Fara í efni

Umsagnarbeiðni; þingsályktunartillaga Tröllaskagagöng milli Skagafjarða og Eyjafjarðar

Málsnúmer 2002034

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 902. fundur - 19.02.2020

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 5. febrúar 2020 frá nefndasviði Alþingis þar sem send er til umsagnar tillaga til þingsályktunar um Tröllaskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar, 302. mál.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að senda eftirfarandi umsögn:
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar framkominni þingsályktunartillögu um að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra láti hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga.
Sveitarfélagið Skagafjörður og Akureyrarbær hafa á undanförnum misserum lagt þunga áherslu á að hagkvæmni og samfélagsleg áhrif með tilkomu Tröllaskagaganga verði könnuð til hins ítrasta. Sveitarfélögin sendu m.a. áskorun til stjórnvalda í febrúar árið 2019, þess efnis að þau fjármagni grunnrannsóknir og samanburð á kostum á legu mögulegra jarðganga undir Tröllaskaga, auk rannsókna á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum slíkra ganga.
Fyrirfram er ljóst að með tilkomu Tröllaskagaganga myndi vinnusóknarsvæði á Mið-Norðurlandi stækka verulega og þjóðhagsleg og samfélagsleg áhrif yrðu mikil. Samgöngubót sem þessi myndi styrkja Mið-Norðurland verulega sem raunverulegan valkost við höfuðborgarsvæðið og styrkja svæðið á margháttaða vegu. Eru þá ótalin öryggissjónarmiðin en þau hafa endurspeglast vel í vetur í þeirri tíðu lokun vega sem verið hefur á Mið-Norðurlandi. Má þannig nefna að þjóðvegur 1 um Vatnsskarð hefur verið lokaður í 16 skipti síðan 10. desember sl., þjóðvegur 1 um Öxnadalsheiði í 18 skipti frá sama tíma, Þverárfjall um 24 skipti og Siglufjarðarvegur um 22 skipti. Þess má geta að þjóðvegur 1 um Vatnsskarð og Öxnadalsheiði er í þjónustuflokki 2 hjá Vegagerðinni á meðan Þverárfjallsvegur og Siglufjarðarvegur eru í þjónustuflokki 3, sem skýrir þennan mun á fjölda lokunardaga. Með tilkomu Tröllaskagaganga yrði því unnt að tryggja mun betur samgöngur á milli stærstu þéttbýlisstaða á Mið-Norðurlandi, auka öryggi vegfarenda, bæta öryggi þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, styrkja samfélögin á svæðinu, stækka vinnusóknarsvæði, efla ferðaþjónustu ? og svona mætti lengi halda áfram.
Öll teikn eru á lofti um að hér sé um að ræða einhverja þjóðhagslega hagkvæmustu
samgöngubót sem hægt er að ráðast í á landsbyggðinni og því afar brýnt að nú þegar verði hafin vinna við rannsóknir, frumhönnun og útreikninga á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga.