Fara í efni

Háholt

Málsnúmer 1703351

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 779. fundur - 30.03.2017

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu meðferðarheimilisins Háholts en uppi eru áform um að loka heimilinu frá og með næsta hausti. Fyrirhugað er að færa starfsemina á höfuðborgarsvæðið og áætlað að veita um 500 milljónum króna í nýbyggingu undir starfsemina.

Byggðarráð telur það vera undarleg vinnubrögð að hálfu ráðuneytis og Barnaverndarstofu að aldrei hefur verið rætt við forsvarsmenn sveitarfélagsins í aðdraganda þessarar ákvörðunar en Sveitarfélagið Skagafjörður er eigandi húsnæðis sem hýsir starfsemi Háholts. Sveitarfélagið byggði húsið sérstaklega undir starfsemina á sínum tíma og fór í miklar endurbætur á húsnæðinu árið 2014 til að aðlaga það betur að starfseminni. Samningur sveitarfélagsins og barnaverndarstofu um húsnæðið undir meðferðarheimilið rennur út í ágúst á næsta ári. Sveitarfélagið er jafnframt tilbúið að þróa áfram þjónustuna í samvinnu við ráðuneytið og Barnaverndarstofu.

Byggðaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar óskar eftir að fá fund með velferðarráðherra til að ræða framtíð meðferðarheimilisins Háholts í Skagafirði. Er það ósk byggðarráðs að af þeim fundi geti orðið sem fyrst.