Fara í efni

Áskorun á Reykjavíkurborg

Málsnúmer 2011213

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 941. fundur - 24.11.2020

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar harmar þá stöðu sem upp er komin í málefnum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Reykjavíkurborg virðist ætla að halda til streitu kröfu á hendur Jöfnunarsjóði upp á um 8,7 milljarða króna fyrir meint vangoldin framlög úr sjóðnum. Þessari kröfu hefur þegar verið hafnað af hálfu ríkisins.
Ljóst er hins vegar að muni krafan ná fram að ganga þá eru það sveitarfélögin í landinu, í gegnum Jöfnunarsjóð, sem á endanum munu greiða kröfuna í formi skertra framlaga til þeirra eins og fyrri kröfur sem lent hafa á sjóðnum. Með því er ljóst að fjárhagsleg framtíð sveitarfélaga í landinu er í uppnámi sem og framtíð þess jöfnunarkerfis sem hingað til hefur verið sátt um á meðal sveitarfélaga landsins. Mörg sveitarfélög treysta að miklu leyti á framlög Jöfnunarsjóðs til að sinna þeim fjölmörgu verkefnum sem þeim eru falin og því ljóst að skerðing á framlögum til þeirra í gegn um jöfnunarkerfið mun gera mörgum sveitarfélögum ókleift að sinna þessum verkefnum. Það mun leiða til þess að þjónusta við íbúana mun skerðast verulega frá því sem nú er.
Flest sveitarfélög landsins takast nú á við mjög erfiða fjárhagsstöðu á árinu 2020 og jafnframt er flestum þeirra mikil áskorun að ná endum saman við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021. Nái krafa höfuðborgar Íslands, sem byggð hefur verið upp af hálfu ríkisins og skattborgara landsins alls sem miðstöð stjórnsýslu, menningar, íþrótta og lista, fram að ganga er ljóst að rekstur sveitarfélaga landsins er í uppnámi um komandi framtíð.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á Reykjavíkurborg að draga kröfu sína til baka og leita annarra leiða gagnvart ríkisvaldinu til að ná fram þeirri leiðréttingu sem borgin telur sig eiga rétt á en í gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaga og þar með gagnvart sveitarfélögunum í landinu, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra. Byggðarráð skorar jafnframt á önnur sveitarfélög landsins að taka undir bókunina og gera að sinni.