Fara í efni

Starfsumhverfi leikskóla

Málsnúmer 1908066

Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd Svf. Skagafjarðar - 146. fundur - 22.08.2019

Fræðslunefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að skipa vinnuhóp sem hefur það verkefni að skoða starfsumhverfi leikskóla í Skagafirði. Vinnuhópurinn verði undir forystu fræðslustjóra en í honum sitji einnig fulltrúar leikskólanna þriggja auk annarra sérfræðinga á fjölskyldusviði eftir þörfum. Markmið þeirrar skoðunar er að kanna möguleika á að bæta starfsaðstæður í leikskólum og minnka álag á börn og starfsfólk. Sérstaklega skal lagt mat á þætti eins og mönnun, fjölda barna á deild m.t.t. rýmis, fjölda undirbúningstíma o.þ.h. Þá skal einnig lagt mat á árangur af reglum fyrir starfsmenn leikskóla vegna styrkja til náms í leikskólakennarafræðum, sem settar voru á árinu 2018. Skoða skal sérstaklega hvað önnur sveitarfélög hafa gert til að koma til móts við mikla starfsmannaveltu og leggja mat á þær aðgerðir. Vinnuhópurinn skili drögum að tillögum og greinargerð til fræðslunefndar í lok október n.k.
Anna Árnína Stefánsdóttir vék af fundi eftir lið 2.

Fræðslunefnd Svf. Skagafjarðar - 151. fundur - 16.12.2019

Þann 22. ágúst s.l. samþykkti fræðslunefnd að skipa starfshóp undir forystu fræðslustjóra til að skoða og meta starfsumhverfi leikskóla. Markmiðið var að skoða hvort og hvernig mætti bæta starfsaðstæður og minnka álag á börn og starfsfólk leikskólanna. Skýrsla, með tillögum til úrbóta, liggur nú fyrir og er lögð fram til kynningar. Fram kom að í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 var fræðsluþjónustunni lagðar sérstaklega til 8 milljónir króna til að koma til móts við tillögur starfshópsins. Fræðslunefnd þakkar starfshópnum fyrir þeirra greiningu og vinnu og telur skýrsluna mikilvægt innlegg í að skapa málefnum leikskóla betra starfsumhverfi til framtíðar litið. Nefndin felur fræðslustjóra að vinna áfram með starfshópnum að útfærslu tillagna og leggja aftur fyrir nefndina. Nefndin ítrekar einnig mikilvægi þess að innra skipulag sé stöðugt í skoðun með tilliti til breytinga á starfsháttum sem auðveldað gætu vinnulag innan skólanna.

Auður Björk Birgisdóttir, fulltrúi VG og óháðra óskar eftirfarandi bókað:
VG og óháðir þakka starfsfólki Sveitarfélagsins og starfshóp vinnu þeirra vegna undirbúnings að styttingu vinnuviku leikskólanna, en um er að ræða eitt af áherslumálum VG og óháðra eins og ítarlega er farið yfir í grein sem birt var á feykir.is, þann 17. maí 2018 og ber heitið Stytting vinnuvikunnar hjá sveitarfélaginu Skagafirði, rituð af Álfhildi Leifsdóttur.
Aðalbjörg Þorgrímsdóttir og Kristín Halla Bergsdóttir sátu fundinn undir liðum 1-3.

Fræðslunefnd Svf. Skagafjarðar - 152. fundur - 30.01.2020

Tillaga meirihluta um útfærslur á bættu starfsumhverfi í leikskólum Skagafjarðar:

Að tillögu fræðslunefndar þann 22. ágúst 2019 var skipaður starfshópur sem skoða átti
starfsumhverfi leikskóla í Skagafirði með það að markmiði að bæta starfsumhverfi og minnka álag á nemendur og starfsfólk. Ákvörðun þessi er í samræmi við áherslur meirihluta sveitarstjórnar um að tryggja áfram metnaðarfullt starf í leik- og grunnskólum Skagafjarðar. Auk þeirra tillagna sem hér liggja fyrir voru reglur um stuðning vegna náms í leikskólafræðum samþykktar í september 2018.

Í kjölfar skýrslu starfshópsins sem lögð var fyrir fræðslunefnd á síðasta fundi hennar, þann 16. desember s.l., samþykkti sveitarstjórn að veita átta milljónum króna á þessu ári til að hrinda í framkvæmd tillögum starfshópsins. Gert er ráð fyrir að tillögurnar komi til framkvæmda eins fljótt og auðið er, í síðasta lagi þann 1. maí n.k.

Þær tillögur sem formaður og varaformaður fræðslunefndar leggja til að ráðist verði í eru eftirfarandi:
* Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar um 3 klukkustundir í viku í leikskólunum þremur. Árangur verkefnisins verði metinn reglulega skv. matskvörðum með tilliti til þess hvort verkefnið verður framlengt.
* Gert er ráð fyrir auknu fjármagni vegna fagfunda í Ársölum.
* Undirbúningstími verði aukinn og samræmdur á öllum deildum leikskólanna.
* Starfsmaður Þjónustumiðstöðvar sinni starfi húsvarðar í allt að fjóra tíma í viku í Ársölum.
* Milli jóla og nýárs verði lágmarksstarfsemi í Ársölum og leitað eftir skráningum barna þá daga. Þeir foreldrar sem eru með börn sín heima fá afslátt af leikskólagjöldum.
* Við breytingar á húsnæði eða nýbyggingar verði horft til tillagna starfshópsins um breytt rýmisviðmið.

Er með þessu komið til móts við þær tillögur sem liggja fyrir frá starfshópi sem skipaður var í ágúst sem og til móts við óskir leikskólastjórnenda. Greining á kostnaði liggur fyrir og rúmast aðgerðirnar innan þess fjárhagsramma sem samþykktur var í fjárhagsáætlun þessa árs auk viðbótarfjármagns sem kemur með nýjum kjarasamningum á vinnumarkaði. Hvað varðar frekari útfærslu og umfjöllun um tillögur skýrslunnar að öðru leyti er vísað til minnisblaðs sviðsstjóra undir málinu.

Laufey Kr. Skúladóttir, formaður og fulltrúi B-lista í fræðslunefnd
Elín Árdís Björnsdóttir, varaformaður og fulltrúi D-lista í fræðslunefnd

Jóhanna Ey Harðardóttir bókar:
Vegamikil vinna hefur átt sér stað innan vinnuhóps um bætt starfsumhverfi í leikskólum Skagafjarðar og vil ég nýta tækifærið og þakka vinnuhópnum fyrir vel unnin störf. Leikskólar eru hjarta hvers samfélags og mikilvægt að starf þeirra sé metið sem skyldi, það jákvætt að einhugur er í fræðslunefnd um þessi mál og fagna ég því að fyrsta skrefið sé tekið.


Fræðslunefnd fagnar þessu skrefi að bættu starfsumhverfi leikskólanna. Leikskólarnir eru afar mikilvægar stofnanir í samfélaginu og mikilvægt að halda vel utan um þær. Fræðslunefnd samþykkir tillögurnar.