Fréttatilkynning vegna leikskólamála í Varmahlíð
Vegna fréttaflutnings sem skapast hefur vegna skorts á dagvistarrýmum við leikskólann í Varmahlíð vill Sveitarfélagið Skagafjörður koma eftirfarandi á framfæri:
Sveitarfélagið Skagafjörður hefur ætíð sett mikinn metnað í að bjóða upp á næg og ódýr leikskólarými og er eitt fárra sveitarfélaga á landinu sem hefur leitast við að bjóða leikskólarými fyrir eins árs börn og eldri. Flest stærri sveitarfélög miða leikskólagöngu við 18 mánaða aldur eða eldri. Því er hins vegar ekki að neita að leikskólinn í Varmahlíð hefur ekki getað orðið við öllum beiðnum um leikskólavist fyrir eins árs börn og því hefur skapast vandi sem leysa þarf úr. Eitt dagforeldri hefur verið starfandi á svæðinu sem hefur leyst úr þeim vanda sem skortur á leikskólarýmum hefur skapað. Ítrekað hefur verið auglýst eftir fleiri dagforeldrum til starfa á svæðinu en án árangurs.
Í síðustu viku tilkynnti viðkomandi dagforeldri að það myndi hætta rekstri sínum að mánuði liðnum. Við það missa þrjú börn vistunarrými og öllum er ljóst að það bakar foreldrum vanda. Nauðsynlegt er að leysa úr honum og hefur Sveitarfélagið Skagafjörður fullan vilja til þess að finna viðunandi lausn og vinnur að því.
Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur eiga og reka leikskólann í sameiningu. Nefnd á þeirra vegum fer með rekstrarleg málefni skólans og aukning á leikskólarýmum er á forræði hennar. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur ítrekað bókað vilja sinn til að ráðast í framkvæmdir til að fjölga leikskólarýmum og hefur lýst þeim vilja sínum að tengja þær framkvæmdir endurbótum á grunnskólahúsnæðinu í Varmahlíð. Með því að færa starfsemi leikskólans Birkilundar í hús grunnskólans skapast tækifæri til að hugsa þessi skólastig sem eina heild og gera ráð fyrir ýmis konar samvinnu og samnýtingu. Frumteikningar að breytingum á grunnskólahúsnæðinu, sem rúma vel hvoru tveggja leikskólann og grunnskólann, liggja fyrir og af hálfu Sveitarfélagsins Skagafjarðar er ekkert að vanbúnaði að hefja lögbundið samráðsferli og fullnaðarhönnun um leið og niðurstaða um málið liggur fyrir í samstarfsnefnd sveitarfélaganna.