Fara í efni

Mótun ehf - stofnfundagerð og samþykktir

Málsnúmer 1310150

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 639. fundur - 17.10.2013

Afgreiðslu erindisins frestað til næsta fundar byggðarráðs.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 640. fundur - 24.10.2013

Lögð fram stofnfundargerð og samþykktir fyrir Mótun ehf. Tilgangur félagsins er framleiðsla báta og annara vara úr trefjaplasti, rekstur verkstæðis í því sambandi, skyldur rekstur, útleiga og rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Hlutafé félagsins verður 10.000.000 kr. og skiptist svo: Sveitarfélagið Skagafjörður 4.900.000 kr., Kaupfélag Skagfirðinga 4.900.000 kr. og Skagafjarðarhraðlestin, félag 200.000 kr.
Byggðarráð samþykkir að leggja fram 4.900.000 kr. hlutafé í Mótun ehf.

Fulltrúi Samfylkingar óskar bókað:
Ja hérna, nú er ég örlítið hugsi. Getur það verið skynsamlegt eða rétt að sveitarfélagið gerist stofnaðili og hluthafi í ?nýju félagi? sem gerir út á margþætta starfsemi með stærsta fyrirtæki sveitarfélagsins og leggi 4.9 m.kr. af skattfé í samkeppnisrekstur. Já maður spyr sig.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir

Byggðarráð sveitarfélagsins telur mikilvægt að auka nýbreytni í atvinnulífi Skagafjarðar og er Mótun ehf. gott dæmi um slíkt. Samspil atvinnulífs í héraði og skólanna er mikilvægt og grunnur að öflugu atvinnulífi í sveitarfélaginu. Er það von okkar að með tilkomu Mótunar ehf. muni það samspil eflast enn frekar og verða bæði atvinnulífi sem og FNV til framdráttar.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 307. fundur - 30.10.2013

Afgreiðsla 639. fundar byggðaráðs staðfest á 307. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 307. fundur - 30.10.2013

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun.
Nú var ég örlítið hugsi á byggðaráðsfundi 24.október sl. Getur það verið skynsamlegt eða rétt að sveitarfélagið gerist stofnaðili og hluthafi með Kaupfélagi Skagfirðinga og Skagafjarðarhraðlestinni í félagi sem gerir út á margþætta starfsemi og leggi í það 4.9 m.kr. af skattfé íbúa ? Fari þar með í samkeppnisrekstur á markaði. Já sögðu fulltrúar Framsóknarflokks, Vinstri græna og Sjálfstæðisflokks á fyrrgreindum byggðaráðsfundi. Málið er sérstakt og vil ég m.a. nefna.
a. Kynning, undirbúningur, umræða og afgreiðsla fór eingöngu fram í byggðaráði þegar fundargerð og samþykktir félagsins lágu fyrir.
b. Atvinnu ?og ferðamálanefnd kom hvergi að málum.
c. Verið er að fjárfesta í hagnaðarskyni, engin stefna til hjá sveitarfélaginu hvað það varðar.
d. Mat um áhrif ákvörðunar um stofnun þessa félags á fjárhag og ábyrgð sveitarfélagsins til lengri tíma litið liggur ekki fyrir.
e. Ekki var gert ráð fyrir fjármagni í til þessa í fjárhagsáætlun ársins.
f. Viðauki var gerður við fjárhagsáætlun ársins þar sem gert er ráð fyrir að fjármögnun verði mætt með lækkun á handbæru fé.
g. Sveitarstjóri undirritar skjöl varðandi kaup og sölu fasteigna sveitarfélagsins, lántökur og ábyrgðir, svo og önnur skjöl sem fela í sér skuldbindingar eða ráðstafanir sem samþykki sveitarstjórnar þarf til, það var ekki í þessu tilfelli.
h. Verið er að setja útsvarstekjur sveitarfélagsins í hlutafé í áhættusaman rekstur og samkeppni á fyrirtækjamarkaði.
Í lögum segir að sveitarstjórn beri að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum. Þátttaka sveitarfélagsins í atvinnurekstri samræmist ekki lögbundnum verkefnum og öðrum þeim verkefnum sem heimilt er til að sinna. Undirrituð telur málið þannig vaxið og undirbúið að óábyrgt væri að samþykkja hlutafé og þátttöku í félaginu Mótun ehf og greiðir atkvæði á móti þessum samningi og greiðslu í hlutafé.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Samfylkingunni.

Stefán Vagn Stefánsson tók máls og ítrekar bókun sína frá byggðarráðsfundi þann 24. október, svohljóðandi.

Byggðarráð sveitarfélagsins telur mikilvægt að auka nýbreytni í atvinnulífi Skagafjarðar og er Mótun ehf. gott dæmi um slíkt. Samspil atvinnulífs í héraði og skólanna er mikilvægt og grunnur að öflugu atvinnulífi í sveitarfélaginu. Er það von okkar að með tilkomu Mótunar ehf. muni það samspil eflast enn frekar og verða bæði atvinnulífi sem og FNV til framdráttar.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir kvaddi sér hljóðs og lagði fram bókun.
Fram kemur í bókun byggðaráðs að mikilvægt sé að auka nýbreytni í atvinnulífi í héraði og tek ég heilshugar undir það, einnig kemur fram að samspil atvinnulífs og skóla sé mikilvægt og tek ég heilshugar undir það. Viðskipti eiga að fá að vera í eðlilegum gangi í friði fyrir stjórnsýslu og pólitík sveitarfélagsins, fulltrúar sveitarfélagsins eru ekki kjörnir til þess að stunda áhættufjárfestingar með skattfé íbúana. Undirrituð telur þetta ágæta verkefni eiga heima á forsendum atvinnulífsins.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Samfylkingunni.

Afgreiðsla 640. fundar byggðaráðs staðfest á 307. fundi sveitarstjórnar með fimm atkvæðum. Hrefna Gerður Björnsdóttir sat hjá, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir greiðir atkvæði á móti, Stefán Vagn Stefánsson og Gísli Sigurðsson tóku ekki þátt í atkvæðagreiðslu.