Fara í efni

Tillaga - Innkaupareglur fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð

Málsnúmer 1804120

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 826. fundur - 26.04.2018

Lögð fram svohljóðandi tillaga frá Bjarna Jónssyni Vg og óháðum:
Starfshópur sem skipaður var til að vinna að innkaupareglum fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð árið 2015, en hefur ekki enn hist, verði kallaður saman til að ljúka því verki sem honum var falið.
Greinargerð.
Tilgangur laga um opinber innkaup er að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu. Mikilvægt er að Sveitarfélagið Skagafjörður skipi sér á lista þeirra sveitarfélaga sem sett hafa sér innkaupareglur. Byggðaráð samþykkti tillögu VG og óháðra og K lista um skipan starfshóps til að vinna að innkaupareglum samkvæmt lögum um opinber innkaup nr. 84/2007 fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð 20. ágúst 2015. Þá voru einnig sett ný lög um opinber innkaup árið 2016. https://www.althingi.is/lagas/nuna/2016120.html.
Starfshópinn skipa fulltrúar allra framboða; Gísli Sigurðsson, Bjarki Tryggvason, Sigurjón Þórðarson og Hildur Þóra Magnúsdóttir. Starfshópurinn hefur hinsvegar aldrei verið kallaður saman. Fulltrúi VG og óháðra kallaði þó eftir þvi skriflega 18. september 2015 og 15. janúar 2016. Mikilvægt er að starfshópurinn verði kallaður saman til að ljúka því verki sem honum var falið fyrir tæpum þremur árum síðan.
Bókun meirihluta byggðarráðs, Stefáns Vagns Stefánssonar (B-lista) og Sigríðar Svavarsdóttur (D-lista).
Á fundi byggðarráðs þann 18.05. 2017 var lögð fram skýrsla um stjórnsýsluskoðun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2016 frá KPMG hf. Þar segir m.a. að vegna gildistöku nýrra laga um opinber innkaup nr. 120/2016 þá falli á brott skylda sveitarstjórna að setja sér innkaupareglur sem falli að kröfum laganna. Þar með lauk störfum starfshópsins sem skipaður var til að koma með tillögur að innkaupareglum samkvæmt lögum nr. 84/2007. Hins vegar hafa sveitarfélög þ.m.t. Sveitarfélagið Skagafjörður verið að skoða með hvaða hætti væri hægt að setja innkaupareglur þar sem einkum væri horft til þess að fjallað væri fyrst og fremst um stjórnsýsluna hjá sveitarfélaginu er varðar innkaup, s.s. um hverjir hafi heimildir til að skuldbinda sveitarfélagið, samþykkja reikninga, úthlutun útgjaldaheimilda, viðskipti við tengda aðila o.þ.h. Það sem nokkur sveitarfélög hafa lýst yfir áhuga á því að skoða gerð slíkra reglna hafa KPMG hf og Samband íslenskra sveitarfélaga verið að skoða með hvaða hætti sé best að vinna tillögu að reglum sem öll sveitarfélög gætu nýtt sér. Sveitarfélagið Skagafjörður telur mikilvægt að bíða eftir að þeirri vinnu ljúki.
Bjarni Jónsson, (Vg og óháðum) og Sigurjón Þórðarson (K-lista) óska bókað:
Mikilvægt er að sveitarfélagið setji sér innkaupareglur og staðfesta verkferla um útboð og meðferð mála sem það taki mið af í sínum gjörningum og störfum. Bæði Í samræmi við ný lög um opinber innkaup https://www.althingi.is/lagas/nuna/2016120.html, reglugerð frá 15. febrúar sl. þar um og sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti. Í því fælist mikill stuðningur fyrir sveitarfélagið í því umhverfi sem það starfar.