Fara í efni

Stuðningur vegna kjarasamninga

Málsnúmer 2403094

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 88. fundur - 13.03.2024

Lögð fram áskorun, dags. 8. mars 2024, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem send var á allar sveitarstjórnir landsins. Í henni kemur fram að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi skrifað undir yfirlýsingu um stuðning ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga. Yfirlýsingin var gerð til að greiða fyrir gerð langtímakjarasamninga á vinnumarkaði með það að markmiði að ná niður vöxtum og verðbólgu.
Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram að sveitarfélögin komi að því á samningstímanum, ásamt ríkinu, að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og að útfærð verði leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024 til loka samningstímans. Komi til þess mun ríkið greiða kostnaðarþátttöku sem gæti á landsvísu numið 4,0 milljörðum. Fram kemur að ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga muni útfæra þetta og mun vinna við það fara af stað á næstu dögum og verða nánari upplýsingar veittar þegar nær dregur. Þá er því beint til sveitarstjórna að endurskoða gjaldskrárhækkanir sem tóku gildi um síðustu áramót er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Miða skuli við að hækkun þessa árs verði ekki umfram 3,5%. Þá verði gjaldskrárhækkunum stillt í hóf eins og nokkur kostur er á samningstímanum.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar því að aðilar á vinnumarkaði hafi sameinist um skynsamlega langtíma kjarasamninga með áherslu á minni verðbólgu, lægri vexti, aukinn fyrirsjáanleika og þar með að skapa skilyrði fyrir stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Byggðarráð minnir á að Skagafjörður tók þegar í fjárhagsáætlun ársins 2024 ákvörðun um að gjaldskrár myndu hækka minna en spár um þróun verðlags gerðu ráð fyrir. Mikilvægt er að atvinnurekendur, þ.m.t. sveitarfélögin, og öll stéttarfélög á almennum og opinberum markaði, lýsi yfir stuðningi við það fordæmi sem skapast hefur. Byggðarráð lýsir yfir vilja til að taka þátt í þessari skynsamlegu vegferð með því m.a. að hrinda í framkvæmd lækkun almennra gjaldskráa ársins 2024, bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum Skagafjarðar frá haustinu 2024 og vinna að öðrum þáttum samninganna sem snúa að sveitarfélögunum. Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að vinna að undirbúningi þessara verkefna í samræmi við væntanlegar leiðbeiningar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem verða í kjölfarið tekin til afgreiðslu í stjórnkerfi sveitarfélagsins.