Fara í efni

Lóðarréttindi Skeljungs hf. í Varmahlíð

Málsnúmer 1606192

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 770. fundur - 05.01.2017

Lagt fram bréf frá Skeljungi hf., dagsett 16. júní 2016 þar sem fyrirtækið óskar eftir að gerður verði nýr lóðaleigusamningur vegna lóðarréttinda Skeljungs hf. í Varmahlíð.

Umrædd lóð var upphaflega leigð Olíufélaginu Skeljungi hf. með samningi dags. 10. maí 1972. Í 2. gr. samningsins segir:

„Leigutíminn skal vera 10 ár frá 1.apríl 1971 að telja, en að þeim tíma loknum hefur leigutaki rétt á að fá leiguréttinn framlengdan um a.m.k. tvö ár í senn eða að fá aðra sambærilega lóð undir starfsemi sína á staðnum þegar skipulag hans hefur verið endanlega ákveðið, og skal þá gerður nýr samningur um þau lóðarréttindi.“

Ekki hefur verið gerður nýr samningur þrátt fyrir að skipulag svæðisins hafi nú verið endanlega ákveðið, en deiliskipulag svæðisins var samþykkt árið 1997. Í því skipulagi er umrædd lóð ekki skilgreind sérstaklega heldur er hluti af stærra svæði sem skilgreint er sem verslunar og þjónustusvæði.

Skeljungur hf. sendi Varmahlíðarstjórn bréf, dags. 18. nóvember 1994 varðandi framtíðarskipulag á lóð Kaupfélags Skagfirðinga og Skeljungs hf. í Varmahlíð. Í bréfinu er grein gerð fyrir því að samningar hafi tekist á milli Kaupfélags Skagfirðinga, Olíufélagsins hf. og Skeljungs hf. um samstarf í sölu og þjónustu við ferðamenn í Varmahlíð, líkt og segir í bréfinu.

Samkvæmt bréfinu var gengið út frá því að þær lóðir sem framangreindir aðilar höfðu á þeim tíma til ráðstöfunar yrðu nýttar sameiginlega til uppbyggingar aðstöðu fyrir ferðamenn. Þá segir orðrétt í niðurlagi bréfsins:

„Í ljósi þess að ofangreint samstarf er komið á milli aðila um þessa þjónustu, hefur Skeljungur lýst yfir samþykki sínu fyrir þessum áætlunum og gerir því ráð fyrir að sú lóð, sem félagið hefur á hendi á staðnum, verði nýtt sem hluti af stærra þjónustusvæði fyrir ferðamenn.“

Tekið skal fram að sveitarfélagið var ekki aðili að samkomulagi þessu tengdu né heldur var lóðarleigusamningi breytt, eða nýr gerður, vegna þeirrar lóðar sem mál þetta snýr að.

Skeljungur hf. greiddi síðast lóðarleigu árið 1996 sem kemur heim og saman við það sem fram kemur í bréfi um samrekstur Skeljungs hf. og Olíufélagsins hf. um bensínafgreiðslu í Varmahlíð og að þá hafi Skeljungur hf. hætt að hagnýta sér lóðina.

Skipulagsleg staða svæðisins í dag, og í raun allt frá árinu 1997 þegar deiliskipulag svæðisins var samþykkt, er sú að ekki er gert ráð fyrir lóðinni í skipulagi svæðisins. Upphaflegur lóðarleigusamningur hafði ekki verið endurnýjaður eða gerður nýr samningur um lóðina eða aðra sambærilega lóð og Skeljungur hf. á þessum árum hætt að nýta sér lóðina. Samkvæmt opinberum skráningum er Varmahlíðarstjórn skráður eigandi lóðarinnar.

Engar athugasemdir bárust við deiliskipulagið frá Skeljungi hf., eða öðrum aðilum varðandi þessa lóð og tók það því sem fyrr segir gildi óbreytt.

Að framsögðu er að mati Sveitarfélagsins Skagafjarðar ljóst að Skeljungur hf. er ekki með umrædda lóð á leigu, enda lóðin sem slík ekki sérstaklega skilgreind og hefur verið nýtt sem aðstaða fyrir ferðaþjónustu allt frá árinu 1995.

Frá árinu 1996 greiddi annar aðili lóðarleigu af lóðinni og hélt því áfram allt til ársins 2013. Árið 2013 var Skeljungur hf., fyrir mistök, aftur krafið um lóðarleigu sem félagið hefur greitt allt til þessa árs. Sveitarfélagið Skagafjörður harmar þau mistök og mun endurgreiða Skeljungi hf. þá lóðarleigu ásamt vöxtum við fyrsta tækifæri.

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar er tilbúið til þess að setjast niður með forsvarsmönnum Skeljungs hf. vegna málsins með það í huga að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni varðandi það að útvega Skeljungi hf. lóð undir starfsemi sína í sveitarfélaginu.