Fara í efni

Beiðni um umsögn vegna meintrar ólögmætrar stjórnsýslu sveitarfélagsins varðandi samninga við Sýndarveruleika ehf

Málsnúmer 1804017

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 823. fundur - 12.04.2018

Lagt fram bréf frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dagsett 27. mars 2018 þar sem óskað er eftir umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar um efni kvörtunar sem ráðuneytinu barst frá Sigurjóni Þórðarsyni þann 23.mars s.l.
Byggðarráð samþykkir að fela lögmanni að taka saman umsögn fyrir sveitarfélagið.
Bókun:
Við undirrituð lýsum áhyggjum okkar af málsmeðferð sveitarfélagsins að því er varðar samning þess um uppbyggingu og stuðning við Sýndarveruleika ehf. Teljum við að fjölmörgum spurningum sé ósvarað um verkefnið sem helgast meðal annars af því hversu takmarkaðar upplýsingar hafa verið veittar. Í þessu sambandi bendum við á nauðsyn þess áður en lengra er haldið við afgreiðslu málsins að farið sé vandlega yfir lagaleg atriði, t.d. hvort sveitarfélagið hafi fullnægjandi lagaheimildir til þessara ráðstafana og hvort stuðningur þess feli í sér ólögmæta fjárhagsaðstoð við við einkaaðila í samkeppnisrekstri. Þá þarf sérstaklega að gæta að því að farið sé að leikreglum stjórnsýslulaga, þannig að íbúarnir og fyrirtæki í sveitarfélaginu njóti jafnræðis þegar kemur að ráðstöfun eigna og aðgangi að fjármunum og auðlindum sveitarfélagsins. Við óskum eftir því að þessi atriði verði skoðuð vandlega og niðurstöður athugana verði kynntar fyrir kjörnum fulltrúum áður en málið verður afgreitt af hálfu sveitarfélagsins.

Þá undrumst við þá leynd sem farið er fram á um samning sveitarfélagsins við Sýndarveruleika ehf. Óskum við eftir ítarlegum rökstuðningi fyrir þeirri kröfu að upplýsingum um innihald samninga sem fela í sér ráðstöfun eigna sveitarfélagsins og fjárhagsskuldbindingar til langs tíma skuli haldið leyndum. Við óskum meðal annars eftir því að rökstutt sé á hvaða lagagrundvelli þessi krafa um þögn er byggð. Enn fremur hvaða sjónarmið um meðferð persónuupplýsinga réttlæti að leynt sé farið með hvað opinber aðili eins og sveitarfélagið leggi verkefninu og fyrirtækinu til fjárhagslega vegna uppbyggingar þess og starfsemi.
Eins og staðan er nú virðist til þess ætlast að sveitarstjórnarfulltrúar samþykki að sveitarfélagið undirgangist verulegar skuldbindingar og leggi fram umtalsvert fé, án þess fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir. Á sama tíma virðist þess krafist að upplýsingum sé haldið frá almenningi. Við álítum að það sé skylda okkar sem fulltrúa íbúa í sveitarstjórn að fara fram á að framangreindum spurningum sé svarað og að fullnægjandi upplýsingar séu veittar um málið, þannig að ekki séu lagðar hömlur á að við getum rækt skyldur okkar gagnvart íbúum sveitarfélagsins þegar verið er að ráðstafa eignum og fjármunum þess.

Bjarni Jónsson VG og óháðum
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir K - lista

Bókun:
Engum gögnum hefur verið haldið frá fulltrúum í byggarráði varðandi samninga við Sýndarveruleika ehf. Samningurinn sem um ræðir var samþykktur á fundi ráðsins 2. mars s.l. án athugasemda fulltrúa minnihlutans í sveitarstjórn. Í vinnsluferli samningsins komu aldrei fram efasemdir eða athugasemdir frá fulltrúum minnihlutans hvort umræddur samningur stæðist lög og verður það að teljast sérstök vinnubrögð að taka þátt í vinnslu á umræddum samningi og koma svo eftir að hafa samþykkt umræddan samning og gagnrýna innihald hans.

Stefán Vagn Stefánsson B-lista
Sigríður Svavarsdóttir D-lista

Bjarni Jónsson óskar bókað:
Öll málsmeðferð er á ábyrgð meirihluta sveitarstjórnar.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir óskar bókað:
Málið er enn á vinnslustigi og ég tel eðlilegt að spyrja spurninga.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 828. fundur - 17.05.2018

Lagt fram bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti dagsett 8.maí 2018 vegna kvörtunar Sigurjóns Þórðarsonar 23.mars 2018.
Bréfið er svohljóðandi:
Ráðuneytið vísar til bréfs síns frá 27.mars sl. varðandi kvörtun Sigurjóns Þórðarsonar frá 23. s.m. vegna meintrar ólögmætrar stjórnsýslu Sveitarfélagsins Skagafjarðar í tengslum við samninga þess við einkahlutafélagið Sýndarveruleika o.fl. Þá vísar ráðuneytið einnig til umsagnar sem Arnór Halldórsson hdl. sendi f.h. sveitarfélagsins, dags. 20.spríl sl.
Af umsögn lögmannsins má ráða að umrætt mál sé enn í vinnslu í stjórnsýslu sveitarfélagsins og að engar endanlegar ákvarðanir hafi verið teknar um aðkomu þess að starfssemi einkahlutafélagsins Sýndarveruleika eða nýtingu fasteigna að Aðalgötu 21 a og b á Sauðárkróki. Liggur því ekki endanlega fyrir hvernig staðið verður af hálfu sveitarfélagsins að undirbúningi og efni þeirra ákvarðana sem kunna að verða teknar í málinu.
Vegna framkominnar kvörtunar og þeirra opinberu umræðu og umfjöllunar sem mál þetta hefur hlotið vill ráðuneytið þó hvetja til þess að við meðferð þess og afgreiðslu sé tryggt að gætt sé ákvæða sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, um rétt sveitarstjórnarmanna til aðgangs að gögnum og upplýsingum um mál sem til meðferðar eru í stjórnsýslu sveitarfélags. Þá verði jafnframt lagt mat á hvort tilefni sé til sérstakrar upplýsingagjafar til íbúa sveitarfélagsins um málið, sbr. ákvæði X.kafla sveitarstjórnarlaga. Þá bendir ráðuneytið á að fjárhagslegar ákvarðanir sem kunna að verða teknar í málinu skulu samræmast ákvæðum VII.kafla sveitarstjórnarlaga um fjármál sveitarfélaga, m.a. um bindandi áhrif fjárhagsáætlunar(63.gr.) ábyrga meðferð fjármuna (65.gr.), fjárfestingar (66.gr.) og ábyrgðir (69.gr.).
Loks óskar ráðuneytið eftir því að með vísan til 113.gr. sveitarstjórnarlaga að það verði upplýst um niðurstöðu málsins þegar hún liggur fyrir og því jafnframt send öll gögn þess. Mun ráðuneytið í kjölfar þess leggja mat á hvort málið gefi tilefni til formlegrar umfjöllunar um stjórnsýslu sveitarfélagsins á grundvelli 112.gr. sveitarstjórnarlaga.

Meirihluti byggðarráðs óskar bókað:
Bréfið er í tilefni af kvörtun Sigurjóns Þórðarsonar frá 23.03. 2018 um meinta ólögmæta stjórnsýslu Sveitarfélagsins Skagafjarðar í tengslum við samninga þess við Sýndarveruleika ehf. ofl. Meiri hluti Byggðarráðs deilir skoðunum með ráðuneytinu um mikilvægi þess að þau mál sem um ræðir verði afgreidd í samræmi við sveitarstjórnarlög og leggur áherslu á að áfram verði unnið í viðkomandi samningum með það að markmiði að ljúka þeim svo fljótt sem aðstæður leyfa. Meiri hluti Byggðarráðs telur að skilja beri efni framangreinds bréfs ráðuneytisins frá 08.05. 2018 með þeim hætti að á meðan viðkomandi mál séu enn í vinnslu telji ráðuneytið að ekki séu forsendur fyrir því að það fjalli um þau með þeim hætti sem kvartandi krafðist í bréfi sínu frá 23.03. 2018.
Stefán Vagn Stefánsson B-lista
Sigríður Svavarsdóttir D-lista

Í bréfinu felst alvarleg ádrepa á meirihluta sveitarstjórnar vegna þeirrar leyndarhyggju sem hefur verið um eðli og innihald samninga vegna uppbyggingar sýndarveruleikasýningar, Sýndarveruleika ehf. og varnaðarorð um framhaldið. Ráðuneytið muni fylgjast áfram með því hvernig sveitarstjórn heldur á málinu. Ennfremur tilmæli um að sveitarstjórn tryggi aðgang að gögnum, og upplýsingagjöf til almennings. Þar sem undirritaður hefur ekki séð hvernig meirihlutinn réttlætti leyndina og málsmeðferðina gagnvart ráðuneytinu er settur fyrirvari við innihaldið og eins dregið í efa að nægjanlega hafi verið gerð grein fyrir því að nú þegar sé farið að vinna eftir samningunum að einhverju leiti.
Bjarni Jónsson lista Vg og óháð.

Nú eru átta dagar til sveitarstjórnarkosninga og mörg mál sem eru þess eðlis að þau komi til umræðu í þeirri kosningarbaráttu sem nú stendur yfir. Undirrituð er ekki í framboði og K-listinn er ekki að bjóða fram, því hef ég tekið þá ákvörðun að taka ekki afstöðu með þeim málum sem umdeild eru og sit því hjá við afgreiðslu málsins.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir K - lista