Fara í efni

Félags- og tómstundanefnd Svf. Skagafjarðar

264. fundur 20. mars 2019 kl. 15:00 - 17:45 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Guðný Hólmfríður Axelsdóttir formaður
  • Atli Már Traustason varaform.
  • Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir ritari
  • Anna Lilja Guðmundsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Herdís Á. Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
  • Þorvaldur Gröndal frístundastjóri
  • Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir félagsmálastjóri
  • Bertína Guðrún Rodriguez verkefnastjóri
Fundargerð ritaði: Herdís Á Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
Dagskrá

1.Árskort í Sundlaug Sauðárkróks

Málsnúmer 1902236Vakta málsnúmer

Erindi hefur borist sveitarfélaginu þar sem spurt er um hvernig farið verði með árskort sem íbúar hafa keypt í sundlaugar sveitarfélagsins en hafa ekki getað nýtt sér þau á Sauðárkróki þar sem lokun laugarinnar hefur orðið talsvert lengri en gert var ráð fyrir í upphafi. Er það vilji nefndarinnar að koma til móts við handhafa árskorta og felur starfsmanni að koma með tillögur að lausn.

2.Heilsueflandi samfélag

Málsnúmer 1809169Vakta málsnúmer

Á fundi sínum þann 21. janúar s.l. lagði félags- og tómstundanefnd til við sveitarstjórn að Sveitarfélagið Skagafjörður sæktist eftir því að gerast þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi samfélag sem Embætti landlæknis veitir forstöðu. Tillaga nefndarinnar var tekin fyrir í sveitarstjórn þann 13. mars s.l. með þeirri bókun að sveitarstjórn samþykkir að unnið verði að því að gera sveitarfélagið að Heilsueflandi samfélagi og vinna þannig að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Sveitarstjórn samþykkti jafnframt að skipa þverfaglegan stýrihóp með aðkomu lykilhagsmunaaðila til að vinna að verkefninu.
Félags- og tómstundanefnd fagnar samþykkt sveitarstjórnar og væntir góðs af verkefninu.

3.Framkvæmd frístundastætó 2018-2019 Foreldrar barna í GAV

Málsnúmer 1903165Vakta málsnúmer

Tekið er fyrir erindi frá foreldrum barna í GAV þar sem þeir lýsa óánægju sinni með framkvæmd frístundastrætós skólaárið 2018-2019. Nefndin fór vel yfir málið og reifaði ýmis sjónarmið og anga málsins. Einnig var farið yfir minnisblað frístundastjóra yfir málið. Nefndin ítrekar mikilvægi þess að markmið frístundastrætós séu í heiðri höfð og leggur áherslu á öflugt samtal frístundaþjónustu, skóla og foreldra barna á svæðinu. Nefndin beinir því til sviðsstjóra og frístundastjóra að leitast við að laga það sem betur má fara við framkvæmdina.
Þorvaldur Gröndal, frístundastjóri, vék af fundi eftir þennan lið.

4.Menntastefna Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Málsnúmer 1811217Vakta málsnúmer

Kynnt var að verið væri að móta nýja menntastefnu fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð með þátttöku leik,- grunn,- og framhaldsskóla ásamt tónlistarskóla og frístundaþjónustu. Verkefninu er stýrt af starfsmönnum fræðsluþjónustu sveitarfélagsins. Menntastefnunni er ætlað að taka við af skólastefnu sveitarfélagsins sem unnin var árið 2008.
Þar sem stefnan tekur einnig til frístundastarfsins er óskað eftir aðkomu félags- og tómstundanefndar, hvort sem er með þátttöku í vinnuhópum eða með ábendingum og athugasemdum um stefnuna.
Nefndin fagnar þessari vinnu og væntir þess að hún skili meira og samþættara starfi gagnvart námi og frístundum barna og ungmenna í sveitarfélaginu. Nefndin óskar eftir að fá kynningu á vinnu við gerð menntastefnunnar eftir því sem henni vindur fram.

5.Viðmiðunarupphæðir 2019 v. 25. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir vegna styrkja til náms, verkfæra- og tækjakaupa

Málsnúmer 1901159Vakta málsnúmer

Félagsmálastjóri kynnti tillögu að viðmiðunarupphæðum sbr. 25. grein laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa. Nefndin samþykkir fyrir sitt leiti og vísar málinu til Byggðarráðs.

6.Umsókn um leyfi til daggæslu í heimahúsi.

Málsnúmer 1903087Vakta málsnúmer

Árni Einar Adolfsson sækir um leyfi til daggæslu á einkaheimili ásamt konu sinni, Guðrúnu Erlu Sigursteinsdóttur og hyggjast þau starfa saman að daggæslunni sem er heimilt skv. 10. gr. Reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsum nr. 907/2005. Guðrún Erla hefur fyrir leyfi fyrir 5 börnum.
Fyrir liggja öll gögn sem reglugerðin gerir ráð fyrir, sbr. 13. gr reglug. um skilyrði leyfisveiting félagsmálanefnda. Nefndin samþykkir bráðabirgðaleyfi, sbr. 15 gr. reglugerðar nr. 907/2005 fyrir 4 börnum. Leyfið verður gefið út þegar ljóst er hvenær hann hefur störf. Samtals verða börnin þá 9 í gæslu á heimilinu.

7.Samstarf um átakverkefni gegn heimilisofbeldi

Málsnúmer 1903166Vakta málsnúmer

Lögð er fram tillaga um að félags- og tómstundanefnd mæli með því við sveitarstjórn að sveitarfélagið gangi til samstarfs við Lögreglustjórann á Norðurlandi vestra um samvinnu í átaki gegn heimilisofbeldi. Markmið samstarfsins er að auka þekkingarmiðlun og bæta verklag til að taka á heimilisofbeldismálum, veita þolendum og gerendum betri þjónustu, vernda börn sem búa við heimilisofbeldi, vanda rannsókn lögreglu frá upphafi máls og nýta betur úrræði um brottvísun af heimili sem og nálgunarbann.
Félags- og tómstundanefnd fagnar þessu mikilvæga framtaki og samþykkir tillöguna fyrir sitt leyti. Erindinu vísað til byggðarráðs.

8.Trúnaðarbók Félags- og tómstundanefndar 2019

Málsnúmer 1902123Vakta málsnúmer

Tekin fyrir tvö erindi. Sjá trúnaðarbók.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, félagsmálastjóri og Herdís Á. Sæmundardóttir, sviðsstjóri, sátu fundinn undir þessum lið. Bertína Rodriguez, sérfærðingur, vék af fundi undir þessum lið.

9.Málefni fatlaðs fólks á Nlv - Fundargerðir þjónusturáðs

Málsnúmer 1609085Vakta málsnúmer

Fundargerð Þjónusturáðs í málefnum fatlaðs fólks þann 19. febrúar 2019 lögð fram til kynningar.

10.Kynning Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar

Málsnúmer 1903142Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar kynningarbréf frá Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar sem tók til starfa í maí 2018.

11.Bréf félags- og barnamálaráðherra vegna vinnu við stefnumótun í málefnum barana

Málsnúmer 1902199Vakta málsnúmer

Kynnt var erindi félags- og barnamálaráðherra vegna vinnu við stefnumótun í málefnum barna. Vinnunni er stýrt af félagsmálaráðuneytinu og hefur ráðherra skipað þverpólitíska þingmannanefnd til að hafa yfirumsjón með mótun stefnunnar. Þingmannanefndin starfar með fagfólki víðs vegar að og samhliða starfa opnir hliðarhópar um tiltekin málefni. Í erindinu er bent á að áhugasamir geta komið með ábendingar er varða málefnið sem og óskir um að taka þátt í hliðrhópum og opnum fundum. Félags- og tómstundanefnd fagnar þessari áherslu ráðherra á málefni barna og væntir góðs af þeirri vinnu sem hrundið hefur verið af stað af hans hálfu.

Fundi slitið - kl. 17:45.