Fara í efni

Umsagnarbeiðni; Þingsályktunartillaga um landbúnaðarstefnu til ársins 2040

Málsnúmer 2304009

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 42. fundur - 05.04.2023

Lagður fram tölvupóstur frá Atvinnuveganefnd Alþingis, dags. 31. mars 2023, þar sem send er til umsagnar tillaga til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu til ársins 2040, 914. mál. Óskað er eftir að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 17. apríl.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar að unnin hafi verið þingályktunartillaga um landbúnaðarstefnu til ársins 2040. Í framkominni tillögu eru lögð fram 10 megin viðfangsefni sem öll eru mikilvæg. Byggðarráð saknar þess þó að sjá ekki skýrari markmið og harðari kröfur til sem minnstrar lyfjanotkunar í matvælaframleiðslu en lyfjanotkun á Íslandi er ein sú minnsta í landbúnaði í allri Evrópu. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að svo verði áfram og því þarf að vernda núverandi stöðu íslenskrar framleiðslu. Framleiðsla matvæla án lyfja er stór partur af fæðuöryggi þjóðarinnar. Jafnframt þarf að vera tryggt að annað fóður sem nýtt er til framleiðslunnar, hvort sem það er innflutt eða framleitt hér á landi, sé ekki hættulegt neytendum sem borða afurðirnar. Í lið nr. 6 er fjallað um alþjóðleg markaðsmál en þar ætti að kveða sterkara að orði um að öll innflutt matvæli eigi að lúta sömu uppruna- og aðbúnaðarkröfum og gerðar eru til innlendrar framleiðslu. Annað er ósanngjarnt gagnvart bæði innlendum framleiðendum og neytendum.
Í liðnum „Stefnan í framkvæmd“, þarf að liggja fyrir með skýrari hætti hver eigi að ábyrgð á að henni sé framfylgt, ásamt því að hver sé ábyrgðaraðili hvers markmiðs fyrir sig og hver kosti þá vinnu og framkvæmd sem fara þarf í svo markmiðin náist.