Fara í efni

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar eru veitt árlega þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í sveitarfélaginu Skagafirði sem þykja standa sig afburða vel í að efla skagfirskt samfélag. Hefð hefur skapast fyrir því að afhenda Samfélagsverðlaun Skagafjarðar á setningu Sæluviku. Samfélagsverðlaun Skagafjarðar voru veitt í fyrsta sinn á setningu Sæluviku Skagfirðinga árið 2016.


Handhafar Samfélagsverðlauna Skagafjarðar

2024

 


Hjónin Árni Björn Björnsson og Ragnheiður Ásta Jóhannsdóttir

Þau hjónin eru einstakar fyrirmyndir í samfélaginu okkar. Þau styðja dyggilega við íþróttastarfið í Skagafirði og eru ávallt fyrst til að bjóða fram hjálp þegar einhver þarf á að halda og hafa þau marg oft staðið fyrir söfnunum fyrir fjölskyldur og fyrirtæki í neyð. Með dugnaði, frumkvæði, hjálpsemi, samhyggð og góðu hjartalagi stuðla þau einnig að samheldni í samfélaginu okkar. Þau eru ein af ástæðum þess að það er gott að búa í Skagafirði og við getum verið stolt af því að tilheyra svo frábæru samfélagi því þau hvetja okkur hin til þess að verða betri einstaklingar. Það er því vel við hæfi að hjónin Árni Björn og Ragnheiður Ásta hljóti Samfélagsverðlaun Skagafjarðar og er þeim þakkað opinberlega fyrir þeirra óeigingjarna framlag til samfélagsins í Skagafirði.

 

 

2023


Rögnvaldur Valbergsson (á mynd ásamt konu sinni Hrönn Gunnarsdóttur)

Rögnvaldur er flestum Skagfirðingum góðkunnugur. Hann hefur staðið vaktina í samfélagi okkar í áratugi og aðstoðað leika og lærða. Hans afrek eru mörg og tengjast mikið tónlist. Hann er óþreytandi að leggja góðum hlutum lið og er hafsjór af fróðleik í þeim efnum. Rögnvaldur hefur spilað undir hjá fjölmörgum kórum og allskyns hópum auk þess að vera organisti Sauðárkrókskirkju til langs tíma. Rögnvaldur er gjöfull og greiðagóður á tíma sinn og hæfileika til samfélagsins. Það er því vel við hæfi að Rögnvaldur Valbergsson hljóti Samfélagsverðlaun Skagafjarðar og að þakka honum opinberlega fyrir öll hans óeigingjörnu störf í gegnum tíðina.

 

2022

 

 


Helga Bjarnadóttir (á mynd ásamt fjölskyldu)

Helga hefur á langri ævi komið að fjölmörgum verkum sem hafa markað samfélag Skagafjarðar með jákvæðum hætti. Í nærri aldarfjórðung hefur hún, hálfsmánaðarlega yfir vetrartímann, staðið fyrir samkomum fyrir eldri borgara á Löngumýri, lengst af með nágrannakonu sinni Indu í Lauftúni. Helga hefur verið driffjöðrin í gönguhópi í Varmahlíð um langa hríð, staðið fyrir bókaútgáfu, verið meginstoð í Kvenfélagasambandi Skagafjarðar og svo mætti telja. Hún hefur um árabil séð um blómagarðinn á Löngumýri og fer gjarnan samhliða í garðverk til nágranna sinna sem eiga erfitt með slíkt. Heimsóknir til dægrastyttingar einbúum eru reglubundinn þáttur og ávallt er hún boðin og búin að rétta hjálparhönd stórum sem smáum. Hún á að baki farsælan feril sem barnakennari og skólastjóri og hafði einstaklega góð og mótandi áhrif á nemendur sína. Helga Bjarnadóttir er sannarlega verðugur handhafi Samfélagsverðlauna Skagafjarðar.

 

2021

 


Stefán R. Gíslason

Stefán Gíslason hefur verið leiðandi í tónlistarlífi Skagfirðinga um áratuga skeið. Gildir þar einu hvort um er að ræða kennslu, kórstjórn eða menningarviðburði þar sem tónlistin hefur verið aðalatriðið og er Stefán alltaf tilbúinn að koma að slíku. Undir hans stjórn hafa karlakórinn Heimir, Álftagerðisbræður og kirkjukórar náð miklum vinsældum innanlands sem utan. Hann hefur staðið fyrir fjölmörgum viðburðum, m.a. undir formerkjum Sönglaga á Sæluviku. En fyrst og síðast er Stefán einstaklega samfélagslega þenkjandi og telur ekki eftir sér að leggja góðum málefnum lið með sjálfboðnum framlögum. Hinn ljúfmannlegi en metnaðarfulli kennslu- og uppeldisþáttur hans með nemendum hefur svo opnað mörgum heim tónlistar svo eftir hefur verið tekið og fjölmargir nemendur hans gert tónlist að atvinnu sinni ekki síst fyrir tilstilli Stefáns.

 

2020

 

 

 

 


Helga Sigurbjörnsdóttir

(á mynd ásamt Gunnsteini Björnssyni, formanni atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar)

Helga hefur lagt drjúgan skerf til félags- og framfaramála á Sauðárkróki í marga áratugi. Hún starfaði sem leikskólastjóri í mörg ár og lagði grunninn að því faglega og umhyggjusama starfi sem leikskólarnir sinna í Skagafirði. Auk langs og farsæls starfsferils í þágu barna á Sauðárkróki hefur Helga verið mikilsvirt og öflug kvenfélagskona og formaður Kvenfélags Sauðárkróks um árabil. Sem slík hefur hún verið í forystu margra brýnna og mikilvægra samfélagsmála, bæði vegna ýmissa félagslegra verkefna, eins og t.d. söfnun fjármuna til kaupa á lækningatækjum o.þ.h. en ekki síður verkefna sem snúa að velferð einstaklinga og fjölskyldna í gegnum sjúkrasjóð Kvenfélagsins. Þau verkefni fara ekki alltaf hátt. Þá hefur Helga verið ötul að kenna þjóðbúningasaum og verið óþreytandi við að hvetja konur til að bera búninginn við ýmis tækifæri. Helga er núverandi formaður Félags eldri borgara í Skagafirði. Þar eins og annars staðar er hún óþreytandi í störfum í þágu eldri borgara. Margt fleira mætti segja um forystu- og framfaraverkefni Helgu. Helga er vel að verðlaununum komin enda hefur hún sannarlega borið samfélag sitt sér fyrir brjósti og lagt á sig ómælt starf öðrum til hagsbóta.

 

 

2019


Geirmundur Valtýsson tónlistarmaður

(á mynd ásamt eiginkonu sinni, Mínervu Björnsdóttur)

Geirmundur hefur verið ein af stoðum skagfirsks menningarlífs um langan tíma og spannar ferill hans í tónlist yfir 60 ár. Geirmundur hefur stuðlað að jákvæðri ímynd Skagafjarðar og unnið óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins.

 

2018


Hjónin Árni Stefánsson og Herdís Klausen

Árna Stefánssyni og Herdísi Klausen eru veitt samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2018 fyrir afar góð störf með því að stuðla að hreyfingu og lýðheilsu í samfélaginu til langs tíma.  Árni og Herdís hafa staðið fyrir starfsemi Skokkhóps Sauðárkróks þar sem fjöldi fólks hefur notið leiðsagnar þeirra í hollri og skemmtilegri hreyfingu. Hefur starfsemi Skokkhópsins vakið athygli langt út fyrir Skagafjörð um árabil. Hjónin Árni og Herdís eru sannarlega verðugir handhafar Samfélagsverðlauna Skagafjarðar.

 

2017

 

 


Kristmundur Bjarnason, fræðimaður á Sjávarborg

(á mynd ásamt Ástu Pálmadóttur sveitarstjóra)

Kristmundur er  landskunnur fyrir fræðastörf sín. Eftir hann liggur fjöldi verka um söguleg efni. Má þar nefna Sögu Sauðárkróks, Sýslunefndarsögu Skagfirðinga, Skagfirskan annál, Jón Ósmann ferjumann og nú síðast ævisögu Gríms Jónssonar; Amtmanninn á einbúasetrinu, sem kom út árið 2008. Kristmundur er einn af stofnendum Skagfirðingabókar, ásamt Hannesi Péturssyni skáldi og Sigurjóni Björnssyni prófessor. Í þeim bókum hefur birst gríðarmikið efni um skagfirska sögu. Kristmundur var afkastamikill þýðandi um áratuga skeið. Skagfirðingar eiga Kristmundi því margt að þakka og má þar enn nefna að í gegnum tíðina hefur hann afhent Héraðsskjalasafni Skagfirðinga gögn úr einkaskjalasafni sínu til varðveislu. Sveitarfélagið Skagafjörður þakkar Kristmundi fyrir allt hans góða og óeigingjarna starf í þágu samfélagsins.

 

2016


Stefán Pedersen (á mynd ásamt Ástu Pálmadóttur sveitarstjóra)

Stefán Pedersen hlýtur samfélagsverðlaun Skagafjarðar fyrstur manna fyrir afar góð störf í þágu samfélagsins til áratuga.