Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

35. fundur 15. febrúar 2023 kl. 14:00 - 16:00 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Einar Eðvald Einarsson formaður
  • Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir varaform.
  • Álfhildur Leifsdóttir aðalm.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.GAV - Hofsós grunnskóli, endurbætur hönnun

Málsnúmer 2211367Vakta málsnúmer

Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs og Valur Valsson verkefnastjóri komu til fundar við byggðarráð til að kynna hugmyndir að endurbótum á húsnæði Grunnskólans austan Vatna á Hofsósi, sem snúa m.a. að þakskiptum á eldri byggingu, klæðningu á norðurhlið hennar, klæðningu og gluggaskiptum á vesturhlið nýrri byggingar og endurgerð snyrtinga.
Byggðarráð samþykkir að framkvæmdirnar verði boðnar út.

2.SAK - Árskóli viðhald A-álma 2023, hönnun og áætlun

Málsnúmer 2301088Vakta málsnúmer

Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs og Valur Valsson verkefnastjóri komu til fundar við byggðarráð til að kynna hugmyndir að endurbótum á A-álmu Árskóla, sem snúa m.a. að gluggaskiptum og klæðningu á vesturhlið.
Byggðarráð samþykkir að framkvæmdin verði boðin út.

3.Kjördeildir í Skagafirði

Málsnúmer 2302160Vakta málsnúmer

Kjördeildir í Skagafirði hafa á liðnum árum verið 8 talsins. Með bættum samgöngum hefur þróunin á landsvísu verið sú að kjördeildum hefur fækkað í sveitarfélögum landsins.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að afla frekari gagna um stærðir kjördeilda í Skagafirði fyrir næsta fund ráðsins.

4.24. unglingalandsmót UMFÍ 2023

Málsnúmer 2110015Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að þríhliða samstarfssamningi á milli Ungmennafélags Íslands, Ungmennasambands Skagafjarðar og sveitarfélagsins Skagafjarðar um 24. unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður um verslunarmannahelgina, 3.-6. ágúst 2023 á Sauðárkróki.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að afla frekari upplýsinga um ýmis atriði samningsins.

5.Aðstaða fyrir Siglingaklúbbinn Drangey

Málsnúmer 2210294Vakta málsnúmer

Málið áður tekið fyrir á 29. fundi byggðarráðs 4. janúar 2023. Rætt um drög að samningi við siglingaklúbbinn Drangey og ábendingar sem forsvarsmenn klúbbsins hafa komið með um innihald hans.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að ræða framkomnar ábendingar við forsvarsmenn siglingaklúbbsins Drangeyjar, ásamt því að kanna mögulega samnýtingu aðstöðu með Skagafjarðarhöfnum og eftir atvikum fleiri aðilum.

6.Auglýsing eftir framboðum í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga

Málsnúmer 2302152Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf dags. 10. febrúar 2023 frá Óttari Guðjónssyni framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga, sem sent er fyrir hönd kjörnefndar sjoðsins. Í bréfinu er athygli vakin á því að unnt er að bjóða sig fram til setu í stjórn sjóðsins til kl. 12 á hádegi miðvikudaginn 8. mars nk. en framboðum þurfa að fylgja upplýsingar svo kjörnefnd geti tekið afstöðu til þekkingar, reynslu og almenns hæfis frambjóðenda. Kjörnefnd leggur í kjölfarið fram tillögu að skipan stjórnar og varastjórnar fyrir aðalfund Lánasjoðs sveitarfélaga sem haldinn verður þann 31. mars næstkomandi á Grand hótel í Reykjavík.

7.Útboð á skólaakstri í dreifbýli 2023

Málsnúmer 2301100Vakta málsnúmer

Tekin fyrir bókun sem vísað var frá fræðslunefnd á 11. fundi hennar 9. febrúar sl. svohljóðandi:
"Samningar um skólaakstur í dreifbýli renna út 31. maí 2023 eftir 5 ára samningstíma. Taka þarf ákvörðun um útboð á akstrinum og samhliða yfirfara breytingar á akstursleiðum og hugsanlega fyrirkomulagi. Reglur um skólaakstur í dreifbýli voru uppfærðar í október 2022 en ekki gerðar efnislegar breytingar á þeim tíma. Nefndin samþykkir að bjóða skólaaksturinn út og gefur sér tíma til að skoða reglurnar og mun afgreiða þær síðar. Nefndin vísar málinu til sveitarstjórnar."
Byggðarráð samþykkir málið fyrir sitt leyti og vísar því til sveitarstjórnar.

8.Útboð hádegisverðar leik- og grunnskóla á Sauðárkrkóki 2023

Málsnúmer 2301162Vakta málsnúmer

Tekin fyrir bókun sem vísað var frá fræðslunefnd á 11. fundi hennar 9. febrúar sl. svohljóðandi:
"Samningur sveitarfélagsins við Stá ehf. um kaup á hádegisverði í leik- og grunnskóla á Sauðárkrkóki rennur út 31. júlí 2023. Í samningnum eru ákvæði sem heimila framlengingu samningsins um eitt ár í senn tvisvar sinnum. Nefndin leggur til að hádegisverðurinn verði boðinn út nú í vor og veittur verði sá sveigjanleiki í útboðinu að bjóða í tvennu lagi, annars vegar hádegisverð í leikskóla og hins vegar hádegisverð í grunnskóla. Í útboðslýsingum skal lögð mikil áhersla á íslenskt/skagfirskt hráefni, heilsusamlegt mataræði og að lágmarka vistspor þjónustunnar með því m.a. að nýta sem mest hráefni úr heimabyggð. Auk þess verði gerð krafa um að rekstraraðilar veiti upplýsingar um uppruna, innihaldslýsingar og framleiðsluhætti þeirra vara sem boðið er upp á. Farið verði eftir ábendingum Landlæknisembættisins um samsetningu matartegunda og í hverjum skóla verði matseðlar yfirfarnir og samþykktir og að ákveðið samræmi sé á milli skólastiga hvort sem um ræðir einn eða tvo verktaka. Einnig er mikilvægt að leggja áherslu á sveigjanleika í útboðinu hvað varðar fjölda matarskammta með tilliti til starfstíma beggja skólastiga, leikskóla og grunnskóla. Fjöldi matarskammta eru á milli 650 - 700. Nefndin vísar tillögunni til sveitarstjórnar."
Álfhildur Leifsdóttir Vg og óháðum leggur fram eftirfarandi tillögu:
"VG og óháð leggja áfram áherslu á að matur sé eldaður frá grunni fyrir alla skóla Skagafjarðar eftir gildum heilsueflandi grunnskóla. Við óskum eftir nýju kostnaðarmati við breytingar á eldhúsi Ársala til að hægt sé að elda mat þar fyrir leik- og grunnskóla á Sauðárkróki, þar sem horft verði til hagkvæmustu leiða. Um leið hörmum við þá skammsýni í hönnun Ársala að ekki sé þar raunverulega fullbúið eldhús og leggjum áherslu á að svo verði í komandi leikskólabyggingu á Sauðárkróki. Lagt er til að málinu verði vísað aftur til fræðslunefndar."
Tillagan felld með 2 atkvæðum fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Einar Einarsson, Framsóknarflokki og Sólborg S. Borgarsdóttir, Sjálfstæðisflokki leggja fram eftirfarandi bókun:
"Fræðslunefnd Skagafjarðar hefur áður fjallað um hugmyndir þess efnis að hádegisverður í leik- og grunnskólum á Sauðárkróki verði eldaður frá grunni og á staðnum. Á þeim tíma var farið í sérstaka greiningu á kostnaði vegna framleiðslu hádegisverðar fyrir Ársali og Árskóla í eldhúsi eldra stigs Ársala. Sú greining leiddi í ljós að ráðast þyrfti í talsverðar breytingar á eldhúsi beggja skóla. Í þeirri greiningu lá strax fyrir að miðað við aðstæður í Árskóla væri illmögulegt að breyta eldhúsinu í framleiðslueldhús. Þá var skoðað sérstaklega hvort Ársalir gætu annað framleiðslu hádegisverðar fyrir báða skólana. Hvað þá hugmynd varðaði þá var það mat þeirra sérfræðinga, sem fengnir voru til aðstoðar við greininguna, að skipuleggja þyrfti eldhúsið upp á nýtt, fjárfesta í nýjum tækjum og jafnframt þyrfti að ráðast í viðbyggingu til að hýsa frystiklefa fyrir eldhúsið. Ljóst var að slíkar breytingar myndu hafa í för með sér talsverðan kostnað fyrir sveitarfélagið, sbr. minnisblað sem lagt var til grundvallar kostnaðarmati."
Byggðarráð samþykkir málið fyrir sitt leyti með tveimur atkvæðum fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og vísar því til sveitarstjórnar.

9.Samráð; Grænbók um húsnæðis- og mannvirkjamál

Málsnúmer 2302153Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 10. febrúar 2023 þar sem innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 33/2023, "Grænbók um húsnæðis- og mannvirkjamál". Upphaflegur umsagnarfrestur var til og með 19.02. 2023 en hann hefur nú verið framlengdur til og með 01.03. 2023.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar gerð grænbókar stýrihóps innviðaráðherra um húnæðis- og mannvirkjamál. Um afar umfangsmikinn málaflokk er að ræða og nauðsynlegt að samhæfing hans við aðrar stefnur og áætlanir nái fram að ganga til að tryggja skilvirkara kerfi og enn frekari uppbyggingu vandaðs húsnæðis á hagkvæmum kjörum um land allt. Ljóst er að eins og staðan er í dag er afar erfitt fyrir fólk og fyrirtæki að fjármagna byggingu nýrra fasteigna og að húsnæðisstuðningskerfin eins og þau eru byggð í dag eru ekki nægilega samhæfð og taka ekki nægt tillit til verðlagshækkana á byggingamarkaði. Jákvætt er að fram kemur í grænbókinni að efla eigi tryggingavernd fasteignaeigenda og fræðslu og rannsóknir innan byggingariðnaðarins en nauðsynlegt er að herða enn frekar á byggingareftirliti og auka réttarvernd vegna byggingargalla. Jafnframt er jákvætt að horfa skuli til sérhæfðra lausna til að mæta áskorunum á húsæðismarkaði á landsbyggðinni.

10.Samráð; Drög að þingsályktunartillögu um matvælastefnu

Málsnúmer 2302154Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 10. febrúar 2023 þar sem matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 31/2023, "Drög að þingsályktunartillögu um matvælastefnu". Umsagnarfrestur er til og með 24.02. 2023.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar framkomnum drögum að matvælastefnu fyrir Ísland og því meginmarkmiði stefnunnar að íslensk matvælaframleiðsla verði efld enn frekar í sátt við umhverfi og samfélag hér á landi. Það er mikilvægt að um leið og við aukum markmið og kröfur til innlendrar framleiðslu að sambærilegar kröfur séu og verði gerðar til innfluttra matvara, hvort sem um er að ræða unnar eða óunnar vörur. Eina trygging neytenda fyrir gæðum þeirra vara sem stendur þeim til boða í verslunum eru kröfur sem settar eru á framleiðslu varanna og þær verða að vera þær sömu til innlendra framleiðenda og innfluttra matvæla. Ef sambærilegar kröfur eru ekki gerðar til uppruna allra þeirra matvæla sem standa Íslendingum til boða mun metnaðarfull matvælastefna ekki ná markmiðum sínum um öfluga og hreina innlenda framleiðslu.
Það á líka að vera hluti matvælastefnunnar að neytendur séu upplýstir með augljósum hætti á umbúðum matvara um hver uppruni þeirra sé og við hvaða skilyrði þau eru framleidd. Þessar merkingar þurfa að vera skýrar þeim sem verslar eða neytir matvælanna hér á landi.
Í framkomnum drögum að matvælastefnu til ársins 2040 er lagt til að gerð verði áætlun til 5 ára í senn um framkvæmd hennar. Það er mikilvægt að þetta verði að veruleika og að þeirri framkvæmdaráætlun fylgi það fjármagn sem þarf svo hún verði að veruleika og markmið stefnunnar nái fram að ganga. Stjórnvöld verða að bera ábyrgð á að svo verði.

11.Samráð; Drög að þingsályktunartillögu um landbúnaðarstefnu

Málsnúmer 2302155Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 10. febrúar 2023 þar sem matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 30/2023, "Drög að þingsályktunartillögu um landbúnaðarstefnu". Umsagnarfrestur er til og með 24.02. 2023.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar framkominni tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040 og leggur áherslu á að staðinn sé vörður um innlenda búvöruframleiðslu, mikilvægi hennar er óumdeilt. Í tillögunni koma fram mörg mikilvæg og góð markmið sem öll lúta meira og minna í þá átt að efla enn frekar innlenda framleiðslu landbúnaðarvara en um leið að það verði gert á sem umhverfisvænastan hátt með bæði hagsmuni neytenda, dýra og framleiðenda að leiðarljósi. Byggðarráð vill minna á að í heiminum er hörð samkeppni um framleiðslu á matvælum. Jafnframt er hið alþjóðlega regluverk flókið samhliða þeirri staðreynd að framleiðsluskilyrði, umhverfi og regluverk í löndum eru mismunandi. Til að stefna sem þessi nái markmiðum sínum verður tvennt að gerast. Annars vegar er nauðsynlegt að fyrir liggi samþykkt og fjármögnuð aðgerðaáætlun um hvernig stjórnvöld ætli að ná settum markmiðum í landbúnaðaráætluninni. Hitt sem einnig er mikilvægt er að stjórnvöld hverju sinni að hafi kjark til að taka mið af íslenskum aðstæðum við setningu laga og reglugerða þannig að innlend framleiðsla líði ekki fyrir legu landsins, vegalengdir og þær litlu framleiðslueiningar sem hér eru í samanburði við öll okkar helstu nágrannalönd. Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að stjórnvöld vandi sig betur en gert hefur verið þegar lög og reglugerðir erlendis frá eru innleidd fyrir íslenskar aðstæður en þá virðist oft skorta að horft sé til íslenskra staðhátta. Það að framleiða heilbrigðar og góðar landbúnaðarvörur með jafn heilbrigðum framleiðsluaðferðum og hér eru notaðar, og stefnt er að gera ennþá betri, kostar líka bæði rannsóknir og vinnu sem verður að fjármagna af hálfu hins opinbera. Byggðarráð styður einnig aukna aðkomu hins opinbera að aukinni framleiðslu korns, grænmetis og fleiri vöruflokka sem ekki hafa hlotið tilhlýðilegan stuðning til jafns við það sem gert er erlendis. Það er mikilvægt að efla þessa framleiðslu en það má ekki gerast á kostnað þeirra greina sem fyrir eru í framleiðslu búvara en standa þarf vörð um grundvöll þeirra. Gerum Ísland sjálfbært í sem allra flestum vöruflokkum.

12.Samráð; Sameining héraðsdómstóla

Málsnúmer 2302156Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 10. febrúar 2023 þar sem dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 29/2023, "Sameining héraðsdómstóla". Umsagnarfrestur er til og með 24.02. 2023.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar skýrslu starfshóps dómsmálaráðherra um sameiningu héraðsdómstóla og er sammála þeirri tillögu sem er að finna í skýrslunni um að nauðsynlegt sé að efla starfsemi héraðsdómstóls/-stóla á núverandi starfsstöðvum, þ.á.m. Sauðárkróki, og að staðsetning þeirra verði lögfest. Jafnframt að lögfest verði að þrír starfsmenn verði að lágmarki starfandi á hverri starfsstöð, þar af að minnsta kosti tveir héraðsdómarar eða einn héraðsdómari og einn dómarafulltrúi, sem skapa ætti enn betra faglegt umhverfi hjá héraðsdómi. Hins vegar þarf að gæta að því að mögulegar breytingar leiði ekki til verri þjónustu við borgara landsins eða að of mikil sérhæfing myndi leiða til þess að áhuginn á því að starfa á einstökum starfsstöðvum á landsbyggðunum myndi dvína.

13.Bensínleki við N1 Hofsósi - beiðni um leyfi til mælinga.

Málsnúmer 2102181Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar skýrslur frá Verkís um niðurstöður vöktunarferða í október og nóvember 2022 - mælingar á TVOC og CO2, CH4 og SO2, í tengslum við vöktun á rokgjörnum lífrænum efnum úr neðanjarðargeymi N1 á Hofsósi.

Fundi slitið - kl. 16:00.