Fara í efni

Styrkur til eflingar kennslu og náms með spjaldtölvum

16.02.2017
Frá afhendingu styrkveitingar

Árið 2014 veitti stjórn Sáttmála til sóknar í skólamálum í Skagafirði, sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga og sveitarfélaganna í Skagafirði, Fræðsluþjónustu Sveitarfélagsins Skagafjarðar styrk að upphæð 4 milljónir króna til eflingar kennslu og náms með spjaldtölvum. Verslunarmannafélag Skagafjarðar bætti síðan við 500 þúsund krónum til sama verkefnis.

Í kjölfarið var unnið að útfærslu á verkefninu og ákveðið að kaupa iPad spjaldtölvur fyrir grunnskólana og ráðast í vinnu við að innleiða nýja kennsluhætti og nýja nálgun verkefna í skólunum. Sérstakur kennsluráðgjafi var ráðinn til verkefnisins og hefur hann á þeim tíma sem hann hefur starfað ekki einungis sinnt grunnskólunum, heldur einnig kennurum leik- og tónlistarskóla Skagafjarðar.

Óhætt er að fullyrða að hin nýja upplýsingatækni hefur gjörbreytt kennsluaðferðum og viðhorfi til náms og kennslu svo um munar. Það er einnig skoðun kennara og foreldra að kennsla með spjaldtölvum sem hjálpartæki beri með sér margar jákvæðar hliðarverkanir, svo sem eins og jafnari félagslega stöðu nemenda og breyttu viðhorfi til getu til náms og þroska.

Það segir sig sjálft að verkefnið kostar mikla fjármuni á meðan verið er að hrinda því í framkvæmd. Fram til þessa hefur ekki verið hægt að bjóða öllum aldurshópum grunnskólanna kennslu með spjaldtölvum heldur hafa skólarnir þurft að velja árganga í þessu tilliti.

Áætlað hefur verið að til að ljúka innleiðingu verkefnisins og gefa öllum nemendum grunnskólanna tækifæri til að kynnast námi með nýjustu upplýsingatækni, þurfi u.þ.b. 14 milljónir króna. Við gerð fjárhagsáætlunar þessa árs samþykkti Sveitarfélagið Skagafjörður aukafjárveitingu til verkefnisins að upphæð 7 milljónir króna. Í gær veitti verkefnisstjórn Sáttmála til sóknar í skólamálum í Skagafirði Fræðsluþjónustu Sveitarfélagsins Skagafjarðar styrk að upphæð 7 milljónir króna til að unnt væri að ljúka innleiðingunni.

Það er einkar mikilsvert fyrir skólasamfélagið í Skagafirði að eiga slíkan bakhjarl sem atvinnulífið í Skagafirði er. Fræðsluþjónusta Sveitarfélagsins Skagafjarðar þakkar innilega þann góða hug sem styrkurinn felur í sér.