Fara í efni

Fróðleikur um Skagafjörð

Sveitarfélög

Sveitarfélög í Skagafjarðarsýslu voru 12 árið 1998 þegar kosið var um sameiningu í þeim öllum nema í Akrahreppi.
Sameining var samþykkt í öllum 11 sveitarfélögunum og sameinuðust þá Sauðárkrókskaupstaður, Fljótahreppur, Hofshreppur, Hólahreppur, Viðvíkurhreppur, Rípurhreppur, Skefilsstaðahreppur, Skarðshreppur, Staðarhreppur,Seyluhreppur og Lýtingsstaðahreppur.

Árið 2022 sameinaðist Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur í eitt sveitarfélag, Skagafjörð.

Saga

Skagfirðingar eru stoltir af sögu sinni og menningu. Allt frá landnámstíð hefur Skagafjörður gengt mikilvægu hlutverki í þjóðarsögunni.

Árið 1106 urðu Hólar í Hjaltadal biskupssetur og var svo um nær 7 alda skeið. Áhrif Hólastaðar á menntun og mannlíf í Skagafirði voru gríðarleg. Hólar voru um langt skeið helsta valdamiðstöð landsins ásamt Skálholti og þar sátu biskupar sem tóku vald sitt frá Guði og áttu sumir hverjir í illdeilum við fulltrúa hins veraldlega valds.

Af þekktum biskupum á Hólum má nefna Jón Ögmundsson (1052-1121) sem var fyrsti biskupinn á Hólum, lagði drög að stofnun klaustra, stofnaði skóla og réð jafnvel til sín franskan tónlistarkennara. Ást Skagfirðinga á tónlist er á góðum stundum rakinn allt aftur til þess. Jón Ögmundsson var talinn helgur maður og varð hinn ástsælasti dýrlingur hér á landi. Guðmundur Arason (1160-1237) hinn góði hélt réttindum kirkjunar fram á ofsafenginn hátt og átti í deilum við höfðingja Sturlungaaldarinnar. Hann var margsinnis rekinn frá Hólastað af höfðingum og voru átök þessi brennidepill í Sturlungasögu sem gerist að stórum hluta í Skagafirði og lýsir þessum átökum kirkju og höfðingja sem lýkur með því að íslenska þjóðveldið líður undir lok árið 1262. Jón Arason (1484-1550) sat síðastur kaþólskra biskupa á Íslandi. Hann var umsvifamikill kirkjuhöfðingi en varð að lúta í lægra haldi fyrir veldi Danakonungs og mótmælenda. Árið 1550 var Jón hálshöggvinn ásamt tveimur sonum sínum. Þar með var kaþólska trúin gerð útlæg úr landinu. Jón er ættfaðir flestra íslendinga og mun vandfundinn sá kaþólski biskup sem er ættfaðir einnar þjóðar enda var ekki ætlast til þess að biskupar kaþólsku kirkjunar giftust og ættu afkomendur.

Jón Arason flutti til landsins fyrstu prentsmiðjuna og um langt skeið var rekin öflug prentsmiðja að Hólum en einkum sinnti hún prentun guðsorðabóka. Þekktastur lúthersku biskupana á Hólum var eflaust Guðbrandur Þorláksson (1541-1627) en við hann er kennd Guðbrandsbiblía, sú fyrsta sem gefin var út á íslensku. Á hans tíð voru prentaðar nærri 100 bækur á Hólum.

Árið 1798 var biskupstóll lagður niður að Hólum en árið 1881 keypti Skagafjarðarsýsla staðinn og lét stofna þar búnaðarskóla. Í dag er Hólaskóli öflugur og nútímalegur háskóli sem leggur áherslu á hrossarækt, fiskeldi og ferðamennsku.

Saga Skagafjarðar mótaðist mjög af nábýlinu við biskupssetrið en öflugir veraldlegir höfðingjar sátu stórbýli í Skagafirði eins og Reynistað, Flugumýri og Ás í Hegranesi svo nokkrir séu nefndir. Í Glaumbæ reisti Guðríður Þorbjarnardóttir bú sitt, en hún hafði áður ferðast til Vesturheims og til Rómar og var án efa kvenna víðförlust á víkingaöld. Á Reynistað var klaustur en einnig eitt helsta vígi veraldlega valdsins.

Helstu hafnir í Skagafirði voru á Hofsósi og í Kolkuósi og tengdust þær beint biskupstólnum og um Hóla lá þjóðbraut yfir Hjaltadalsheiði og Heljardalsheiði til Eyjafjarðar.

Skagfirðingar voru stoltir, þóttu glysgjarnir og áttu til að finna sér annan starfa en að sinna búskap. Þóttu þeir í þessu dálítið frábrugðnir öðrum landsmönnum. Einnig var hestamennska útbreidd í Skagafirði og sagt var að Skagfirðingar vildu margir hverjir sinna útreiðum fremur en búhokri. Söngmennt stóð einnig framar en víða annars staðar og menningar- og bókmenntalíf var öflugt. Langflestir íbúar Skagafjarðar höfðu atvinnu sína af landbúnaði en einnig sóttu margir sjóinn. Segja má að viss stöðnun hafi ríkt í Skagafirði á mörgum sviðum frá því um 1650 - 1850. Um það leyti fer iðnbyltingin að láta til sín taka og krafa Íslendinga um aukið sjálfræði fékk mikinn hljómgrunn í Skagafirði. Viðskiptahættir tóku einnig breytingum og almenningur hóf að flytjast úr sveitunum, margir til Vesturheims, en einnig í þéttbýlið. Sauðárkrókur varð löggiltur verslunarstaður árið 1858 og hófst þá lausaverslun úti fyrir staðnum. Árið 1871 settist fyrsti íbúinn, Árni Árnason klénsmiður þar að og stundaði veitingasölu. Tveimur árum síðar reis fyrsta verslunin, stofnuð af Halli Ásgrímssyni Grænlandsfara. Árið 1875 seldi hann Ludvig Popp kaupmanni verslunina og starfaði hún um áratuga skeið undir nafni Poppsverslunar. Ludvig Popp má kalla föður Sauðárkróks. Hann kom að, eða stóð fyrir fjölmörgum framfaramálum í kauptúninu unga og skipulagði bæinn sem var í hraðri uppbyggingu. Svo margar þóttu verslanir í bænum um aldamótin 1900 að gárungar kölluðu plássið Kaupmannahöfn. Íbúum fjölgaði að sama skapi og voru þá komnir yfir 400. Árið 1906 kom fyrsti vélbáturinn til Sauðárkróks og árið 1916 var lokið smíði bryggju. Skömmu fyrir síðari heimstyrjöld var gerður hafnargarður og útgerðinni óx smám saman fiskur um hrygg en verslun og þjónusta við sveitirnar var samt sem áður aðal atvinnuvegurinn. Árið 1940 bjuggu 964 íbúar á Sauðárkróki. Árið 1970 voru þeir 1.596 en 1. janúar 2019 bjuggu 2.616 íbúar á Sauðárkróki.

Í sveitarfélaginu Skagafirði voru skráðir til heimilis 1. janúar 2024 4.390 íbúi. Hefur íbúum héraðsins í heild fjölgað á síðustu árum. Í dag er útgerð, iðnaður, verslun og opinber þjónusta stærstu atvinnuvegirnir á Sauðárkróki en landbúnaður lang stærsti atvinnuvegurinn í öðrum hlutum héraðsins.

Menning og listir


Leiklistarstarf hefur löngum verið öflugt í Skagafirði en einskonar samnefnari fyrir skemmtanahald var Sýslufundavikan, eða Sæluvikan, sem má líklega rekja til ársins 1874. Þá viku voru haldnar leiksýningar, danssamkomur, málfundir og margvíslegar menningarsamkomur sem héldust lengst af í hendur við fund sýslunefndarmanna í Skagafirði. Sæluvika er haldin enn í dag og flagga þá Skagfirðingar því helsta sem er efst á baugi í menningarlífi héraðsins.

Ýmsir þjóðkunnir listamenn tengjast Skagafirði. Fyrr á tíð má nefna menn eins og Hallgrím Pétursson sálmaskáld og Bertel Thorvaldsen myndhöggvara en frá seinni tímum málarana Jón Stefánsson, Sigurð og Hrólf Sigurðssyni, Jóhannes Geir Jónsson og Elías B. Halldórsson. Rithöfundana Hannes Pétursson, Guðrúnu Árnadóttur frá Lundi og Gyrði Elíasson og tónskáldin Pétur Sigurðsson og Eyþór Stefánsson svo einhverjir séu nefndir. Í dag má einnig nefna Geirmund Valtýsson, Sverri Bergmann og dúettinn Úlf Úlf, þá Helga Sæmund Guðmundsson og Ragnar Frey Frostason. Þá eru einnig vel þekktir kórar og sönghópar í Skagafirði, Karlakórinn Heimir, Kvennakórinn Sóldís, Álftagerðisbræður og Kammerkór Skagafjarðar.

Landafræði Skagafjarðar

Skagafjörður er nálægt miðju Norðurlandi, um 40 km langur og fullir 30 km á breidd milli Húnsness á Skaga og Straumness innan við Fljótavík, þrengist þó nokkuð innar en er samt 15 km breiður þvert yfir frá Reykjadiski. Fram í botn Skagafjarðar gengur Hegranes og eru breiðar víkur báðum megin þess og sandar miklir í botni. Á firðinum eru Drangey og Málmey. Siglingaleið um fjörðinn er greið og er hann djúpur, þó gengur hryggur neðansjávar út frá Hegranesi og annar frá Drangey, 4-5 km til norðurs, og er Hólmasker nyrst á honum. Kemur það upp um fjöru. Innar á hryggnum eru Kvíslasker. Boðar og grunn eru út frá báðum endum Málmeyjar.

Undirlendi er mikið í vestanverðu héraðinu, nema undir Tindastóli. Að firðinum austanverðum er nokkuð undirlendi og há fjöll að baki. Náttúrlegar hafnir eru engar en skipalægi nokkur, þó flest ill frá náttúrunnar hendi.

Inn af botni Skagafjarðar gengur mikill dalur samnefndur. Er hann einn mesti dalur landsins, breiður og grösugur, kringdur svipmiklum fjöllum. Aðalhéraðið er um 50 km langt en klofnar innst í þrönga dali er ganga langt inn í hálendið. Kallast þeir einu nafni Skagafjarðardalir en hafa líklega heitið Goðdalir til forna. Undirlendið er 5-10 km breitt en út frá því ganga þverdalir, bæði byggðir og óbyggðir. Aðalvatnsfall í Skagafirði er Héraðsvötn.

Austan að Skagafirði er hrikalegur fjallgarður en nokkru lægri fjöll að vestanverðu. Helstu eyjar á Skagafirði eru Drangey og Málmey. Upp af firðinum er mikill dalur og breiður og nokkurt undirlendi við ströndina en flatlendi mikið á Skaga. Helstu fjöll eru Tindastóll (989 m y.s.) vestan fjarðarins, Mælifellshnjúkur (1138 m y.s.) er rís fyrir miðju héraði og Glóðafeykir (853 m y.s.) í Blönduhlíð. Suður af héraðinu greinast þrír dalir, Svartárdalur, Vesturdalur og Austurdalur en Norðurárdalur gengur í austur inn af Blönduhlíð. Utar eru Hjaltadalur, Kolbeinsdalur og fleiri dalir þeim megin upp frá austurströnd fjarðarins. Meginvatnsfall sýslunnar er Héraðsvötn sem verða til af Jökulsám tveimur, Austari- og Vestari-, sem koma undan Hofsjökli. Þau falla til sjávar í tveimur kvíslum, sinni hvoru megin við Hegranes. Allmiklar ár falla úr flestum dölum, samnefndar þeim, en fossar eru engir teljandi, nema Reykjafoss (14 m) í Tungusveit.Skagafjarðarsýsla er um 5.230 km2.

Helstu stöðuvötn eru Miklavatn í Borgarsveit, Höfðavatn á Höfðaströnd og Miklavatn í Fljótum, öll gömul sjávarlón. Aðalbergtegund í Skagafjarðarsýslu er blágrýti en grágrýti og móberg er á Skaga. Eldstöðvar eru engar, nema ævafornar, svo sem Mælifellshnjúkur, en jarðhiti víða. Þó eru nokkur hraun við norðurjaðar Hofsjökuls. Mestur jarðhiti er á Reykjum og Steinsstöðum í Tungusveit og hjá Varmahlíð, Reykjarhóli. Gróður er víða mikill, grösugar starengjar, mýrar og graslendi en kvistlendi lítið og skógar ekki nema lítils háttar í Hrollleifsdal í Fellshreppi. Gróið land er 1013 km2. Veðursæld er í Skagafirði. Lax og silungur er víða í ám og vötnum. Fugla- og eggjatekja er í Drangey og Þórðarhöfða.