Rafræn vöktun
Skagafjörður nýtir rafræna vöktun hjá stofnunum sínum þar sem það er talið nauðsynlegt á grundvelli öryggis og/eða eignavörslu, sbr. 9. og 11. grein laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga . Rafræn vöktun nær bæði til vöktunar þar sem persónuupplýsingar eru geymdar og hugsanlega unnar frekar og vöktunar sem fer fram í rauntíma án þess að fram fari söfnun myndefnis eða önnur vinnsla persónuupplýsinga.
Reglum þessum er ætlað að tryggja að við alla rafræna vöktun sé gætt meðalhófs og virðingar fyrir friðhelgi einkalífs þeirra sem henni sæta.
Við rafræna vöktun hjá stofnunum Skagafjarðar skal sérstaklega tryggt að meginreglum 8. gr. persónuverndarlaga sé fylgt. Þannig skal vöktun ávallt fara fram í skýrum og málefnalegum tilgangi og þær unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti. Eingöngu sé safnað nauðsynlegum persónuupplýsingum, þær varðveittar í takmarkaðan tíma og þannig að öryggi þeirra sé tryggt.
Reglur þessar eru settar til samræmis við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og reglur Persónuverndar nr. 50/2023, um rafræna vöktun. Reglur þessar skulu gilda um alla rafræna vöktun hjá stofnunum Skagafjarðar og skulu birtar opinberlega.
Forstöðumenn stofnana þar sem rafræn vöktun á sér stað bera ábyrgð á að farið sé að reglum þessum. Áður en til rafrænnar vöktunar samkvæmt reglum þessum kemur, skal upplýsa alla þá sem kunna að vera á vöktuðum svæðum um vöktunina og setja upp merki sem gefa til kynna að um vaktað svæði sé að ræða.
Hvernig fer vöktun fram?
Vöktunin getur farið fram á almannafæri eða svæðum þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði eins og til dæmis á vinnustöðum. Rafræn vöktun nær bæði yfir þau tilvik þar sem persónuupplýsingar eru unnar eða varðveittar, til dæmis þegar myndefni úr rafrænni vöktun er varðveitt í einhvern tiltekinn tíma og yfir þau tilvik þar sem myndefnið er ekki varðveitt en það er til dæmis sýnt á sjónvarpsskjá sem er vaktaður af starfsfólki.
Einungis er heimilt að skoða myndefni við sérstök tilefni og er það aðeins skoðað af þeim aðilum sem hafa skýra heimild til þess. Myndefni er almennt ekki geymt lengur en í 30 daga nema í sérstökum tilvikum, til dæmis á grundvelli laga eða tilmæla lögreglu, og stundum enn skemur.
Í þeim tilvikum sem eftirlitsmyndavélar eru nettengdar er gætt sérstaklega að öryggi myndefnis og tryggt að óviðkomandi aðilar hafi ekki aðgang að myndefni þeirra.
Má sveitarfélagið birta myndefni af mér opinberlega?
Nei, Skagafjörður miðlar hvorki efni né birtir það opinberlega nema með skýru samþykki þeirra sem eru á myndefninu.
Hins vegar er Skagafirði almennt skylt að afhenda lögreglu myndefni sem verður til við rafræna vöktun þegar svo ber undir.
Jafnframt kann Skagafjörður að miðla myndefni til tryggingarfélaga eða lögreglu þegar slys hafa orðið á fólki og/eða tjón á munum og myndefni þykir hafa verulega þýðingu við rannsókn máls eða mati á því hvort um skaðabótaskylda háttsemi eða vátryggða háttsemi sé að ræða. Almennt er leitast við að tilkynna hlutaðeigandi aðilum um slíkt þegar það er unnt
Má ég skoða myndefnið ef ég eða barnið mitt verður fyrir rafrænni vöktun?
Þau sem verða fyrir rafrænni vöktun eiga almennt rétt á því að skoða myndefnið, nema aðrir hagsmunir þyki vega þyngra.
Hægt er að óska eftir skoðun myndefnis með því að senda tölvupóst. Brugðist er við beiðnum um skoðun gagna og eftir atvikum afhendingu þeirra svo fljótt sem verða má. Skagafirði er þó skylt að leggja mat á myndefnið hverju sinni þegar aðgangsbeiðni berst til þess að tryggja að beiðandi eigi hagsmuni af skoðun myndefnis og ekki sé farið í bága við einkamálefni annarra þegar það á við.
Rafræn vöktun þarf alltaf að hafa skýran og málefnalegan tilgang.
Rafræn vöktun á vegum sveitarfélagsins Skagafjarðar fer til dæmis fram í þeim tilvikum sem hún telst nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna sveitarfélagsins eða annarra. Þá kann að vera lögskylt að viðhafa vöktun, til dæmis til að tryggja öryggi starfsfólks og þjónustunotenda. Myndavélaeftirlit getur meðal annars þótt nauðsynlegt til að koma í veg fyrir þjófnað eða eignaspjöll.
Skagafjörður ber ábyrgð á rafrænni vöktun sem fer fram á starfsstöðvum sveitarfélagsins.
Það þýðir að réttindi þeirra sem verða fyrir vöktun eru tryggð og að öryggi persónuupplýsinganna verður að vera fullnægjandi. Slíkt á sérstaklega við þegar vöktun fer fram á vettvangi fólks sem fellur undir viðkvæma hópa, svo sem fólk í viðkvæmum félagslegum aðstæðum. Skagafjörður telur einnig mikilvægt að vöktun sé merkt með greinilegum hætti svo öllu fólki megi vera ljóst að vöktun fari fram hverju sinni og hvar myndavélar eru staðsettar. Skagafjörður vaktar aldrei með leynd.