Fara í efni

Félagslegt úrræði og ráðgjöf

 Allir íbúar Skagafjarðar eiga að geta búið við fjárhagslegt og félagslegt öryggi.

 

Ýmsir erfiðleikar, bæði af félagslegum eða persónulegum toga, geta steðjað að á lífsleiðinni. Fjölskylduþjónusta Skagafjarðar býður upp á félagslega ráðgjöf með það að markmiði að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar. Tilgangurinn er alltaf að hjálpa fólki til sjálfshjálpar þannig að sérhver einstaklingur geti sem best notið sín í samfélaginu.

Fjárhagsaðstoð

Fjárhagsaðstoð er veitt vegna framfærslu einstaklinga og fjölskyldna. Rétt á fjárhagsaðstoð eiga þeir sem eiga lögheimili í Skagafirði, hafa tekjur undir ákveðnum viðmiðunarmörkum og geta ekki séð sér og sínum farborða með öðrum hætti.

Markmiðið er að hjálpa einstaklingum og fjölskyldum til sjálfshjálpar. Þess vegna er fjárhagsaðstoð einungis veitt í tengslum við félagslega ráðgjöf og önnur úrræði eftir því sem við á hverju sinni, t.d. virka atvinnuleit, endurhæfingu eða meðferð. Stundum er samstarf við Umboðsmann skuldara og eða við þjónustufulltrúa bankanna varðandi ráðgjöf og stuðning.

Fjárhagsaðstoð til einstaklings 18 ára og eldri getur numið allt að 281.280 kr á mánuði (miðað við 1. janúar 2024) og er upphæðin miðuð við tiltekið hlutfall atvinnuleysisbóta. Fjárhagsaðstoð til hjóna og fólks í skráðri sambúð getur numið allt að 450.048 kr. á mánuði. Aðstoðin er óháð barnafjölda, þar sem reiknað er með að barnabætur, meðlög og barnalífeyrir mæti kostnaði vegna barna.

Heimilt er að veita fjárhagsaðstoð við sérstakar aðstæður og er þá þörf metin sérstaklega. Einkum er þá hugað að fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum barnafjölskyldna, t.d. er unnt að meta sérstaklega þarfir barna vegna þátttöku þeirra í þroskavænlegu félagsstarfi.

Fjárhagsaðstoð er skattskyld og meginreglan er sú að staðgreiðsla skatts er dregin frá útborgaðri aðstoð. Þess vegna þurfa upplýsingar um persónuafslátt að liggja fyrir við útborgun. Á árinu 2016 var útgáfu skattkorta hætt en í staðinn er notaður rafrænn persónuafsláttur. Hver umsækjandi þarf því að fylgjast með notkun síns persónuafsláttar.

Til að hægt sé að afgreiða umsóknir þarf að skila inn þeim fylgigögnum sem tiltekin eru á umsóknareyðublaðinu og öðrum þeim gögnum sem starfsmenn óska eftir til að geta lagt mat á aðstæður.

Fjárhagsaðstoð sem veitt er á grundvelli ófullnægjandi, rangra eða villandi upplýsinga er alltaf endurkræf. Sá sem nýtur fjárhagsaðstoðar skal tilkynna ef breytingar verða á tekjum og fjölskylduaðstæðum.

Heimaþjónusta

Heimaþjónusta er ætluð þeim sem ekki geta einir og óstuddir séð um heimilishald vegna skertrar getu vegna veikinda, álags, öldrunar eða fötlunar. Markmið hennar er að efla fólk til sjálfsbjargar og gera því kleift að búa sem lengst í heimahúsi við sem eðlilegastar aðstæður.

Til heimaþjónustu telst heimilishjálp og heimsending matar.

Heimilishjálp er aðstoð við heimilishald svo sem nánar er greint frá í reglum um heimaþjónustu, aðstoð við persónulega umhirðu sem ekki er í verkahring heimahjúkrunar, félagslegan stuðning, t.d. með innliti og stuttri viðveru og aðstoð við umönnun barna og unglinga með hliðsjón af aðstæðum þegar um erfiðar fjölskylduaðstæður er að ræða, t.d. veikinda, fötlunar eða félagslegra erfiðleika.

Heimsending matar er fyrir þá sem geta ekki annast matseld sjálfir. Maturinn er greiddur af þeim sem hans njóta en sveitarfélagið sér um dreifingu þeim að kostnaðarlausu. Heimsending matar er skipulögð á Sauðárkróki. Í öðrum tilvikum er reynt að finna einstaklingsbundnar lausnir.

Húsnæðismál

Öruggt húsnæði er mikilvæg forsenda fyrir velferð hverrar fjölskyldu. Sveitarfélagið Skagafjörður leitast við að hafa tiltæka ráðgjöf og önnur viðeigandi úrræði til að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar og nægilegt framboð af félagslegu leiguhúsnæði fyrir þær fjölskyldur og einstaklinga sem af félagslegum ástæðum eru þess ekki megnug að sjá sér fyrir húsnæði á almennum markaði.

Félagslegt leiguhúsnæði er einkum ætlað fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem af félagslegum ástæðum eru þess ekki megnugar að sjá sér fyrir húsnæði á almennum markaði. Forgangsröðun og úthlutun íbúða fer fram á grundvelli sérstakrar stigagjafar og á umsækjandi rétt á að kynna sér stigafjölda sinn.

Til að vera metinn í þörf fyrir félagslega leigu þarf að liggja fyrir mat á því að umsækjandi hafi ekki getu til að kaupa eða leigja á almennum markaði. Hann þarf að vera orðinn 20 ára að aldri, eiga við félagslega erfiðleika að stríða t.d. vegna skertrar vinnugetu, heilsubrests, atvinnumissis, fjölskylduaðstæðna, barnafjölda eða annarra sérstakra aðstæðna, uppfylla skilyrði um tekju- og eignamörk skv. gildandi matsblaði/stigagjöf.

Félagsráðgjafi tekur á móti umsóknum um félagslegt leiguhúsnæði og heldur utan um biðlista. Umsóknir eru flokkaðar eftir aldri, fjölskyldustærð, húsnæðisaðstæðum og félagslegum aðstæðum. Til þess að viðhalda gildi umsóknar þarf umsækjandi að endurnýja umsóknina á sex mánaða fresti. Endurnýjun skal berast félagsráðgjafa og getur hvort heldur verið skrifleg eða munnleg. Þá skal umsækjandi gera grein fyrir hugsanlegum breytingum á aðstæðum sínum og þeim þáttum er kunna að hafa áhrif á fyrirliggjandi mat á umsókn.

Félagsmála- og tómstundanefnd Skagafjarðar fer með stjórn og samræmingu húsnæðismála á vegum sveitarfélagsins og fylgist með þörf á húsnæði í sveitarfélaginu.

Eignasjóður Skagafjarðar sér um rekstur og viðhald íbúða í eigum sveitarfélagsins og gerir leigusamninga, sér um samskipti við leigjendur varðandi viðhald íbúða, umgengni og annað sem snertir leigusamninga. 

Vakin er athygli á því að dýrahald er bannað í leiguhúsnæði í eigu sveitarfélagsins.

Húsnæðisbætur

Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur ætlaðar til þess að aðstoða fólk sem leigir íbúðarhúsnæði. Húsnæðið getur verið á almennum leigumarkaði, félagslegt leiguhúsnæði, á námsgörðum eða áfangaheimili. Húsnæðisbætur tóku við af eldra bótakerfi sem var kallað húsaleigubætur. Upphæð húsnæðisbóta fer eftir fjölda fólks á heimilinu, tekjum þess og eignum og leiguverði.

Sótt er um húsnæðisbætur á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Samkvæmt lögum um húsnæðisbætur sem tóku gildi 1. janúar 2017 fer Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með almennan stuðning við leigjendur.

Jafnframt var gerð breyting á 45. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga sem kveða á um skyldu sveitarfélaga til að veita sérstakan húsnæðisstuðning sem er ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt fær um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, lítilla eigna, þungrar framfærslubyrðar og félagslegra aðstæðna.

Ekki þarf að sækja sérstaklega um sérstakan húsnæðisstuðning heldur munu þeir leigjendur sem eru með almennar húsnæðisbætur fara sjálfkrafa í útreikning á sérstökum húsnæðisstuðningi. Skilyrði er þó að umsækjendur og heimilismenn eldri en 18 ára samþykki upplýsingagjöf til sveitarfélagsins með þar til gerðu haki í umsókn sinni hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Því eru þeir leigjendur sem eru nú þegar að fá almennar húsnæðisbætur frá HMS hvattir til að kanna hvort umrætt samþykki liggi fyrir. Einnig geta leigjendur sveitarfélagsins látið almennar húsnæðisbætur og sérstakan húsnæðisstuðning ganga til sveitarfélagsins til lækkunar á leigureikningi með því að merkja í viðeigandi reit í umsókn sinni. Sveitarfélagið mælist til að að það verði gert.

Jafnframt skulu sveitarfélög veita sérstakan húsnæðisstuðning til foreldra eða forsjáraðila 15–17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum hér á landi vegna náms fjarri lögheimili. Sótt er um sérstakan húsnæðisstuðning vegna 15-17 ára á Mínum síðum.

Nánari upplýsingar um húsnæðisbætur eru á heimasíðu HMS