Staða framkvæmda í upphafi skólaárs í leik- og grunnskólum
Málsnúmer 2108205
Vakta málsnúmerFræðslunefnd Svf. Skagafjarðar - 170. fundur - 30.08.2021
Lagt fram til kynningar minnisblað um stöðu framkvæmda í leik- og grunnskólum í Skagafirði. Fræðslunefnd samþykkir að þær úttektir og skýrslur sem liggja fyrir um starfsumhverfi leikskóla verði sendar byggðarráði til kynningar. Steinunn Rósa Guðmundsdóttir, fulltrúi VG og óháðra, óskar bókað: "Á fundi fræðslunefndar í mars sl. var kynnt að leikskólinn Tröllaborg myndi opna í nýju húsnæði haustið 2021. Nú er ljóst að það mun takast í fyrsta lagi í lok október, byrjun nóvember 2021. Leikskólaráð minnti á lóðamál vorið 2020 og foreldrafélag ítrekaði það í mars og maí 2021. Samt sem áður er fyrst nú verið að hefja framkvæmdir og ljóst að þeim mun ekki ljúka fyrr en sumarið 2022. Sökum stöðu mála viljum við ítreka að þessari vinnu verði flýtt eins og kostur er t.d. með tilliti til þrifa og flutninga og jafnvel kanna hvort hægt sé að ljúka framkvæmdum á hluta lóðar". Axel Kárason, fulltrúi Framsóknarflokks og Elín Árdís Björnsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks óska bókað: "Fulltrúar meirihluta í fræðslunefnd harma seinagang í frágangi á lóð við nýja leikskólabyggingu á Hofsósi. Síðastliðin ár hefur það tíðkast að leita til verktaka í héraði/nærsvæði í framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins. Er þá horft til þess að nýta þær framkvæmdar til að efla fyrirtæki í héraði. Gallinn við það fyrirkomulag er sá, að það geti komið fyrir að erfitt sé að fá þá verktaka sem í boði eru, og verk tefjist fram úr hófi. Það er því miður raunin á Hofsósi að svo stöddu, og harmar meirihlutinn þessa stöðu en fagnar að unnið sé að lausnum".