Fara í efni

Samráð; Frumvörp til laga um Loftslagsstofnun og Náttúruverndar- og minjastofnun

Málsnúmer 2309205

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 63. fundur - 26.09.2023

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 20. september 2023 frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, þar sem kynnt er til samráðs mál nr. 168/2023, "Frumvörp til laga um Loftslagsstofnun og Náttúruverndar- og minjastofnun". Umsagnarfrestur er til og með 04.10.2023.
Byggðarráð Skagafjarðar er fylgjandi sameiningum stofnana ef þær leiða til styrkingar starfsemi og stjórnsýslu þeirra, sé sameiningin gerð í sátt við starfsfólk viðkomandi stofnana. Mikill ávinningur er ef sameiningunni fylgir efling starfsemi þeirra á landsbyggðinni, svo sem lagt er upp með í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Íslands, til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu og markmið um hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni.
Komi til sameiningar Orkustofnunar og þess hluta starfsemi Umhverfisstofnunar er lýtur að umhverfis- og loftslagsmálum annars vegar og samruna náttúruverndarhluta Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum hins vegar, áréttar byggðarráð Skagafjarðar framangreind stefnumið ríkisstjórnar Íslands og minnir um leið á góð húsakynni Minjastofnunar á Sauðárkróki þar sem hægðarleikur er að fjölga starfsfólki og efla starfsemina enn frekar.