Fara í efni

Umsögn um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, 827. mál.

Málsnúmer 1106140

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 562. fundur - 11.08.2011

Lagður fram tölvupóstur frá nefndasviði Alþingis, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (heildarlög), 827. mál, sem er til umræðu í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis. Óskað er að umsögnin berist fyrir 20. ágúst 2011.

Sigurjón Þórðarson óskar bókað: "Mikilvægt er að sveitarfélagið sendi inn vandaða umsögn frumvarpið þar sem varað er við að festa kvótakerfið í sessi eins og boðað er í frumvarpinu til næstu 23 ára.

Árangur núverandi aflamarkskerfis við að byggja upp botnfiskstofna er einfaldlega hræðilegur. Áætlaður botnfiskafli á næsta fiskveiðiári í þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa, djúpkarfa, grálúðu, skarkola og steinbít er í öllum tegundum minni en það sem veiddist á árinu 1983 áður en kvótakerfið en aflamarkskerfið var tekið upp. Kerfið hefur greinilega ekki skilað meiri afla á land eins og upphafleg fyrirheit báru með sér en þau voru að kerfið myndi skila innan fárra ára liðlega 500 þúsund tonna jafnstöðuafla. Á næsta fiskveiðiári er fyrirhugað að veiða einungis um 177 tonn af þorski."

Afgreiðslu frestað til næsta fundar.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 563. fundur - 18.08.2011

Lagður fram tölvupóstur frá nefndasviði Alþingis, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (heildarlög), 827. mál, sem er til umræðu í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis. Óskað er að umsögnin berist fyrir 20. ágúst 2011. Frestað erindi frá 562. fundi byggðarráðs.

Jón E. Friðriksson framkvæmdastjóri FISK-Seafood hf. kom til viðræðu undir þessum dagskrárlið og vék síðan af fundi.

Byggðarráð samþykkir svohljóðandi bókun:

"Mikilvægt er að kveðið sé á um það í lögum að nytjastofnar við Ísland séu í óskoraðri þjóðareign og að réttur sjávarbyggða og íbúa þeirra verði tryggður gagnvart nýtingu auðlindarinnar. Þá þarf að vera tryggt að atvinnugreininni sé búið nauðsynlegt rekstraröryggi ásamt því að gætt sé að hagkvæmnissjónarmiðum í þeirri umgjörð sem sjávarútvegi er búin af hálfu stjórnvalda.

Byggðaráð Skagafjarðar leggur áherslu á að ekki verði gerðar neinar þær breytingar á lögum er varða sjávarútveg, sem er ein mikilvægasta atvinnugrein héraðsins, er orðið geti til að veikja stöðu byggðalagsins. Grundvallar markmið lagabreytinga þarf að vera að styrkja veiðar og vinnslu í sjávarbyggðum og auka búsetuöryggi á svæðum sem byggja afkomu sína að stóru leiti á sjávarútvegi."

Sigurjón Þórðarson óskar bókað: "Fulltrúi Frjálslynda flokksins átelur stjórnvöld fyrir hversu óvandaður undirbúningur frumvarpsins er sem snýr að löggjöf og kerfi sem hefur fengið falleinkunn hjá Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna, þar sem kvótakerfið brýtur í bága við jafnræði borgaranna. Undirbúningur ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna fólst annars vegar í því að setja á fót svokallað sáttanefnd um sjávarútvegsmál sem í sátu að stærstum hluta fulltrúar hagsmunasamtaka sem hafa eða telja sig hafa hag að óbreyttu kvótakerfi og hins vegar var sett á fót nefnd sérfræðinga sem hafði það hlutverk að endurskoðaða líffræðilegar forsendur aflaráðgjafarinnar en í þeirri nefnd sátu að stærstum hluta fulltrúar hagsmunaaðila auk þeirra sérfræðinga sem bera ábyrð á og stýra þeirri nýtingarstefnu sem nefndin átti að endurskoða! Í stuttu máli þá ber frumvarpið með sér að framangreindur undirbúningur var ekki upp á marga fiska."

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 281. fundur - 23.08.2011

Sigurjón Þórðarson kvaddi sér hlóðs og lagði fram eftirfarandi bókun:

"Frumvarpinu ber að hafna en með því er verið að festa aflamarkskerfið í sessi til næstu 23 ára og ekki að taka á óréttlæti kerfisins.

Árangur núverandi aflamarkskerfis við að byggja upp botnfiskstofna er einfaldlega hræðilegur. Áætlaður botnfiskafli á næsta fiskveiðiári í þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa, djúpkarfa, grálúðu, skarkola og steinbít er í öllum tegundum minni en það sem veiddist á árinu 1983, ári áður en kvótakerfið var tekið upp. Kerfið hefur greinilega ekki skilað meiri afla á land eins og upphafleg fyrirheit báru með sér en þau voru að kerfið myndi skila innan fárra ára liðlega 500 þúsund tonn jafnstöðuafla. Á næsta fiskveiðiári er fyrirhugað að veiða einungis um 177 þúsund tonn af þorski."

Afgreiðsla 563. fundar byggðaráðs staðfest á 281. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.