Fara í efni

Umsagnarbeiðni frumvarp til laga um dýrasjúkdóma ofl. (innflutningur búfjárafurða)

Málsnúmer 1904058

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 863. fundur - 10.04.2019

Lagður fram tölvupóstur frá nefndasviði Alþingis dagsettur 4. apríl 2019. Atvinnuveganefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um dýrasjúkdóma o.fl. (innflutningur búfjárafurða), 766. mál.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að leggja fram drög að umsögn fyrir ráðið.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 864. fundur - 17.04.2019

Málið áður á dagskrá 863. fundar byggðarráðs. Lagður fram tölvupóstur frá nefndasviði Alþingis dagsettur 4. apríl 2019. Atvinnuveganefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um dýrasjúkdóma o.fl. (innflutningur búfjárafurða), 766. mál.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsir yfir vonbrigðum með frumvarp til laga um dýrasjúkdóma o.fl. (innflutningur búfjárafurða) og telur að verði það lögfest muni það ógna lýðheilsu þjóðarinnar og heilbrigði búfjár í landinu. Þegar hefur komið fram að Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) telur sýklalyfjaónæmi eina helstu ógn sem steðjar að lýðheilsu í heiminum í dag. Það er skoðun byggðarráðs að lýðheilsa og matvælaöryggi eigi ávallt að vega þyngra en viðskiptahagsmunir. Flestar þjóðir eru með virkar varnir til handa innlendri matvælaframleiðslu, til viðhalds matvælaöryggi, framleiðslu heilnæmra búvara og til að viðhalda byggð.
Byggðarráð leggur áherslu á sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar og hvetur íslensk stjórnvöld til að kanna hvort endurskoða megi viðkomandi ákvæði innan EES-samningsins með það að markmiði að sækja um undanþágu fyrir Ísland vegna lítillar notkunar á sýklalyfjum í landbúnaði og alþjóðlegra skuldbindinga hvað varðar verndun íslenskra búfjárkynja. Jafnframt að tryggja að búfjárafurðir sem fluttar eru til Íslands séu ekki framleiddar þar sem ekki er gerð eins ríkuleg krafa um dýravelferð en farið er fram á gagnvart íslenskum framleiðendum, og að kröfur um sláturhús, kjötvinnslur og sýnatökur verði ekki minni gagnvart innflutningi búfjárfurða frá EES-löndum en eru hér á landi. Þá verði sett ríkuleg skilyrði um upprunamerkingar og rekjanleika innfluttra afurða, auk þess sem eftirlit með matvælum verði stóreflt og skyndisýnatökum beitt í því skyni. Miðað við núverandi stöðu er smitvörnum hér á landi einnig verulega ábótavant og því brýn nauðsyn að sporna með öllum ráðum við því að smitsjúkdómar berist til landsins í innlenda búfjárstofna.
Verði frumvarpið að lögum mun það hafa neikvæð áhrif á starfsumhverfi landbúnaðarins en í Skagafirði eru hundruð beinna og óbeinna starfa tengd landbúnaði í héraðinu. Það væri í hæsta máta óábyrgt af Alþingi Íslendinga að samþykkja frumvarp sem hefur slíkar afleiðingar án þess að tryggja samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar, endurskoða tollasamninga og móta framtíðarsýn fyrir atvinnugreinina.
Fyrir liggur að ráðherra hefur lagt fram aðgerðaáætlun í 15 liðum sem ætlað er að bregðast við ýmsum mögulegum neikvæðum afleiðingum frumvarpsins. Nokkrar þeirra eru hluti af frumvarpinu. Allar þessar aðgerðir geta vissulega haft jákvæð áhrif en gera verður alvarlegar athugasemdir við að margar þeirra eru ýmist óútfærðar, ófjármagnaðar eða hvort tveggja. Að teknu tilliti til þess er alveg ljóst að flestar aðgerðanna munu ekki verða komnar í framkvæmd þann 1. september þegar lagt er til að frumvarpið taki gildi. Það er því alger lágmarskrafa ef frumvarpið verður að lögum taki það ekki gildi fyrr en að minnsta kosti að þremur árum liðnum, til að tími gefist til að útfæra og fjármagna þær aðgerðir sem nú eru vanbúnar. Annað væri hreint ábyrgðarleysi af hálfu Alþingis.