Fara í efni

Viðmiðunarreglur um framlög til stjórnmálaflokka

Málsnúmer 2001245

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 900. fundur - 06.02.2020

Lagt fram bréf, dagsett 17. janúar 2020, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um viðmiðunarreglur um framlög til stjórnmálaflokka. Með vísan til 5. gr. 2. mgr. laga nr. 162/2006 með síðari breytingum hefur stjórn Sambandsins sett viðmiðunarreglur um að sveitarfélag skal veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið hið minnsta 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, árleg framlög til starfsemi sinnar. Skal framlögum úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn. Miða skal við 175 kr. á hvern íbúa sem á lögheimili í sveitarfélaginu 1. janúar á ári hverju. Þessi fjárhæð tekur breytingum árlega miðað við vísitölu neysluverðs í október ár hvert.
Skilyrði úthlutunar framlaga er að viðkomandi stjórnmálasamtök hafi áður uppfyllt upplýsingaskyldu sína samkvæmt lögum við ríkisendurskoðanda. Á því ári sem sveitarstjórnarkosningar eru haldnar skal úthlutað helmingi árlegs framlags fyrir kosningar en síðari helmingi að þeim loknum í samræmi við kjörfylgi.
Reglurnar eiga einungis við sveitarfélög þar sem bundnar hlutfallskosningar eru viðhafðar.