Fara í efni

Samráð; Drög að frumvarpi til laga um sýslumann

Málsnúmer 2207098

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 7. fundur - 20.07.2022

Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 122/2022, „Drög að frumvarpi til laga um sýslumann“. Umsagnarfrestur er til og með 31.07. 2022.
Byggðarráð Skagafjarðar gerir athugasemdir við tímasetningu birtingar á drögum að nýjum lögum um sýslumann sem ætlað er að leysa af hólmi lög um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Drögin eru birt á þeim tíma þegar flestir eru í sumarleyfum og umsagnarfrestur er gefinn í rúmar 2 vikur.
Byggðarráð Skagafjarðar er sammála þeim meginmarkmiðum sem er að finna í drögunum um að byggðar verði upp öflugar og nútímalegar þjónustueiningar um land allt, þar sem sinnt verður bæði miðlægum og sérhæfðum verkefnum á landsvísu ásamt þjónustu í heimabyggð, eins nálægt fólki og kostur er. Jafnframt að þjónusta sýslumanns verði aðgengileg að mestu leyti með óbreyttu sniði, þ.e. hjá þeim sveitarfélögum sem sinna þjónustu embættanna í dag, en að unnið verði að því að nýta húsnæðiskosti embættanna betur ásamt því að stuðla að auknu samstarfi við aðrar ríkisstofnanir og sveitarfélög.
Byggðarráð geldur hins vegar varhug við að embættum sýslumanna verði fækkað en sporin hræða í þeim efnum að þegar stjórnsýslueiningar missa ákveðið sjálfstæði hefur slíkt oftar en ekki leitt til þess að umfang starfsstöðva þeirra hefur minnkað í kjölfarið eða þeim verið lokað með tilheyrandi skerðingu á nærþjónustu. Nægir þar að nefna starfsemi svæðisstöðva Ríkisútvarpsins á landsbyggðinni, starfsemi Vegagerðarinnar, Rarik o.fl. Byggðarráð leggur því áherslu á að frumvarp þetta verði ekki lögfest án þess að samhliða verði fest í lög þau verkefni og umsvif sem starfsstöðvum sýslumanns er ætlað að sinna.