Fara í efni

Áskorun sýslum. á Norðurlandi vestra til stjórnvalda um eflingu sýslumannsembættanna sem miðstöðvar stjórnsýslu o.fl.

Málsnúmer 1905085

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 866. fundur - 15.05.2019

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 10. maí 2019 frá Bjarna G. Stefánssyni, sýslumanni á Norðurlandi vestra. Embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra vill vekja athygli alþingismanna kjördæmisins svo og kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum á Norðurlandi vestra, á áskorun sem sýslumenn hafa í sameiningu beint til stjórnvalda í kjölfar álits stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis frá 29. apríl sl. vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í marsmánuði 2019. Nánar tiltekið er skorað á fjárveitingarvaldið að tryggja rekstur embættanna þannig að markmið um eflingu embættanna sem miðstöðvar stjórnsýslu ríkisins í héraði, sem sett voru með lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu í héraði nr. 50/2014, geti náð fram að ganga. Um er að ræða sameiginlegt hagsmunamál allra íbúa umdæmisins, enda veruleg hætta á lækkuðu þjónustustigi embættisins svo og fækkun starfa, verði viðeigandi ráðstafanir ekki gerðar hið fyrsta til að tryggja rekstrargrundvöll fyrir starfsemi þess. Staðan er því miður orðin þannig að vegna vanfjármögnunar sýslumannsembætta um allt land eiga embættin orðið afar erfitt með að sinna lögbundnum skyldum sínum.
Byggðarráð tekur undir áskorun sýslumanna til stjórnvalda um að tryggja rekstur embættanna og efla þau sem miðstöðvar stjórnsýslu ríkisins í héraði. Jafnframt hefur byggðarráð áhyggjur af þróun starfsstöðvar á Sauðárkróki þar sem starfsfólki hefur fækkað og þjónustustigið lækkað. Skorar byggðarráð á stjórnvöld að snúa þeirri þróun við í anda þeirrar byggðastefnu sem boðuð hefur verið.