Eldislaxar í skagfirskum ám
Málsnúmer 2309207
Vakta málsnúmerByggðarráð Skagafjarðar - 63. fundur - 26.09.2023
Sjókvíaeldi hefur vaxið með miklum hraða síðustu ár sem er jákvætt hvað varðar þjóðarframleiðslu og þá atvinnu sem framleiðslan skapar. En því miður virðist hvorki eftirlit eða umgjörð greinarinnar hafa náð að fylgja þessum vexti eftir samkvæmt stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar. Niðurstaðan er í raun sú að eftirlitið er veikburða og regluverkið ófullnægjandi. Tryggja verður betra regluverk og sterkara eftirlit með sjókvíaeldi þannig að slys eins og það sem nú hefur gerst á Patreksfirði endurtaki sig ekki. Áhættan af mögulegri erfðablöndun er ekki óumdeild og hugsanlega er hún minni en sumir halda. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að eldisfiskar eru ekki sú fisktegund sem veiðimenn eða aðrir landsmenn vilja hafa í íslenskum ám. Það er í öllum tilfellum slæmt þegar dýr í eldi, í þessu tilfelli fiskar, sleppa út í náttúruna og valda þar usla og hugsanlegum skaða á lífríkinu. Margir bændur, landeigendur og ferðaþjónustuaðilar hafa í dag miklar tekjur af laxveiðiám og þeirri hreinu ímynd sem þær hafa. Það að skemma þá ímynd er grafalvarlegt mál og getur þýtt mikið tekjutap fyrir landeigendur. Byggðarráð Skagafjarðar skorar því á matvælaráðherra að sjá til þess að þeir sem hafa til þess leyfi að stunda sjókvíaeldi fari eftir þeim reglum sem í gildi eru, ásamt því að allar hugsanlegar öryggisráðstafanir séu gerðar til að koma í veg fyrir að slys sem þessi endurtaki sig.