Fara í efni

Erindi frá Sigurjóni Þórðarsyni

Málsnúmer 1211207

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 611. fundur - 29.11.2012

Lagður fram tölvupóstur frá Sigurjóni Þórðarsyni fulltrúa Frjáslyndra og óháðra þar sem hann óskar eftir gögnum og upplýsingum varðandi vinnslu umsagnar sveitarfélagsins til innanríkisráðuneytisins, vegna kæru hans á sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar til ráðuneytisins, fyrir að hafa ekki orðið við beiðni hans um aðgang að tilteknum gögnum.

Sigurjón Þórðarson óskar bókað:
Þakka fyrir að fá loksins að sjá beiðni sveitarfélagsins til lögfræðings sem fenginn var til þess að taka saman umsögn fyrir hönd sveitarfélagsins, vegna kæru sveitarstjórnarfulltrúa til þess að fá aðgang að gögnum samanber 28. grein sveitarstjórnarlaga. Vonandi verður þetta skref til þess að upplýsa málið og koma því úr umræddu kæruferli.

Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri óskar bókað:
Sveitarstjórnarfulltrúi frjálslyndra og óðháðra í sveitarstjórn Sigurjón Þórðarson, ritaði sveitarstjóra tölvupóst hinn 27.11. 2012 um að tilgreint ?mál fái umræðu á næsta fundi Byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar?. Í tölvupóstinum er vísað til annars tölvupósts frá 21.11. 2012 þar sem viðkomandi málefni koma fram. Sveitarstjórnarfulltrúum í sveitarfélaginu ætti að vera efni þess tölvupósts kunnugt þar sem framangreindur sveitastjórnarfulltrúi sendi afrit beggja framangreindra tölvupósta til þeirra og fleiri aðila.

Í tilefni af þessum tölvupóstum hefur nú liðurinn 1211207 verið settur á dagskrá fundar byggðarráðs 29.11 2012. Erindi sveitastjórnarfulltrúans er skilið svo að óskað er eftir upplýsingum og umræðum um eftirgreind fjögur atriði:

I) Upplýsingar um samskipti við lögmann og um gögn sem fylgt hafi erindi sveitarstjóra til hans.
Fyrst var haft samband símleiðis við umræddan lögmann Arnór Halldórsson hdl. í tengslum við það að kæra sem send var inn til ráðuneytisins af sveitarstjórnarfulltrúanum var framsend af innanríkisráðuneytinu til úrskurðarnefndar upplýsingamála með bréfi 10.09. 2012. Var erindið að kanna hvort lögmaðurinn væri tilbúinn að vera sveitarfélaginu innan handar með umsögn sem úrskurðarnefndin veitti sveitarfélaginu kost á að senda um kæruna. Lögmaðurinn var tilbúinn að aðstoða svo sem um var beðið. Skömmu síðar, eða 20.09. 2012, var verkbeiðnin afturkölluð þar sem ljóst þótti að málið ætti ekki undir úrskurðarnefndina. Síðan þegar sveitarfélaginu barst erindi frá innanríkisráðuneytinu um að málið yrði tekið til meðferðar þar, sbr. bréf ráðuneytisins dags. 17.10. 2012 var aftur haft samband við sama lögmann og hann inntur eftir því hvort hann gæti skoðað málið fyrir sveitarfélagið. Þar sem hann þekkti málavöxtu var erindið stutt, sbr. tölvupóst:

?Sæll Arnór,
Margeir hafði samband við þig á sínum tíma þegar þessi kæra kom til okkar frá úrskurðarnefnd upplýsingamála, nú hefur því verið vísað frá og innanríkisráðuneytið tekið kæruna til meðferðar. Er möguleiki að þú getir skoðað þetta fyrir okkur?
Bestu kveðjur
Ásta?

Þessum tölvupósti fylgdi erindið frá innanríkisráðuneytinu. Lögmaðurinn var síðan í sambandi við fjármálastjóra sveitarfélagsins og kallaði eftir tölvupóstsamskiptum við viðkomandi fulltrúa og tilvísanir í fundargerðir, en útvegaði sér sjálfur önnur gögn af netinu. Kæruna hafði hann fengið áður, sbr. framanritað. Að svo stöddu kallaði hann ekki eftir ítarlegum gögnum þar sem honum sýndist rétt að ráðuneytið ætti að vísa málinu frá. Litið er á innihald viðkomandi tölvupósta sem vinnugögn.

Upplýsingar um áfallinn lögfræðikostnað af umsögninni liggur ekki fyrir en gert er ráð fyrir að reikningur berist fljótlega fyrir þeim kostnaði sem er áfallinn vegna umsagnarinnar.

II) Ósk um að ?gögn og skýringar verði lagðar á borðið?.
Skal hér reynt að ráða í það sem hér gæti verið um að ræða. Sýnist það vera það sem í áðurgreindum tölvupósti frá 21.11. 2012 er sagt vera ?Eðlilegar upplýsingar um stærstu framkvæmdir sveitarfélagsins á kjörtímabilinu?. Af samhenginu má ráða að hér sé átt við yfirstandandi framkvæmdir við Árskóla. Gögn er varða framkvæmdina og það sem til umfjöllunar hefur verið er að finna í fundargátt, einnig er búið er að bjóða fulltrúanum að skoða þau gögn sem til staðar eru hjá byggingafulltrúa. Er slíkt í samræmi við 2. mgr. 28. gr. sveitarstjórnarlaga. Eðlilegt er að fulltrúinn nýti sér þennan aðgang, en það hefur hann ekki gert, og geri að því loknu grein fyrir því hvað honum þykir skorta á um upplýsingagjöfina.

III) Óskað er eftir að fá ?upplýsingar um fjármögnunarsamning?.
Áður hefur komið fram, m.a. í máli fulltrúans sjálfs, t.d. á 602. fundi byggðarráðs að viðkomandi samningur sé ekki fyrirliggjandi. Hins vegar hefur komið fram að sveitarfélaginu standi til boða fjármögnun hjá Kaupfélagi Skagfirðinga. Fjármögnun stendur sveitarfélaginu til boða víðar, m.a. hjá viðskiptabanka sínum. Þar til gengið verður frá langtímafjármögnun er sveitarfélagið fjármagnað með venjubundnum og eðlilegum hætti, samkvæmt áætlunum, svo sem gerð hefur verið grein fyrir bæði í sveitarstjórn og byggðarráði sem og gagnvart innanríkisráðuneytinu. Rétt er að benda á að til fjármögnunarsamnings við Kaupfélag Skagfirðinga eða aðra mun ekki koma nema með samþykki sveitarstjórnar.

IV) Óskað er eftir að fá upplýsingar um verksamning.
Samkvæmt upplýsingum frá formanni byggingarnefndar Árskóla verður endanlegur verksamningur ræddur í nefndinni á næsta fundi þeirrar nefndar sem ráðgert er að verði haldinn fljótlega. Gert er ráð fyrir því að hann verði tekinn fyrir á fundi byggðarráðs þegar um hann hefur verið fjallað í byggingarnefnd Árskóla, enda er eðlilegur farvegur málsins að fyrst sé um hann fjallað í byggingarnefndinni þar sem hún skal m.a. hafa yfirumsjón með nýframkvæmdum við skólann.

Áður hafa einstakir efnisþættir verksamnings verið kynntir byggðarráði, m.a. á 600. fundi dags. 23.08. 2012. Þeir verktakar sem unnið hafa að verkinu hafa hingað til starfað skv. þeim einingaverðum sem fram komu í tilboðum þeirra.

Stefán Vagn Stefánsson, Bjarni Jónsson og Jón Magnússon óska bókað:
Ítrekað er að engum gögnum hefur verið haldið frá sveitarstjórnarfulltrúanum. Gögnum er varða framkvæmdina og það sem til umfjöllunar hefur verið er að finna í fundargátt. Ýmis gögn og teikningar er málinu tengjast hafa verið kynnt eftir því sem þau leggjast til, en nálgast má gögn um framkvæmdina í heild sinni hjá umhverfis- og tæknisviði. Þá hefur fulltrúinn verið hvattur til að skoða þau gögn sem til staðar eru hjá byggingarfulltrúa.

Þorsteinn Broddason óskar bókað:
Það er ljóst að ekki er rétt að öll gögn sem eru til hafa ekki verið aðgengileg jöfnum höndum. Eins og bókað var á fundi byggðarráð 6. september 2012 var um helmingur gagna hönnunarfunda bygginganefndar Árskóla birtur á einu bretti í ágúst 2012, en þar voru gögn sem voru dagsett 1. febrúar 2012 en höfðu ekki áður verið birt minnihluta í sveitarstjórn. Meirihlutinn hefur lofað betrun og ber að virða þá ákvörðun hans.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 296. fundur - 14.12.2012

Afgreiðsla 611. fundar byggðaráðs staðfest á 296. fundi sveitarstjórnar með níu atkvæðum.