Fara í efni

Samningar við bændur vegna riðuniðurskurðar

Málsnúmer 2103230

Vakta málsnúmer

Landbúnaðarnefnd Svf. Skagafjarðar - 217. fundur - 31.03.2021

Landbúnaðarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir yfir vonbrigðum sínum hve langan tíma það hefur tekið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að ljúka samningagerð við bændur, sem þurftu að skera niður sitt fé vegna riðusmits. Þann 3. nóvember 2020 fyrirskipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrsta niðurskurð og nú um fjórum og hálfum mánuði seinna er fyrst verið að ganga frá samningum við bændur. Landbúnaðarnefnd leggur áherslu á að verkferlar við samningagerð þurfi að vera skýrir og eðlilegast að samningar liggi fyrir áður en niðurskurður fer fram. Jafnframt er mikilvægt að núverandi reglugerð um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar verði endurskoðuð í heild sinni sem fyrst. Við þá endurskoðun er mikilvægt að bótagreiðslur taki á þeirri tekjuskerðingu sem bændur verða fyrir, kostnaði þeirra við hreinsun og vegna kaupa á nýjum fjárstofni. Einnig verði bætur greiddar vegna gripa sem felldir eru vegna sýnatöku á öðrum búum.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 981. fundur - 15.09.2021

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að tryggja að endurskoðun á reglum og stjórnsýslu hvað varðar málefni riðu, varnarlínu búfjár, bótafyrirkomulag vegna búfjársjúkdóma og niðurskurðar og regluverk dýraheilbrigðis, verði lokið hið allra fyrsta. Tilkynnt var að þessi vinna væri hafin 11. nóvember á síðasta ári og var henni ætlað að vera lokið um mitt ár 2021. Byggðarráð kallar eftir því að í nýjum reglum verði haft til hliðsjónar að tryggja þurfi bætur fyrir alla þætti sem leiða af niðurskurði vegna riðuveiki og hreinsun, m.a. efniskostnað, vinnuliði og raunverulegan kostnað við kaup á nýjum bústofni, auk tekjuskerðingar sem fylgir í kjölfar niðurskurðar.
Byggðarráð leggur enn fremur áherslu á að verkferlar við samningagerð þurfi að vera skýrir og eðlilegast að samningar liggi fyrir áður en niðurskurður fer fram.
Þá kallar byggðarráð eftir því að aukinn kraftur verði settur í rannsóknir og leit að verndandi arfgerð gegn riðu í íslenska sauðfjárstofninum og stuðningur við DNA-greiningar efldur með það að markmiði að auka tíðni lítið næmrar arfgerðar.