólum og skólinn þannig verðfelldur sem skólastofnun og þróunarmöguleikar hans skertir. Einnig lýsi ég efasemdum um fjárhagslega og faglega hagkvæmni þess að einn skólastjóri verði yfir skólunum að Sólgörðum, Hólum og á Hofsósi. Vinnubrögð við ráðningu skólastjóra í sameinuðum grunnskóla Út að austan eru ennfremur með öllu óásættanleg og meirihluta sveitarstjórnar og sveitarstjóra þeirra til vansa. Þau bera vitni fruntagangi og óvandaðri stjórnsýslu. VG mótmælir því harðlega að staðan sé ekki auglýst þannig að núverandi starfsmenn og aðrir, sem hæfir kynnu að vera til starfans, geti sótt um starfið og ráðning síðan byggð á faglegum forsendum.
Eftir stendur einnig að meirihlutinn hefur knúið í gegnum sveitarstjórn samþykkt þess efnis að fyrirvaralítið og án samráðs við sveitarstjórn verði hægt að taka ákvörðun um skerðingu á skólastarfi með frekari niðurfellingu bekkja við skólanna út að austan. Það hafa því ekki orðið nein sinnaskipti hjá fulltrúum meirihlutaflokkanna.”
 
Sigurður Árnason óskar bókað að hann harmi rangfærslur Vinstri grænna.
 
Tillaga Sigurðar Árnasonar um að vísa lið 2, um sumarlokanir leikskólanna, aftur til Fræðslunefndar samþykkt samhljóða.
 
Liður 1, Ráðning skólastjóra, borinn upp sérstaklega og samþykktur með 5 atkvæðum gegn 4.
 
Bjarni Jónsson óskar bókað að hann greiði atkvæði gegn 1. lið.
 
Bjarni Egilsson leggur fram bókun:
“Sjálfstæðismenn telja að skilyrðislaust beri að auglýsa opinberlega nýjar stöður skólastjóra og aðstoðarskólastjóra yfir sameinuðum grunnskóla út að austan.
Sjálfstæðismenn átelja ófagmannleg og ólýðræðisleg vinnubrögð meirihlutans við ráðningu í stöðu skólastjóra án auglýsingar. Sjálfstæðismenn greiða atkvæði gegn ráðningunni.”
 
Fundargerð að öðru leyti borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
5.
070216 Menningar- og kynningarnefnd
 
 
Mál nr. SV070119
 
Fundargerðin er í 3 liðum. Páll Dagbjartsson kynnir fundargerð.
Enginn kvaddi sér hljóðs.
Liður 2, Reglugerð fyrir Menningarsjóð sveitarfélagsins, borinn undir atkvæði og samþ. samhljóða.
Fundargerðin að öðru leyti borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
6.
070220 - 117.f Skipulags- og byggingarnefnd
 
 
Mál nr. SV070120
 
Fundargerðin er í 11 liðum. Páll Dagbjartsson kynnti fundargerð og kvaddi sér síðan hljóðs. Þá Gunnar Bragi Sveinsson, fleiri ekki.
Fundargerð borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
 
 
7.
Áætlun 2008-2010 - síðari umræða
 
 
Mál nr. SV070121
 
Guðmundur Guðlaugsson, sveitarstjóri fjallaði um áætlunina.

Til máls tók Bjarni Jónsson og lagði fram breytingartillögu frá sveitarstjórnarfulltrúum Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna:
 
“Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra að gera breytingar á framlagðri þriggja ára áætlun þannig að gert sé ráð fyrir byggingu nýrra leikskólarýma á Sauðárkróki og að hafin verði viðbygging við Árskóla á kjörtímabilinu. Vegna þessa verði afgreiðslu þriggja ára áætlunar frestað til næsta sveitarstjórnarfundar.
 
Greinargerð:
Samkvæmt 63. grein sveitarstjórnarlaga ber sveitarstjórn að semja þriggja ára áætlun sem fjallar um áherslur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélagsins. Áætlunin er ekki síst pólitísk stefnumörkun sveitarstjórnar til næstu ára. Í áætluninni á að koma fram hvaða fjárfestingar eru fyrirhugaðar, hvernig þær skuli fjármagnaðar og hvaða áhrif þær hafa á rekstur sveitarfélagsins, skuldastöðu og fjármagnskostnað. Sú þriggja ára áætlun sem hér er til afgreiðslu í sveitarstjórn gerir hvorki ráð fyrir aukningu leikskólarýma á Sauðárkróki, né stækkun Árskóla.
Það er vilji sveitarstjórnarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna að leikskólarýmum á Sauðárkróki verði fjölgað og að ráðist verði í stækkun Árskóla. Ef það á að verða er hins vegar óhjákvæmilegt annað en að fresta afgreiðslu þriggja ára áætlunar fyrir sveitarfélagið svo svigrúm gefist til að taka tillit til þeirra verkefna við afgreiðslu áætlunarinnar. Með því að afgreiða áætlunina í núverandi mynd væri í raun verið að hafna því að leysa húsnæðis- og aðstöðuvanda Árskóla og leikskóla á Sauðárkróki á kjörtímabilinu.”
 
Þá tóku til máls Gunnar Bragi Sveinsson, Guðmundur Guðlaugsson, Bjarni Egilsson, fleiri ekki.
 
Breytingartillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna borin undir atkvæði og felld með 5 atkv. gegn 4.
 
Þriggja ára áætlun 2008-2010 fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð og stofnanir þess borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkv. gegn 4.

Gunnar Bragi Sveinsson gerir grein fyrir atkvæði sínu og leggur fram bókun meirihlutans:
“Rekstrar- og framkvæmdaáætlun 2008 – 2010 gerir ráð fyrir batnandi rekstri sveitarfélagsins. Ljóst er að verðbólga og ýmsir aðrir þættir þurfa ekki að breytast mikið til að áhrifa gæti í áætluninni. Þá er rétt að taka það fram að fjármögnun framkvæmda á tímabilinu t.d við leikskólabyggingu á Sauðárkóki og stækkun Árskóla  getur einnig haft töluverð áhrif á áætlunina. Áætlunin endurspeglar fjárhagsleg markmið meirihlutans og eru sveitarstjóra og fjármálasviði færðar þakkir fyrir góða vinnu.”
 
Bjarni Egilsson tekur til máls og leggur fram bókun:
 
“Þriggja ára áætlun fyrir árin 2008 - 2010  sem meirihluti Framsóknarflokks og Samfylkingar hefur lagt fram er sýndarplagg, sem ætlað er að fullægja á ódýran hátt lagaskyldu sveitarfélaga varðandi gerð fjárhagsáætlana. Áætlunin gerir ekki ráð fyrir rekstrarlegri hagræðingu og/eða nýjum lántökum sem mætt getur yfirlýstum áformum meirihlutans um framkvæmdir á kjörtímabilinu, sem m.a. er bygging leikskóla og viðbygging við Árskóla, ásamt fleiri fjárfrekum verkefnum.
Annaðhvort er áætlunin röng, eða áform um framkvæmdir hugarburður einn. 
Það er sveitarfélaginu til vansa að senda frá sér þriggja ára áætlun án þess að fram komi fjármögnun og rekstrarleg áhrif yfirlýstra framkvæmda á tímabilinu.
Sjálfstæðismenn greiða atkvæði gegn framlagðri þriggja ára áætlun.”                                 
 
Bjarni Jónsson leggur fram bókun:
“Ljóst er að þriggja ára áætlun er annað hvort marklaust plagg eða yfirlýsingar meirihlutans varðandi leikskóla á Sauðárkróki og viðbyggingu við Árskóla óábyrgar og innistæðulausar.  Með því að afgreiða áætlunina í núverandi mynd er meirihluti Framsóknarflokks og Samfylkingar að hafna því að leysa húsnæðis- og aðstöðuvanda Árskóla og leikskóla á Sauðárkróki.
Áætlanagerð meirihlutans einkennist í heild sinni af fálmkenndum vinnubrögðum og stefnuleysi. Tölvuleikir sveitarstjóra sem hér eru bornir fram endurspegla ekki raunveruleikann fremur en fjárhagsáætlun ársins 2007.
Í þriggja ára áætlun á að koma fram hvaða fjárfestingar eru fyrirhugaðar, hvernig þær skuli fjármagnaðar og hvaða áhrif þær hafa á rekstur sveitarfélagsins, skuldastöðu og fjármagnskostnað. Þessi þriggja ára áætlun uppfyllir ekki þau skilyrði.”
 
 
Lagt fram til kynningar
 
8.
070214 Skagafjarðarveitur
 
 
Mál nr. SV070122
 
 
 
 
9.
070214 Heilbrigðisnefnd Nl.v.
 
 
Mál nr. SV070123
 
 
 
10.
SSNV stjórnarf. 070117
 
 
Mál nr. SV070124
 
 
Enginn kvaddi sér hljóðs um þær fundargerðir, sem lagðar voru fram til kynningar.
 
 
Fleira ekki fyrir tekið, fundargerð upplesin og samþykkt.
 
Fundi slitið kl. 18.07.   Engilráð Margrét Sigurðardóttir, ritari fundargerðar