Fara í efni

Viðbót við fyrirspurn vegna Byggðasafns

Málsnúmer 1910148

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 886. fundur - 31.10.2019

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 12. október 2019 frá Álfhildi Leifsdóttur þar sem hún óskar eftir svörum við fyrirspurnum hennar vegna Byggðasafns Skagfirðinga. Einnig lögð fram svör við framangreindum fyrirspurnum.
Byggðarráð samþykkir að fyrirspurnir og svör verði birt á heimasíðu sveitarfélagsins.

Álfhildur Leifsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna og óháðra óskar bókað:
"Augljóst er að mikill kostnaður hefur hlotist af makaskiptum húsanna Aðalgötu 21 og Minjahússins. Er með ólíkindum að Sveitarfélagið Skagafjörður sé að leigja Minjahúsið, sem áður var í eigu sveitarfélagsins, á rúmar 600 þúsund krónur á mánuði í á annað ár, meðan Aðalgata 21 skilar engum leigutekjum á sama tíma.
Er það miður að ekki sé gert ráð fyrir föstum sýningarsal fyrir Byggðasafn Skagfirðinga á Sauðárkróki til framtíðar, því verðlaunasafnið yrði mjög líklega einn af þeim seglum sem tíðrætt er um að vanti hér í sveitarfélagið. Má þar sérstaklega nefna gömlu verkstæðin sem þyrftu að fá viðeigandi pláss. Það er því sorglegt að aðstöðuleysi Byggðasafnsins til sýningarhalds hér á Sauðárkróki verði viðvarandi."

Ólafur Bjarni Haraldsson, fulltrúi ByggðaListans, óskar bókað:
"Það að fasteigninni að Aðalgötu 16b (Minjahús) var ráðstafað, áður en safninu var fundin varanlegur staður er orðið mjög kostnaðarsamt fyrir sveitarfélagið og má þar nefna yfir 10 milljón króna leigugreiðslur af eigninni. Þrátt fyrir að aðstaðan fyrir varðveislu muna í Minjahúsinu á Sauðárkróki hafi ekki þótt boðleg til langframa, þá hefði verið mun farsælla að finna safninu varanlegan stað áður en eigninni var ráðstafað. Einnig má ætla að núverandi ástand hamli mjög starfsemi Byggðasafnsins og er það miður."

Fulltrúar meirihluta byggðarráðs, Stefán Vagn Stefánsson, Framsóknarflokki og Gísli Sigurðsson, Sjálfstæðisflokki, óskað bókað:
"Nú er verið að leggja loka hönd á tímabundið geymsluhúsnæði fyrir byggðasafnið sem mun leysa núverandi húsnæði af hólmi sem uppfyllti ekki kröfur safnsins. Framtíðarsýn varðandi varðveislurými byggðasafnsins er skýr, en gert er ráð fyrir fullkomnu varðveislurýmis í nýju menningarhúsi og fyrir fundinum liggja drög af samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið um byggingu menningarhúss á Sauðárkróki."