Fara í efni

Fyrirspurn um samning við Sýndarveruleika ehf

Málsnúmer 1804042

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 826. fundur - 26.04.2018

Lagt fram bréf dagsett 6. apríl 2018 frá Maríu Eymundsdóttur þar sem hún óskar eftir upplýsingum varðandi samstarfssamning milli Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Sýndarveruleika ehf. og leggur fram eftirfarandi spurningar:
1. Hver er áætlaður heildarkostnaður sveitarfélagsins við verkefnið?
2. Í hversu langan tíma gildir samningurinn við Sýndarveruleika ehf?
3. Er samningurinn uppsegjanlegur?
4. Hver er kostnaður sveitarfélagsins af húsnæðinu sem útvegað er undir sýninguna? Hér er m.a.
átt við þegar litið er til áætlana um viðgerðarkostnað af húsnæðinu sem liggur fyrir að þarfnist
viðhalds og breytinga og eins vegna hugsanlega tapaðrar húsaleigu?
5. Leggur sveitarfélagið félaginu Sýndarveruleika ehf til eitthvað starfsfólk og ef já hver er þá
áætlaður fjöldi stöðugilda og heildarkostnaður?
6. Hversu mikið er áætlað að sveitarfélagið fái út úr þessum samningi? Og hvernig skiptast þær
tekjur? Beinar tekjur, leigutekjur, afkomutengdar tekjur o.s.frv.?
7. Hversu mikið er áætlað að afleiddar tekjur af sýndarveruleikasafninu/setrinu verði í héraðinu?

Á byggðaráðsfundi hinn 05.04. 2018 var lagt fram svar við fyrirspurn Álfhildar Leifsdóttur frá 26.03.2018 sem hefur það sammerkt með fyrirspurn Maríu Eymundsdóttur að í þeim báðum er óskað eftir upplýsingum um efni samninga sem tengjast uppbyggingu á húsnæði við Aðalgötu 21A og 21B á Sauðárkróki og óskað eftir upplýsingum um efni samnings sveitarfélagsins við Sýndarveruleika ehf.
Það svar sem fólst í bókun byggðarráðs um málið hefur Álfhildur Leifsdóttur kært til úrskurðarnefndar um upplýsingarmál.
Byggðarráði þykir rétt að fresta svari við framangreindri fyrirspurn Maríu Eymundsdóttur þar til úrvinnslu á framangreindu kærumáli Álfhildar er lokið fyrir nefndinni, með vísan til þess að kærumálið lýtur sama atriði og fyrirspurn Maríu. Þetta gildir þó ekki um lið 7 í fyrirspurn Maríu. Á vegum sveitarfélagsins er unnið að samantekt um þau atriði sem þar er spurt um. Er ráðgert að kynna þá samantekt í byggðarráði innan tíðar og jafnframt að upplýsa fyrirspyrjanda um efni hennar. Auk þess þykir þó rétt að árétta að í desember 2016 var ákveðið að sveitarfélagið keypti húsið að Aðalgötu 21 A og 21 B á 35.000.000 kr. Kaupin fóru fram í jöfnum makaskiptum þar sem kaupverðið var greitt með fasteigninni að Aðalgötu 16B. Þá þegar var ákveðið að setja 80 mkr. á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2017 til lagfæringar utanhúss á húsnæðinu, skv. fyrirliggjandi kostnaðaráætlun frá Stoð ehf. Auk þess var á 365. fundi sveitarstjórnar 21.03. 2018 ákveðið að verja 120.000.000 kr. til endurbóta á húsnæðinu til viðbótar framangreindum 80 mkr. Ljóst er að slíkar endurbætur eru nauðsynlegar til þess að koma húsnæðinu í sómasamlegt horf óháð því hver notandi þess verður. Framangreindar heimildir á fjárhagsáætlun rúma því þá kostnaðaráætlun sem nú er unnið eftir og hljóðar uppá tæplega 190 mkr. innan- og utanhúss.
Vegna athugasemda í ítrekunarbréfi dagsettu 16. apríl 2018 vegna meintra tafa á afgreiðslu erindis sem sent var til sveitarstjóra, byggðarráðs og sveitarstjórnar þann 6. apríl 2018 skal tekið fram að reglulegur fundur byggðarráðs féll niður þann 19. apríl 2018 vegna sumardagsins fyrsta.
Bókun:
Í svari við fyrirspurninni eru engar þær upplýsingar veittar sem leitað er eftir. Það er tímabært að fulltrúar meirihlutans biðji íbúa afsökunar á málsmeðferðinni og leyndarhyggjunni. Það er hafið yfir vafa að sveitarfélaginu er óheimilt að halda upplýsingum frá almenningi er varða umfangsmiklar langtímaskuldbindingar þess, veruleg fjárútlát og ráðstöfun á opinberu fé. Ennfremur að sveitarfélaginu beri að eigin frumkvæði að gera grein fyrir slíkum áformum og í hverju þau felast.
Undirritaðir álíta það skyldu sína sem fulltrúar íbúa í sveitarstjórn að gera skýlausa kröfu um að slíkum spurningum íbúa sé svarað með upplýsandi hætti og að fullnægjandi upplýsingar séu veittar um málið. Sveitarstjórnarfulltrúar minnihlutans hafa óskað eftir ítarlegum rökstuðningi fyrir þeirri kröfu að upplýsingum um innihald samninga sem fela í sér ráðstöfun eigna sveitarfélagsins og fjárhagsskuldbindingar til langs tíma skuli haldið leyndum. Við óskuðum meðal annars eftir því að rökstutt sé á hvaða lagagrundvelli þessi krafa um þögn er byggð. Enn fremur hvaða sjónarmið um meðferð persónuupplýsinga réttlæti að leynt sé farið með hvað opinber aðili eins og sveitarfélagið leggi verkefninu og fyrirtækinu til fjárhagslega vegna uppbyggingar þess og starfsemi. Ekkert slíkt hefur verið lagt fram og verður ekki við það unað.
Bjarni Jónsson, VG og óháðum
Sigurjón Þórðarson, K lista