Fara í efni

Samráð; Drög að frumvarpi til laga um opinberan stuðning við nýsköpun

Málsnúmer 2009291

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 934. fundur - 07.10.2020

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 28. september 2020 þar sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 202/2020, "Drög að frumvarpi til laga um opinberan stuðning við nýsköpun". Umsagnarfrestur er til og með 09.10.2020.
Með frumvarpinu er verið að breyta umgjörð í kringum opinberan stuðning við nýsköpun í landinu. Í markmiðsgrein frumvarpsins segir að markmið laganna sé að efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu, m.a. með „áherslu á nýsköpun á landsbyggðinni.“ Ætlunin er að ná því markmiði með því að „framlög til og áhersla á nýsköpun á landsbyggðinni verði aukin í samvinnu við sveitarfélög, landshlutasamtök, atvinnulíf og þekkingarsamfélög á staðnum.“ Enn fremur segir í greinargerðinni: „Þá er lagt upp með að settur verði á fót verkefnasjóður fyrir nýsköpun í samstarfi við landshlutasamtök sveitarfélaga og sóknaráætlanir landshlutanna. Þessi verkefnasjóður er viðbót við þau verkefni og framlög sem nú eru til staðar á vegum sóknaráætlana landshlutanna.“ Þá segir í greinargerðinni að „Unnið verði að sterkari umgjörð fyrir starfsemi stafrænna smiðja sem byggir á samvinnu atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnulífs.“
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar markmiði frumvarpsins um eflingu opinbers stuðnings við nýsköpun með áherslu á aukin framlög til nýsköpunar á landsbyggðinni sem og áformum um sterkari umgjörð fyrir starfsemi stafrænna smiðja. Byggðarráð telur að beina eigi þeim stuðningi í farveg samvinnu við sveitarfélög og þekkingarsamfélög á hverju svæði fyrir sig og óskar eftir samtali við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið um slíka samvinnu.