Fara í efni

Móttökustöð fyrir dýrahræ á Dysnesi

Málsnúmer 2503072

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 137. fundur - 12.03.2025

Lagt fram erindi frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra vegna áforma um uppbyggingu á Líforkuveri sem ætlað er að framleiða orkugjafa og áburðarefni sem unnin eru úr lífmassa. Líforkuverinu er einnig ætlað að leysa úr ófullnægjandi innviðum til förgunar á aukaafurðum dýra í efsta áhættuflokki (CAT1), en sakir heilsu manna, dýra og umhverfis er mikilvægt að dýraleifar séu meðhöndlaðar á ábyrgan og viðurkenndan hátt. Ísland var dæmt brotlegt með dómi EFTA dómstólsins í máli E-3/22 sem kveðinn var upp hinn 29. júlí 2022 og ESA hefur upplýst um að stofnunin muni gefa út tilkynningu þess efnis að matvælaöryggi á Íslandi sé ekki tryggt, finnist ekki viðunandi lausn.

Á síðasta ári gerðist mikið í málefnum Líforkuvers, en um það var stofnað sérstakt félag í eigu SSNE. Ríkið kom að því félagi gegnum umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytið. Á árinu skapaðist mikil samstaða á Norðurlandi eystra um mikilvægi verkefnisins, sem byggði á þeim grunni sem hafði verið lagður árin á undan. Þá vann félagið tillögu að samræmdu söfnunarkerfi fyrir dýraleifar á landsvísu.

Nú halda nýir ráðherrar um málaflokkana, en bæði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og atvinnuvegaráðuneytið (áður matvælaráðuneytið), koma að málum. Það er óljóst hvar málin eru stödd innan stjórnkerfisins og erfiðlega hefur gengið að fá svör.

Fyrir liggur beiðni frá SSNE um þátttöku hagsmunaaðila í áskorun á stjórnvöld um uppbyggingu móttökustöðvar fyrir dýrahræ og úrgang dýraafurða á Norðurlandi.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að taka þátt í umræddri áskorun á stjórnvöld.