Fara í efni

Fyrirspurn vegna kostnaðar við Byggðasafnið

Málsnúmer 1910042

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 883. fundur - 09.10.2019

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 27. september 2019 frá Álfhildi Leifsdóttur þar sem hún innir eftir upplýsingum varðandi málefni Byggðasafns Skagfirðinga og óskar eftir að svör við spurningum hennar verði gerð opinber. Sveitarstjóri lagði fram skrifleg svör við fyrirspurnum Álfhildar sem birt verða á heimasíðu sveitarfélagsins.

Bjarni Jónsson, VG og óháðum óskar bókað:
"Sú biðstaða og óvissa sem ríkir um það fjölbreytta starf sem Byggðasafnið hefur staðið fyrir er áhyggjuefni og óviðunandi. Fornleifadeildin er á krossgötum og hluti safnins komið í ótímabundna geymslu, svo fátt eitt sé nefnt. Mikilvægt er að sveitarfélagið hlúi sem best að starfsfólki Byggðasafnsins og búi því hvetjandi starfsumhverfi.
Af svörum við fyrirspurn um stöðu Byggðasafnsins að dæma ríkir enn mikil óvissa um hvenær og hvernig bætt verður úr aðstöðu Byggðasafnsins fyrir starfsemi og sýningarhald og ljóst að núverandi staða er sveitarfélaginu og safninu kostnaðarsöm, svo sem vegna geymslurýmis, varðveisluvinnu og húsaleigu í gamla Minjahúsinu sem komið er úr eigu sveitarfélagsins."

Ólafur Bjarni Haraldsson, ByggðaLista óskar bókað:
"Það að fasteigninni að Aðalgötu 16b (Minjahús) var ráðstafað, áður en safninu var fundin varanlegur staður er orðið mjög kostnaðarsamt fyrir sveitarfélagið og má þar nefna yfir 10 milljón króna leigugreiðslur af eigninni. Þrátt fyrir að aðstaðan fyrir varðveislu muna í Minjahúsinu á Sauðárkróki hafi ekki þótt boðleg til langframa, þá hefði verið mun farsælla að finna safninu varanlegan stað áður en eigninni var ráðstafað. Einnig má ætla að núverandi ástand hamli mjög starfsemi Byggðasafnsins og er það miður."

Fulltrúar meirihluta byggðarráðs, Stefán Vagn Stefánsson, Framsóknarflokki og Gísli Sigurðsson, Sjálfstæðisflokki, óskað bókað:
"Nú er verið að leggja loka hönd á tímabundið geymsluhúsnæði fyrir byggðasafnið sem mun leysa núverandi húsnæði af hólmi sem uppfyllti ekki kröfur safnsins. Framtíðarsýn varðandi varðveislurými byggðasafnsins er skýr, en gert er ráð fyrir fullkomnu varðveislurýmis í nýju menningarhúsi og fyrir fundinum liggja drög af samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið um byggingu menningarhúss á Sauðárkróki. Fulltrúar meirihluta eru ósammála því að óvissa ríki um starfssemi byggðasafnsins og vonast til að flutningur í nýtt húsnæði dragist ekki frekar en orðið er."