Fara í efni

Fræðslunefnd

25. fundur 22. mars 2024 kl. 16:15 - 17:00 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Kristófer Már Maronsson formaður
  • Hrund Pétursdóttir varaform.
  • Steinunn Rósa Guðmundsdóttir aðalm.
Starfsmenn
  • Bryndís Lilja Hallsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
  • Dagný Huld Gunnarsdóttir áheyrnarftr. leiksk.kennara
Fundargerð ritaði: Bryndís Lilja Hallsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
Dagskrá
Hrund Pétursdóttir og Steinunn Rósa Guðmundsdóttir sátu fundinn í gegnum fjarfundarbúnað.

1.Hádegisverður í Ársölum og Árskóla

Málsnúmer 2402092Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað frá sviðsstjóra og sérfræðingi á fjölskyldusviði eftir skoðun á Aðalgötu 7 þar sem kostir og gallar við kaup og leigu á húsnæðinu koma fram. Nefndin telur rétt að leita annarra kosta.

Fræðslunefnd leggur til að hádegisverðurinn verði boðinn út við fyrsta tækifæri og veittur verði sá sveigjanleiki í útboðinu að bjóða í tvennu lagi, annars vegar hádegisverð í leikskóla og hins vegar hádegisverð í grunnskóla til tveggja ára með möguleika á framlengingu í eitt ár tvisvar sinnum. Í útboðslýsingum skal lögð mikil áhersla á íslenskt/skagfirskt hráefni, heilsusamlegt mataræði og að lágmarka vistspor þjónustunnar með því m.a. að nýta sem mest hráefni úr heimabyggð. Auk þess verði gerð krafa um að rekstraraðilar veiti upplýsingar um uppruna, innihaldslýsingar og framleiðsluhætti þeirra vara sem boðið er upp á. Farið verði eftir ábendingum Landlæknisembættisins um samsetningu matartegunda og í hverjum skóla verði matseðlar yfirfarnir og samþykktir og að ákveðið samræmi sé á milli skólastiga hvort sem um ræðir einn eða tvo verktaka. Einnig er mikilvægt að leggja áherslu á sveigjanleika í útboðinu hvað varðar fjölda matarskammta með tilliti til starfstíma beggja skólastiga, leikskóla og grunnskóla. Fjöldi matarskammta eru á milli 650 - 700.

Jafnframt leggur nefndin til að horft verði til lengri tíma og hafist handa strax við að kostnaðarmeta fjárfestingar og rekstrarkostnað þess að elda skólamat fyrir grunnskóla og leikskóla á Sauðárkróki í Varmahlíðarskóla eða með viðbyggingu við eldra stig leikskólans Ársali, hvort sem rekstur slíkra eininga yrði á hendi starfsmanna sveitarfélagsins eða reksturinn boðinn út.

Nefndin samþykkir tillögurnar samhljóða og vísar þeim til Byggðarráðs.

2.Tillaga - Kynning á faglegu starfi leik- og grunnskóla í Skagafirði

Málsnúmer 2403110Vakta málsnúmer

VG og óháð gera það að tillögu sinni að fræðslunefnd Skagafjarðar og sveitarstjórn Skagafjarðar, ásamt nýstofnuðum spretthóp, starfshóp og viðeigandi starfsmönnum fái kynningu á því faglega starfi sem unnið er í leik- og grunnskólum Skagafjarðar. Leik- og grunnskólar sinna fjölþættum og yfirgripsmiklum verkefnum og þar er unnið mikið og gott faglegt starf. Til að vita hvaða faglega starf er þegar unnið og sjá hvort rými er til umbóta og þá hverjar þær umbætur ættu að vera, leggja VG og óháð til að fræðslunefnd, sveitarstjórn, nýstofnuðum spretthóp um nýja nálgun í leikskólamálum, starfshóp um stjórnun leik- og grunnskóla í Skagafirði ásamt því starfsfólki sem tilheyra viðkomandi málefnum, fái greinagóða kynningu nú á vordögum á því faglega starfi sem þegar er unnið.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar taka undir það að mikið og gott faglegt starf sé unnið í leik- og grunnskólum Skagafjarðar. Til að sinna verkefnum hópanna er mikilvægt að fara yfir og fá kynningu á núverandi starfi og líkt og staðið hefur til frá upphafi enda erfitt að meta kosti og galla breytinga ef núllpunkturinn er ekki skýr. Afurð hópanna verða skýrslur sem hóparnir eiga að skila Byggðaráði og þar skulu dregnir fram kostir og gallar við mismunandi aðgerðir ásamt kostnaðarmati. Spretthópur um leikskólamál var skipaður af Byggðaráði 28. febrúar sl. og hefur hafið vinnu sína en ekki er búið að skipa í starfshóp um stjórnun leik- og grunnskóla í Skagafirði. Á dagskrá spretthóps er heimsókn í alla leikskóla í Skagafirði til að kynnast skipulagi og starfsumhverfi hverrar einingar. Við teljum ekki þörf á því að spretthópur sem skoðar eingöngu skipulag og starfsumhverfi í leikskólum fái sérstaka kynningu á faglegu starfi grunnskóla en sjálfsagt að kynning á hvoru skólastigi standi til boða fyrir þá aðila sem telja sig þurfa á henni að halda, hvort sem um er að ræða fólk í starfshópum, fræðslunefnd, sveitarstjórn eða starfsfólk sveitarfélagsins á málefnasviðinu. Með hliðsjón af tillögu VG og óháðra er rétt að hnykkja á því að hvorugum hópnum er ætlað að skoða umbætur á faglegu starfi í leik- og grunnskólum.

Meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks leggur fram eftirfarandi breytingatillögu: Fræðslunefnd felur starfsmönnum að skipuleggja kynningu á starfi leikskóla í Skagafirði í samráði við stjórnendur leikskóla sem nefndinni, sveitarstjórn, spretthóp um nýja nálgun í leikskólamálum og viðeigandi starfsmönnum sveitarfélagsins muni standa til boða að mæta á. Jafnframt verði skipulögð kynning á starfi grunnskóla í Skagafirði í samráði við stjórnendur grunnskóla sem nefndinni, sveitarstjórn og viðeigandi starfsmönnum sveitarfélagsins muni standa til boða að mæta á. Verði starfshópur um stjórnun leik- og grunnskóla tekinn til starfa fyrir kynningarnar standi þær einnig til boða fyrir þann hóp.

Tillagan samþykkt með tveimur atkvæðum meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Fulltrúi VG og óhaðra óskar bókað að hún sitji hjá.

Fundi slitið - kl. 17:00.