Fara í efni

Ályktun er varðar virkjanamál

Málsnúmer 1211132

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 295. fundur - 21.11.2012

Jón Magnússon tók til máls og lagði fram eftirfarandi ályktun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks.

Ályktun:
Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar leggur á það ríka áherslu, að Skatastaðavirkjun C verði sem fyrst færð úr biðflokki í nýtingarflokk í þeirri flokkun virkjunarkosta sem er að finna í þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Virkjun og nýting fallvatna Skagafjarðar er einn af lykilþáttum í atvinnuuppbyggingu í heimahéraði ef horft er til framtíðar. Nauðsynlegt er að Skagfirðingar fái að sitja við sama borð og aðrir er kemur að uppbyggingu atvinnukosta í héraði og hafi um það að segja hvernig orkan er nýtt.

Greinargerð:
Virkjun jökulsánna í Skagafirði hefur verið til athugunar síðan á 8. áratug síðustu aldar og er mikið til af rannsóknargögnum um fyrirhugaða orkukosti. Í athugasemdum Landsvirkjunar við niðurstöður faghópa 2. áfanga rammaáætlunar kemur fram að fjölmörg atriði sem fyrirhugaðar virkjanir kunna að hafa áhrif á séu stórlega ofmetin.

Virkjun fallvatna í Skagafirði er undirstaða kærkominnar iðnaðaruppbyggingar á atvinnusvæði sem hefur átt í vök að verjast á undanförnum árum. Eru fyrir því ýmsar ástæður en Skagafjörður hefur ekki farið varhluta af niðurskurði ríkisins sem hefur valdið hlutfallslega meiri fækkun opinberra starfa en í nokkru öðru héraði hér á landi.

Það er því brýn þörf á uppbyggingu fjölbreytts iðnaðar í Skagafirði. Iðnaðar sem krefst menntaðs vinnuafls og greiðir góð laun. Þessi iðnaður þarf á orku að halda og er algjörlega óviðunandi ef stjórnvöld hyggjast veita íbúum Skagafjarðar enn eitt höggið með því að útiloka á næstu árum hagnýtingu umhverfisvænnar orku sem hægt er að framleiða í héraðinu með virkjun jökulánna til uppbyggingar atvinnulífs.

Þess má geta að í Skagafirði hefur um nokkurra ára skeið verið unnið að því að laða að fjárfestingu á sviði koltrefja- og basalttrefjaframleiðslu og í því skyni verið unnið að margvíslegum undirbúningi, rannsóknum á iðnaðiðnum og byggingu tengslanets í greininni. Umtalsverðum fjármunum hefur verið varið til verksins.

Nýjasti þátturinn í þessu ferli er nám í plast- og trefjaiðnum við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki en það er unnið í samvinnu við finnska og danska skóla, sem og fyrirtækja hér á landi. Í þeim hópi er m.a. að finna alþjóðlega stoðtækjaframleiðandann Össur sem framleiðir talsvert af sínum vörum úr koltrefjum. Jafnframt hefur verið unnið að þróun umhverfisvænna lausna við framleiðsluferlið, m.a. með notkun rafmagns við eyðingu skaðlegra efna sem verða til við framleiðslu koltrefja í stað þess að eyða þeim með bruna af völdum náttúrugass eða olíu.

Framleiðsla á koltrefjum og basalttrefjum er hátækniiðnaður sem krefst aðgengis að menntuðu starfsfólki og orku. Orkunotkunin er þó lítil í samanburði við margan annan orkufrekan iðnað, auk þess sem umhverfisáhrif eru takmörkuð. Þá yrði starfsmannafjöldi slíkrar framleiðslu bundinn við tugi starfa en ekki hundruð, sem hentar samfélagsgerðinni í Skagafirði vel.

Mikilvægt er að leggja áherslu á að rannsóknum á virkjanakostum verði hraðað þannig að unnt verði að úrskurða sem fyrst um tilfærslu Skatastaðavirkjunar C úr biðflokki í nýtingarflokk. Jafnframt eru átalin þau vinnubrögð sem umhverfis- og iðnaðarráðherrar hafa haft með pólitískri aðför að faglegu ferli við gerð rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði."

Sigurjón Þórðarson kvaddi sér hljóðs, þá Sigríður Magnúsdóttir, Viggó Jónsson, Jón Magnússon og Sigurjón Þórðarson.

Svanhildur Guðmundsdóttir kvaddi sér hljóðs og óskar bókað:
Við styðjum ekki þessa tillögu sjálfstæðismanna og erum sammála því sem fram kemur í Rammaáætlun um það, að skynsamlegast sé að hafa umrædda virkjun í biðflokki, þarna á svæðinu eru einstakar aðstæður til flúðasiglinga, einhver mestu flæðiengi á Norðurlöndum við Héraðsvötn, auðugt fuglalíf, sérstæðar sífrerarústir á hálendi og mjög verðmætar og fjölbreyttar menningarminjar. Þessar auðlindir er mikilvægt að nýta til útivistar og afþreyingar fyrir heimamenn og sem grundvöll ferðaþjónustu sem er vaxandi grein í héraðinu.

Jón Magnússon tók til máls.
Forseti bar tillöguna undir atkvæði með nafnakalli.
Jón Magnússon, já
Sigríður Svavarsdóttir já
Svanhildur Guðmundsdóttir nei
Sigurjón Þórðarson, sat hjá
Viggó Jónsson, já
Sigríður Magnúsdóttir, sat hjá
Bjarki Tryggvason, já
Stefán Vagn Stefánsson, já
Bjarni Jónsson, nei
Tillagan var samþykkt með 5 atkvæðum, 2 greiddu atkvæði á móti og 2 sátu hjá.

Bjarni Jónsson kvaddi sér hljóðs, með leyfi forseta og lagði fram eftirfarandi bókun.
Allir umsagnarfrestir um rammaáætlun eru liðnir og málið hefur þegar verið afgreitt frá þingnefnd. Síðbúið orðagjálfur frá Sjálfstæðisflokknum í Skagafirði í formi ályktunar nú, er því marklaust að öðru leiti en því að kynna kjósendum flokksins að ekki sé þar lengur rúm fyrir sjónarmið fólks sem aðhyllist verndun Jökulsánna og vistvæna nýtingu svæðisins, né heldur þeirra sem vilja að frekara mat eigi sér stað á virkjunarkostum og því sem fórnað yrði áður en ákvarðanir eru teknar. Ljóst er að náttúruvænni sjónarmið eiga hljómgrunn innan raða annarra framboða sem aðild eiga að sveitarstjórn.
Þess má geta að enn er lítið nýtt af orku Blönduvirkjunar á svæðinu og ekkert sem kallar á opnun virkjunarkosta í Jökulsánum. Að tengja í greinargerð virkjanaframkvæmdir í Skagafirði og nýsamþykkt plast og trefjanám við FNV og samstarf skólans við stoðtækjaframleiðandan Össur, er lýsandi dæmi um málatilbúnað Sjálfstæðisflokksins í máli sem ekki er á dagskrá næstu misserin í Skagafirði.
Sveitarstjórnarfulltrúi VG