Fara í efni

Staða á heitu vatni í Skagafirði

Málsnúmer 2402098

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 84. fundur - 14.02.2024

Tekin fyrir fyrirspurn frá sveitarstjórnarfulltrúa VG og óháðra, Álfhildi Leifsdóttur, og veitt svör við henni:
1. Hvar er mesta heitavatnsnotkunin á Sauðárkróki? Vinsamlega leggið fram upplýsingar stærstu notendur og notkun þeirra. Á ég þá við einstaka fyrirtæki, sundlaug, íþróttasvæði (gervigrasvöll, hlaupabraut), aðrar snjóbræðslur og fleira sem tekur mikla notkun.
Svar: Lagt fram yfirlit yfir stærstu notendur og notkun þeirra. Stærstu notendur stofnana sveitarfélagsins eru Sundlaug Sauðárkróks þar sem notkunin var um 105 þúsund rúmmetrar á árinu 2023. Aðrir stórir notendur eru gervigrasvöllur á Sauðárkróki, íþróttavöllurinn, Árskóli, og Faxatorg 1. Mikil notkun er jafnframt hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra sé litið til stofnana ríkisins. Ekki er unnt að upplýsa um stærstu kaupendur á heitu vatni af hálfu fyrirtækja þar sem ekki hefur gefist ráðrúm til að bera opinbera birtingu undir viðkomandi.
2. Hvaða fyrirtæki eru að njóta 70% afsláttar á heitu vatni á liðnu ári og yfirstandandi ári?
Svar: Sundlaugar Skagafjarðar njóta afsláttar sem er 90% og önnur íþróttamannvirki 50%. Að svo stöddu þykir ekki rétt að upplýsa í bókun um fyrirtæki sem njóta 70% afsláttar af heitu vatni á liðnu ári og yfirstandandi ári, þar sem ekki hefur gefist ráðrúm til að bera opinbera birtingu undir viðkomandi.
3. Hafa þau afsláttarkjör fallið niður nú í vatnsskorti samanber 8. gr. í gjaldskrá Skagafjarðarveitna?
Svar: Í 8. grein gildandi gjaldskrár fyrir hitaveitu í Skagafirði er miðað við að stærri notendur, þar sem notkun er að lágmarki 100 þúsund rúmmetrar á ári og þar sem heitt vatn er notað sem beinn framleiðsluþáttur geti sótt um að kaupa vatn með 70% afslætti. Afsláttarkjörin eiga við þar sem nægilegt vatn er til staðar og fullnægjandi flutningsgeta í veitukerfinu að mati Skagafjarðarveitna. Sprotafyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki sem vilja nýta heita vatnið sem beinan framleiðsluþátt geta einnig sótt um tímabundinn 70% afslátt af verði á heitu vatni.
Skerðingar á heitu vatni hafa verið tímabundnar og ekki leitt til þess að ársnotkun stærsta notanda hafi farið undir 100 þúsund rúmmetra á ári. Afsláttarkjörin eru því í gildi á meðan ársnotkunin er svona mikil og á meðan ekki eru gerðar breytingar á gjaldskrá Skagafjarðarveitna.
Í fjárhagsáætlun ársins 2024 er gert ráð fyrir framkvæmdum við nýja borholu á Borgarmýrum við Sauðárkrók.