Fræðslunefnd - 156
Jóhanna Ey Harðardóttir, fulltrúi Byggðalista, leggur fram tillögu að ályktun og óskar eftir stuðningi nefndarinnar við hana.
Ályktun um skólaakstur í grunnskóla Nr. 656/2009
Fræðslunefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á stjórnvöld að setja öryggi barna á grunnskólaaldri í forgang í allri ákvarðanatöku hvað varðar skólaakstur í grunnskóla. Óskar nefndin eftir að reglugerð um skólaakstur í grunnskóla nr. 656/2009. verði tekin til endurskoðunar með tilliti til atriða sem tilgreind eru hér að neðan:
1.
Samkvæmt 2. Gr Reglna um skólaakstur í grunnskóla ( Nr. 656/2009 ), er sveitarfélögum skylt að bera kostnað og ábyrgð á öryggi, velferð og hagsmunum nemenda í skólaakstri og að uppfylltar séu kröfur laga og reglugerða um umferðaröryggi.
Fræðslunefnd fer fram á að heimild sveitarfélaga verði gerð skýrari hvað varðar framfylgd reglna er varða öryggi, velferð og hagsmuni nemenda á grunnskólaaldri. Að sett verði lágmarks viðmið um þekkingu og heilsufarslegt ástand bílstjóra svo öryggi nemenda á skólaaldri verði eins og best er á kosið.
2.
Samkvæmt 6. gr um skólaakstur í grunnskóla ( Nr. 656/2009 ) skal bifreiðastjóri skólabifreiða hafa aukin ökuréttindi og hafa sótt skyndihjálparnámskeið og önnur þau námskeið sem sérstaklega eru ætluð bifreiðastjórum fólksflutningabíla.
Ef litið er á reglugerð um leigubifreiðar 3. Gr. ( Nr. 397/2003), þá er Vegagerðinni gert skylt að halda námskeið fyrir þá umsækjendur um atvinnuleyfi, sem fullnægja tilskyldum skilyrðum. Jafntframt skal Vegagerðin halda námskeið fyrir forfallabílstjóra sem fullnægja tilskyldum skilyrðum. Vegagerðin skipuleggur slíkt námskeið, ákveður kennslutilhögun, námsefni, prófreglur og námskeiðsgjald. Bifreiðastjóri skal, sé þess óskað, leggja fram læknisvottorð frá trúnaðarlækni Vegagerðarinnar sem staðfestir starfshæfni hans með tilliti til heilsufars.
Fræðslunefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar fer fram á að sett verði skilyrði um að bílstjórar skólabifreiða undirgangist námskeið líkt og bílstjórar leigubifreiða er skylt að undirgangast og jafnframt verði sveitarfélögum heimilt að kalla eftir læknisvottorði hjá trúnaðarlækni sveitarfélagsins ef þess gerist þörf.
3.
Í 8 .gr. um skólaakstur í grunnskóla ( Nr. 656/2009 ) kemur fram að telji foreldri einhverju áfátt í fyrirkomulagi skólaaksturs eða að á rétti barnsins sé brotið getur það leitað leiðréttingar hjá sveitarstjórn eða hlutaðeigandi skólastjóra.
Fræðslunefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar óskar eftir því að gerð verði skýrari heimildir sveitastjórnar og / eða hlutaðeigandi sveitarstjóra um að krefjast ítarlegra upplýsinga eða yfirlýsingar frá lækni eða öðrum sérfræðingi, þannig að hæfi bílstjóra verði metið út frá læknisfræðilegri rannsókn. Eins og fram kemur í 2.gr. reglugerðar nr. 656/2009 bera sveitarfélög ábyrgð á öryggi og velferð barna í skólaakstri í grunnskóla og teljum við því réttast að þessi heimild liggi hjá sveitarfélögunum.
Fræðslunefnd tekur heilshugar undir ályktunina og samþykkir að fela sviðsstjóra að senda hana mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Nefndin ítrekar að málið hefur verið á dagskrá hennar áður og mikilvægt að eyða óvissu um heimildir sveitarfélaga gangvart ábyrgð á skólaakstri grunnskólabarna.
Bókun fundar
Afgreiðsla 156. fundar fræðslunefndar staðfest á 400. fundi sveitarstjórnar 24. júní 2020 með níu atkvæðum.
Fulltrúar VG, sátu hjá við afgreiðslu liðar 4.1.